Færsluflokkur: Dægurmál

Þegar fingur verða langir og vasar djúpir

Framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, Andri Óttarsson, játar að hafa tekið á móti stórum fjárhæðum frá fyrirtækjum í opinberri eigu. Þetta heita á mínu heimili "mútur", get ég skotið inn hér, en viðmiðin eru greinilega mismunandi.  Hann setur fyrirvara á endurgreiðslur, að allt verði endurgreitt sem "stangist á við lög". Hvað er maðurinn að fara?  Er honum og flokkselítunni ekki ljóst að það er fullkomlega siðlaust að taka við fjármunum frá opinberum fyrirtækjum eða fyrirtækjum í opinberri eigu, ef ekki hefur komið til stjórnvaldslegrar ákvarðanatökum þess efnis?

Nú þegar íslenska þjóðin er látin greiða spilavítaskuldir "útrásarliðsins" og þegar handrukkarar IMF koma og krefjast vaxtahækkana af hálfsligaðri þjóðinni - kemur í ljós að Sjálfstæðisflokkurinn hefur gengið sjálfala í fjárhirslum ríkisins. Sjálftakan verður að hætta. Þetta eru fjármunir þjóðarinnar ekki stjórnmálaflokka.

Neyðarlínan, þetta fyrirtæki sem þjóðin hefur borið traust til hingað til, hefur einnig verið girt spurningamerkjum. Hvaða ávinning ætlaði Neyðarlínan sér með slíku athæfi að greiða hundruðin þúsunda króna í djúpa vasa Sjálfstæðisflokksins?   Þetta ber að athuga ekki síður en að skoða hverjir aðrir hafa verið að leggja fé í hendur sjálfstæðismannanna og þá með hvaða ávinning í huga?

NÝTT FORDÆMISGEFANDI FRÁ SVÍÞJÓÐ:

http://www.dn.se/opinion/debatt/vi-stoppar-chefsbonusar-i-statens-alla-foretag-1.828559 ´

Já, Svíar hafa hætt með allar bónusgreiðslur til yfirmanna, fyrir stjórnarsetu og fyrir að sitja í nefndum og ráðum opinberra sjóða.    Gæfan gefi að slíkt fyrirfinnst ekki á Íslandi.


mbl.is Skilar framlagi Neyðarlínunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Svo fór að snjóa aftur í Stokkhólmi

Ég verð að játa að mér finnst þetta orðið svolítið leiðigjarnt og farið að minna ískyggilega á íslenskt veðurfar.  Fyrir nokkrum dögum var +7°C og rjómablíða hér í borg. Núna hefur þessi kærkomni hiti horfið og í morgun var snjór yfir öllu og -3°C.  Vetrarlegt ekki satt?

DSCF2017

Tók þessa mynd í ljósaskiptunum eldsnemma í morgun. Horft til suð-austurs af svölunum mínum, út yfir Lappkärret. Í fjarska gefur að líta fjarvarmastrompa í Stór-Stokkhólmi og "Gömlu gasklukkuna" sem stendur í hverfinu Hjorthagen. [BGB]


Ptolemaios - elska þinn næsta

Sumar fjölskyldur segja sig eiga í innri vandræðum og stríði. Spurningin er hvort þessar fjölskyldur ættu ekki að hugsa málið svolítið betur og sjá að oft er um smáskeinur og minniháttar hagsmunaárekstra að ræða. Hér drep ég stutt á sögu einnar fjölskyldu sem virðist hafa átt erfitt með að tala saman og leysa innri ágreining (það er erfitt að greina frá öllu í krónólógískri röð því fólk kom og fór á veldisstóli faraóarna):

Ptolemearnir (hvílíkt lið!)

Ptólemaios XII  Faraó yfir Egyptalandi. Hann vissi aldrei hvort hann var að koma eða fara. Tvisvar er hann faraó. Hann vissi aldrei hver móðir hans hefði verið, hún var sennilega myrt. Hann var sérstakur á margan hátt. Spilaði á flautu og elskaði svallveislur og munað. Klæddi og málaði sig svo að erfitt var á stundum að vita hvort hann var karl eða kona, eða hver hann almennt væri. Þetta kallast víst að vera andrógyn í dag. Nú, hann átti ekki alla sjö dagana sæla. Þegar hann var löngum að heiman, greip dóttir hans, Berníke fram fyrir stjórnartaumana og gerði hann útlægan. Hundeltur af hermönnum dóttur sinnar náði hann þó að komast til Egyptalands aftur þar sem hann lét síðar myrða dóttur sína Berníke sem þá ríkti yfir Egyptalandi (sjá neðar).

Kleópatra V Var drottning Ptólemaíósar XII og meðstjórnandi. Hún tók þátt í uppreisn dóttur sinnar Berníke IV mót eiginmanni sínum og föður Berníkes IV. Berníke fannst hún erfið í stjórnarsamstarfinu svo hún lét myrða móður sína.

Berníke IV Faraó varð hún eftir að hafa rekið föður sinn Ptólemaíós XII frá völdum. Hún sat sem faraó frá árinu 58 til 55 þá er faðir hennar mútaði sér inn í ríkið (en hann hafði verið gerður útlagi)  og tók við valdataumum aftur með aðra dóttur sína Kleópötru VI sem meðstjórnanda. Í kjölfarið lét hann myrða Berníke IV.

Kleópatra VI Var elsta dóttir Ptólemaíósar XII. Faraó í tvö ár saman með litlu systur sinni Kleópötru VII sem síðan lét eitra fyrir henni.

Arsinóe IV Gerði uppreisn mót Kleópötru VII. Var síðan myrt af Antóníusi, að beiðni Kleópötru.  

Kleopatra VII  Faðir hennar dó þegar hún var 18 ára.  Hún átti barn með Júlíusi Sesari og Markúsi Antóníusi. Framdi sjálfsmorð.

Ptólemaios XIII  Faraó 51-47 f.Kr. við hlið Kleópötru VII.  Lenti upp á kant við Kleópötru hélt sig undan en lenti síðan í ófriði við Rómverkja og dó (drukkaði).

Ptólemaios XIV Var faraó í stuttan tíma við hlið Kleópötru (samstjórnandi) en var síðan byrlað eitur af hverju hann dó stuttu síðar.

Ptólemaios XV ”Caesarion” sonur Caesars og Kleópötru VII. Lifði til 17 ára aldurs eða fram til loka orrustunnar við Actium. Var myrtur eftir hana.

Ptolemaios XII [117-51] 66 ára                                   

Kleópatra V [?-?]                                          (eiginkona Ptolemaiosar XII) Byrlað eitur.
Berníke IV  [77-55] 22 ára                            (dóttir Ptolemaiosar XII) Sennilega skorin á háls.
Arsinoe IV [67-41] 26 ára                             (dóttir Ptólemaiosar XII) Stungin með hníf.

Kleópatra VII [79-30] 49 ára                         (dóttir Ptólemaiosar XII) Framdi sjálfsmorð, eitur.
Ptolemaios XIII [61-47] 14 ára                      (sonur Ptolemaiosar XII) Druknar.
Ptolemaios XIV [60-44] 16 ára                      (sonur Ptolemaiosar XII) Byrlað eitur.
Ptolemaios XV [47-30] 17 ára                       (sonur Kleópötru VII) Myrtur.


Bambar

Þegar ég vaknaði í morgun varð mér lítið út og sá ég þá þessi dádýr skoppandi um í skóginum sem skilur að götuna mína og litla stöðuvatnið Lappkärret (sem er á stærð við hálfa Tjörnina í Reykjavík).

DSCF2020

Litlu fallegu hirtirnir sem hafa verið að skoppa hér í skóginum eru kallaðir rovdjur hérna úti og eru til út um alla Svíðþjóð og mest alla Evrópu. Latneska heitið er (Capreolus capreolus) og eru dýrin lítil og létt eða um 20-30 kg.  Hérna fyrir utan húsið þar sem ég bý á Norra Djurgårdslandet hafa fjögur dýr verið að trítla þetta fram og til baka í fæðuleit í morgun.  Datt í hug að skella in mynd af tveimur þeirra. Eins og sjá má hefur snjóað hérna og verður ekkert lát á snjókomunni fyrr en eftir 2 daga. 

DSCF2022


Það er blessuð blíðan, eða?

Óveður á Kjalarnesi, ófært á Fróðárheiði og Öxi lokuð. Hér í Stokkhólmi hefur snjórinn aldrei náð meir en 15cm þykkt og hér verður sjaldan verulegt rok.  Kuldinn hefur farið niður í -16°C, en þá hafa verið stillur og besta veður. Aðal vandamálið er að jafnvel þótt daginn sé farið að lengja er búið að vera þungskýjað hér yfir Svealandi mjög lengi.  Stokkhólmur hefur ekki séð sól í næstum því 9 daga.

Ekki sólarglennu!  Kannski að sólin hafi farið í "sólsemester". Það er nú farið að nálgast þann daginn að ég leggi mig í ljósabekk og safni svolítið lit á mig. Fólk er farið að labba á mig, líklega er ég gegnsær orðinn af ljósleysi, svona eins og kúpifiskur. Sá að kona í strætó var að reyna að lesa auglýsingu í gegnum mig í gær!  Skúmt!!!

 vegagerdin

Nú var ég að heyra í veðurfréttunum að það gæti farið að snjóa úr þessum grámuggulegu og þungu skýjum sem hanga hér yfir þessari fallegu borg. Vonandi fer svo vorið að koma. Finnst eins og maður sé að sofna þótt maður sé nývaknaður. Ég þarf bara á sól að halda, D-vítamín í kroppinn.


mbl.is Víða þæfingsfærð á heiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hryggileg sjón að sjá!

Sorglegt að sjá farið illa með góðan, þjóðheilan málstað. Látum ekki skrílslæti eyðileggja fyrir okkur. Við erum reið, en látum ekki skrílslæti fara með góðan málstað í gröfina.

Að brjóta rúður, skemma almannaeigur og valda tjóni, gerir róðurinn bara léttari fyrir ríkisvaldið að beita ónauðsynlegri hörku. Skemmdarverk skrifast bara á reikning sem verður svo sendur þjóðinni og hver er ávinningurinn þá?  Skilaboðin verða óskýr og blendin með skemmdarverkum og skrílslátum.  Að brenna Óslóartréð er skammarlegt. Það er gjöf frá annarri þjóð. Og hefur ekkert með nein yfirvöld að gera. Það er gjöf fólksins í Osló til fólksins í Reykjavík. Látum ekki reiði okkar bitna á dauðum hlutum og eigum okkar sjálfra.

Slíkt eyðileggur fyrir okkur öllum.


mbl.is Jólatréð brennt á bálinu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfismál á míkrómælikvarða

Ég var í gær að bera saman í huganum umferðarmenningu Svíans hér í Stokkhólmi og umferðarómenningu Íslendingsins í Reykjavík. Ég vil taka fram að ég hef ekki oft ekið bíl hér í Stokkhólmi. Ég leigði bíl þegar staðið var í flutningum hér innanborgar og svo ók ég líkbíl fyrir Fonus útfarastofuna hér í Stokkhólmi fyrir tveimur árum. 

traffic 

Í Stokkhólmi búa um það bil 1,2 milljónir og ökutækjaeign er mikil, en ekki nándarmikil og miðað við höfðatölu í Reykjavík. Þetta hefur verið skýrt á þann máta að Íslendingar eru meiri einstaklingshyggjumenn en frændurnir í austri. Ég verð að játa að stundum finnst mér lífsstíll Íslendinga vera svolítið brjálaður. Ég hef átt þess kost að bera saman svolítið lífsverðmætamat þessara þjóða. Ég hef komist að því að líklega er best að tala um hvað sér "heilbrigðara"; líf Íslendingsins eða Svíans.  Nú á ég ekki við mataræði. Ég á við lífsgæðamat, hvað þjóðirnar meta mest. Mér hafa þótt Svíar vera nægjusamari, skipulagðari, tillitsamari, séðari, latari, þolinmóðari og haldnir sterkari réttlætistilfinningu en Íslendingar.  Mér finnst eins og Svíarnir skilji betur heildarmyndina.  Að sé lífið okkar ekki "fair play" gengur samfélagið alls ekki upp. Allt riðlast sundur og allir munu líða ef svo fer.  Íslendingar eru hins vegar miklu duglegri, úthaldsbetri, einstaklingssinnaðri, alveg lausir við skynsama réttlætistilfinningu og þeir eru óðir í umferðinni.

Ég tek þetta með umferðina sérstaklega. Ég hugsaði einu sinni þegar ég gekk í skólann, en þá gekk ég næstum hvern morgun úr Fossvoginum og niður í Menntaskólann við Sund. Ég horfði á mengunarmistrið ofan af Réttarholtshálsinum og hugsaði oft af hverju þetta þyrfti að vera svona.  Esjan stundum fékk að kenna á þessu, svo að vart sást upp upp í hálfar hlíðar hennar fyrir mengunarslæðunni sem hékk sem hálsklútur um hana miðja. Svo gekk ég niður í mengunardalinn og niður í skólann í Sundin. Ég, með hliðsjón að þeim tíma sem ég hefi búið í bæði Stokkhólmi (2004- )og í Kaupmannahöfn (1996-1997) spyr ég mig: Eru Íslendingar virkilega svo grunnhyggnir að halda að þeir muni geta lifað svona lífi; að allir aki á sínum einkabílum til vinnu, skóla, í líkamsræktina, í saumaklúbbinn? 

Ungt fólk, námsmenn hafa ekkert, almennt séð, með bíl að gera, fólk sem fer oftast bara milli a og b í sínum dagserindum hefur ekkert með bíl að gera. Til að mæta þessu má auka notkun á strætisvagnakerfi, öllum til fjárhagslegs ávinnings og náttúrunni til verndar. Þetta virðist vera umhverfismál á míkrómælikvarða, en í raun og sann er þetta stórmál. Talið er að mengun frá nagladekkjanotkun í Stokkhólmi leiði til hundraða ótímabærra dauðsfalla og langveikinda hjá fólki hér í borg.  Hvernig er það þá á Íslandi í samanburðinum? 

Aukin notkun strætisvagna leiðir til bættrar þjónustu Strætó.

Aukin notkun strætó leiðir til bætts fjárhags einstaklinga og heimila. Mánaðakort í strætó kostar minna en bensínið, tryggingarnar, viðhaldið, olíuskiptin og tvenn dekkjaskipti á ári (ásamt fleirum kostnaðarliðum), að ekki sé talað um leiðindin að sitja fastur í umferðarhnút hvern gefinn dag.  :)

Notum almenningssamgöngur, skipuleggjum ferðir okkar betur og spörum peninga og náttúruna.

 


Minningarmörk i Hólavallagarði

Mér finnst rétt svona í tilefni þess að 170 ár eru síðan vökukona Hólavallagarðs Guðrún Oddsdóttir, amtmanns Stefáns Stefánssonar, var grafin í garðinum og hann þar með helgaður framtíðar hlutverki; sínu að veita Reykvíkingum hinsta jarðneska hvílustað - að minna á frábæra bók Björns Th. Björnssonar listfræðings Minningarmörk í HólavallagarðiBókin kom út hjá Máli og menningu árið 1988. Bókin er prýdd mörgum ljósmyndum og teikningum. 

Endilega kynnið ykkur þessa frábæru bók Björns Th.


mbl.is Kirkjugarðurinn við Suðurgötu 170 ára
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvaða lausn er í því að banna vændi?

Margar þjóðir hafa nú tekið til við að banna vændi með lögum, gera það refsivert að kaupa og þar með komið af stað enn verri vítahring. 

Með því að gera vændi saknæmt, er verið að skapa undirheimaveröld sem mun efla um allan mun ólöglega neðanjarðarstarfsemi og þrælastarfsemi undirheimaklíka og mafíuvelda.  Þetta mun þannig tengjast eiturefnaneyslu og sölu á fíkniefnum og hverfa frá hinum "þekkta" heimi hversdagsins. Öryggi þeirra sem selja líkama sinn, eða réttara sagt nota líkama sinn sem atvinnutæki, munu líða fyrir óöryggi og réttleysi gagnvart lögum og ekki njóta neinnar lagaverndar. 

Er ekki betra að þessi elsta starfsgrein heimsins fái að vera til á yfirborðinu, leyfa mannlega virðingu fyrir heiðvirt starf, gefa þessu fólki sem starfar á sviði vændis heilbrigðisþjónustu, tryggingar og öryggi.  Með því að fela vændið, hverfur það ekki. Það mun alltaf vera til. Það er mitt mat að mannréttindum og mannvirðingu sé betur skýlt og varið gegn því að fela þessa starfsgrein ekki.

 

 


mbl.is Vændið verði ólöglegt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Heillaóskir til mótmælenda!

Þið sem ætlið að mótmæla niðurlægingunni, siðleysinu, viðbjóðinum, lygunum öllum, óréttinu, myrkri framtíð barnanna okkar, hækkuðum vöxtum - ÖLLUM pakkanum:  

GANGI YKKUR VEL.  VERIÐ LANDI OG ÞJÓÐ TIL SÓMA, VERIÐ EINBEITT OG STAÐFÖST!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband