Færsluflokkur: Dægurmál
8.11.2008 | 19:55
Bónusfáni á Alþingihúsinu!!!
Frétti hingað til Svíþjóðar að Íslendingar hefðu flaggað Bónusflaggi við hún flaggstangar Alþingishússins. Kunningi minn var að segja að ástandið myndi stigversna núna næstu tvær helgar og ná hámarki við mánaðarmótin þegar uppsagnabréfin hafa farið út fyrir mánaðarmótin.
Svo ef þetta á að fara hríðversnandi verður það þá PrisExtra- eða Lidl-flagg sem blaktir þá við hún á Alþingishúsina næstu laugardaga?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 19:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.11.2008 | 09:20
Er þetta ekki talandi um ástand okkar venjulega fólksins
Ég rakst á þessa mynd á bloggi vinkonu minnar. Þetta er úrklippa úr dagblaði hér í Stokkhólmi. Hún talar fyrir sig sjálfa:
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
6.11.2008 | 19:34
Færeyjum allt!
Það vinarþel sem Færeyingar hafa sýnt okkur er fordæmislaust. Þessi óeigingjarna vinátta sýnir okkur hverjir standa okkur næst.
Skrifið ykkur endilega á listann ef þið viljið og sýnið þessu frændfólki okkar þakklæti okkar á táknrænan hátt. Við munum svo reynast þeim bestir fóstbræður þegar fram líða stundir og hagur þjóðarinnar fer að vænkast.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.11.2008 | 17:15
Sameinumst gegn óréttlætinu
Hefur þú heyrt að stjórnmálamenn hafi reynt að komast hjá því að segja sannleikann um einhverjar stjórnarathafnir?
Hefur þú heyrt einhvern stjórnmálamann ljúga beinlínis að þjóðinni?
Hefur þér fundist siðleysið fara hreinlega úr böndunum hvað varðar fjármálastjórn landsins?
Hefur þú merkt hroka stjórnmálamanna í þinn garð?
Blöskrar þér bruðl stjórnmálamanna á skattpeningunum þínum?
Hefur þú heyrt að stjórnmálamenn hafi ekki viljað svara fyrir hlutabréfaeign sína í ónefndum fyrirtækjum?
______________________
Því miður hef ég getað svarað "já" við öllum spurningum. Hvað með þig?
Ég hvet alla landsmenn að svara óréttlætinu sem þeir eru beittir. Hvet þá að krefjast afsagnar bankastjóra og bankastjórna allra banka í landinu, ríkisstjórnar, bankaeftirlits og alþingismanna. Sameinast um málstað þjóðarinnar.
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
3.11.2008 | 16:31
Hættulegar eldspýtur
(mynd)
Ég keypti fyrir nokkrum mánuðum nokkra eldspýtustokka af tegundinni Europa Hölzer (sjá mynd). Þessar eldspýtur eru vandmeðfarin vara. Þegar kveikt hefur verið á eldspýtunum, brennur brennisteinninn svo fljótt að hann nær ekki að lífga loga í sjálfri tréspýtunni. Blossinn hverfur næstum svo skjótt sem hann hefur lifnað. Takist manni á annað borð að fá loga að festast í spýtunni, brennur hún illa. Brenni spýtan á annað borð brotnar oft fremsti hluti eldspýtunnar oft af. Í þeim hluta er oft glóð sem svíður sig í tré, brennir gat á vefnað og teppi.
Af fenginni reynslu datt mér í hug að vara fólk við þessari tegund eldspýtna.
Dægurmál | Breytt 8.8.2009 kl. 09:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
2.11.2008 | 16:26
Færeyingar stórasta þjóð í heimi
"Ber er hver að baki nema sér bróður eigi" er máltæki sem nú sannarlega hefur fengið nýtt líf og ekki bara það, heldur hafa bræður okkar Færeyingar sýnt okkur að máltækið er ekki bara orðin, heldur hafa þeir gætt þau lífi. Færeyingar hafa stórt hjarta og hafa sýnt Íslendingum í verki að þeirra kærleikur er ekki bara orðin tóm. Nú hafa þeir boðið okkur 5,5 milljarða króna sem GJÖF, að það megi verða Íslendingum til hjástoðar.
Þetta göfuglyndi Færeyinga á sér enga hliðstæðu í íslenskri sögu.
Þá þykir mér rétt nú að færeyski atvinnurekandinn sem vill gefa Íslendingum þessar 5 500 000 000 milljónir króna fá þegar í stað stórkross fálkaorðunnar. Einhver fín gata í Reykjavík verði nefnd eftir Færeyjum og að ungum Færeyingum verði veitt frítt aðgengi að öllum skólum á Íslandi, flugvallarskattar verði afnumdir af flugi frá Færeyjum, svo eitthvað sé nefnt.
Takk Færeyingar! Stórasta þjóð í heimi.
http://www.olivant.fo/?lg=55595
Vill gefa Íslendingum 300 milljónirnar | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 16:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
28.10.2008 | 17:33
Stjórnmálamaður segir af sér!
Ofurlaunyfirembættismanna ríkisins voru fyrir nokkrum árum í umræðunni þegar Kjaradómur úrskurðaði einhverja mestu hækkun til þeirra sem þekkt er. Ég minnist þess að einn þeirra sem fengu launin sagði aðspurður af hverju þeir hefðu fengið þessi ofurlaunahækkun: Að það væri vegna hinnar miklu ábyrgðar sem á embættisfærslu þeirra hvíldi að þeir væru með þessu háu laun.
Nú er því komið að skuldadögum. Mér finnst, að þessir umræddu aðilar sem setið hafa í toppembættum þjóðarinnar og þegið ofurlaunin, standi nú skil á embættisfærslu - gjörðum sínum og axli ábyrgðina sem þeir fengu svo rausnarlegar greitt fyrir.
Ég verð þeim degi fegnastur þá er tilkynnt verður um fráhvarf helstu ábyrgðarmanna úr stjórnmálum, efnahagskerfi, Seðlabanka og röðum þingmanna. Villtustu draumar þjóðarinnar snúast um fyrirsagnir dægurmálablaðanna. Hér er ein draumafyrirsögn: "Stjórnmálamaður segir af sér!"
Farið að pakka, þjóðin vill ykkur ekki lengur! Þið eruð ekki velkomnir lengur.
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 17:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
25.10.2008 | 11:34
Tilvísunarheimur nútímans og "þrívegurinn"
Burtséð frá því að ég telji að fólk líð af andlegri fátækt í dag, held ég að enn fleirum sé illa komið hvað varðar menningarsögulega fátækt. Þetta varð ég áskynja í safnaleiðangri mínum núna í fyrri viku.
Það er nú svo með mig að ég fer allnokkuð á listsýningar. Í vikunni fór ég á tvær mjög ólíkar sýningar, aðra í Nationalmuseum og hina á Moderna Museet hér í Stokkhólmi. Á báðum þessara sýninga var mikill fjöldi fólks. Stóð fólk nokkuð þétt í sýningarsölunum, svo þétt að ég heyrði hvað fólkið sagði sín á milli. Það var að spjalla um listaverkin, skýra út fyrir fylgdarfólki sínu, skiptast á skoðunum og áliti. Þetta var fróðleg ferð á vit hins nútímatengda samfélags, sem þó er svo þekkingarlega eftir á að manni blöskrar.
Ég vil taka það fram að tel mig ekki vera neinn "besservisser" í menningarsögu. Ég hef fengið góða almenna menntun og síðast en ekki síst leiðsögn af mínum nánustu. Tónlist, góðum kveðskap og ritverkum hefur verið haldið að mér frá barnæsku. Málverkalist, byggingalist og sögulegt samhengi þessa tveggja hefur verið hluti af lífi mínu. Fróðleiksfýsn og gleðin yfir því að hitta nýtt púsl í heildarmyndina, myndina sem gerir okkur að þeim við erum, menningarverum - hefur einatt verið mér samstíga í lífinu. Mér hefur verið innrætt að það menningarsamfélag sem við lifum í í dag, sé arfur fyrri tíma og kynslóða. Að þekki maður ekki til þess sem áður hefur verið, erum við innantóm í þekkingu okkar og fátæk. Fátæk í þeim skilningi að okkur vantar forþekkingu, forsendurnar eru ekki fyrir hendi og við því fátæk að því sem er mikilvægt. Tilvísunarheimur nútímans hefur skroppið saman. Orðið "tilvísunarheimur" er íslenskun mín á orðunum "reference world" (en.) eða "referens värld" (se.).
Þegar ég stóð þarna á þessum tveimur söfnum í vikunni, er ég nefndi hér að framan, heyrði ég fólk tala um listina. Mög listaverkanna höfðu skírar tilvitnanir eða skírskotanir til grískrar goðafræði, stjórnmálasögu, Biblíunnar, trúarkenninga, helgisagna, þekkra ljóða fornaldar, grasafræði, byggingalistar hinna ýmsu tíma og margt margt fleira.
Ég hugsaði með mér hvort fólkið sem hefur fengið góða grunnmenntun í menningasögu njóti ekki betur heimsóknar á listsýningar? Það er því að mér finnst núna í dag, vera kominn tími til að grunnskólar og framhaldsskólar leggi áherslu á að þekkingarmyndun á öðru plani en hingað til hefur verið gert.
Ég vil nefna þessa þekkingarmyndun "þríveginn":
Menningarsögu: Samfélagsfræði, saga, kristin fræði, siðfræði, landafræði, list o.fl...
Tungumál: Íslenska og erlend tungumál, framsögn og samskipti, ritun o.fl...
Raungreinar: Stærðfræði, eðlis- og efnafræði, jarðfærði, náttúrufræði, tölvufræði o.fl...
Þetta myndi, að mínu mati gera einstaklinga betur undir það búna að takast á við lífið og njóta þess alls sem það hefur upp á að bjóða. Ennfremur tel ég að nemendur í grunnskólum og gagnfræðaskólum ættu léttara með að finna sína að menntunartakmarki sínu. Þetta gæfi sömuleiðis góðan grunn fyrir þá sem hyggðu ekki á langskólanám eða kysu að fara aðra leið í starfsmenntunarferli sínu.
Spurning hvort ekki sé kominn tími til að skoða fátæklega og flókna aðalnámskrá grunn- og gagnfræðaskólanna?
Dægurmál | Breytt s.d. kl. 11:56 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.10.2008 | 07:49
Meistarar ljóss og skugga
Meistarar ljóss og skugga
(mynd)
(Mynd: "Guð lífs og endurnýjunar" eða "Hið alsjáandi auga Guðs". Framhluti hökuls i S:t Jakobskirkjunni í Stokkhólmi, gerður 1968 af Libraria fyrirtækinu. Mynd af höklinum i heild sinni hef ég sett fram áður í blogginu mínu. Gerð hökulsins reiknaðist sem ársverk fyrir 2 manneskjur. Táknfræðin á höklinum í heild er samstæð og afskaplega talandi fyrir bland nútímaguðfræði og upplýsingarguðfræði).
Í kvöld sit ég og hugsa listina og lífið. Ég er búinn að vera á fyrirlestri í Ríkislistasafninu í Stokkhólmi (Nationalmuseum). Fyrirlesturinn var nátengdur yfirstandandi sýningu sem kallast "Að blekkja augað" eða Trompe l'il..
Reyndar hafði ég þegar séð sýninguna og varð það ef til vill til þess að hugur minn hvarflaði til þeirra listamanna sem ég hef verið hvað mest í tengslum við í kirkjunni, en mikið hefur verið um listsýningar þar umliðin 2 ár. Samskipti við fjöldann allan af listamönnum og listnemum hefur fengið mig að skoða stöðu þessara samferðamanna okkar í gegnum lífið. Margir þessara listamanna sem ég hef haft næstum því dagleg samskipti við, eru illa staddir, mikið ævintýrafólk sem lifir fyrir einhver óraunveruleg listamannalífsídeöl sem lítið hafa með það öryggi og náðugheit sem ég kýs. Þetta fólk hefur þó sömu lífssýn og ég. Þetta fólk, listafólkið deilir með okkur sömu samfélagssýn, fjárhagslegum veruleika, gildismati og virðingu fyrir lífinu, lífi okkar rétti til skoðunarmyndunar. Þessir listamenn og listanemar, verða kannski einhverjir frækilegir meistarar ljóss og skugga, hver veit. Að kaupa listaverk þeirra er líklega eins og að kaupa hlutabréf. Maður gerir sér það til gamans, ekki vegna þess að maður veit að þau verða mikils virði fljótlega. Sama gildir um listamennina. Það skondna var að um daginn var einn kunningi minn úr þessu listamannagengi spurð hvað henni fyndist um efnahagsástandið og minnkun kaupmáttar. Hún svaraði "Ég hef lifað á barmi fátæktar allt mitt líf. Nú gleðst ég yfir því að loksins hafi ríkisvaldið og allir hinir fengið að kynnast, af eigin raun, hversu báglegt ég hef haft það."
En í hverju liggur gildismat okkar. Bindum við huga okkar við möguleikana sem við höfum, til dæmis að geta ferðast eða endurnýjað eldhúsið á 10 ára fresti eða bílinn á 4 ára fresti? Að geta leyft sér að fara út og borðað með vinum og vandamönnum oft og verslað í Hagkaup í stað Bónus? Eða liggur frelsið í einhverju sem ekki verður bundið í peningum og handfjatlað, neytt, ekið á um notað til daglegs brúks?
Í ávarpi sem h.h. Benedikt XVI páfi hélt fyrir nokkru, áminnti hann þjóðir heims um hin æðri gildi. Það var eins og einhver ónotakennd breiddist um heimsbyggðina og fólk sameinaðist um orð hins annars umdeilda Benedikts páfa. Hann hafði sagt það sem allir hugsuðu þegar þeir leituðu skjóls frá endalausa veraldarkapphlaupinu. Hver er ekki hinn innsti draumur alltra? Hver er ekki hinn innsti draumur þeirra sem sækja heim sálfræðinga, borða pillur mót streitu, pillur og næringarefni til að halda út einn tíma lengur og eta síða pillur og bætiefni til að bæta fyrir burttapaðan svefn? Hversu margir líða ekki af magasári, andþyngslum, ónotum fyrir hjarta, svima, síþreytu, líkamlegum verkjum - bara vegna álag og krafa samfélagsins og þeirra fyrirmynda sem fólki er beint á beint/óbeint að fylgja? Sem prestur og lífsferðalangur hef ég séð of mikið svona lagað. Ég játa það fúslega að mér þykir vænt um heiminn. Mér þykir vænt um allt þetta góða og fallega sem heimurinn hefur skapað og kallað fram. Það er ekkert að því. En samtímis má manneskjan ekki gleym hinum æðri gildum - gildunum sem Benedikt XVI talar um. Hér talar hann ekki um að við þurfum að "sætta okkur við neina meðalmennsku". Nei. Hann talar um hin æðri gildi. Hann talar um forgangsröðun.
Hver eru hin æðri gildi sem við eigum að kappkosta að vernda og forgangsraða? Hin æðri gildi eru þau sem gera okkur að manneskjum, það eru þau gildi sem gera okkur að góðum manneskjum. Gildin snúast um kærleikann til lífsins, kærleika og virðingu fyrir sjálfum sér og öðrum. Að höndla viskuna að gefa og kunna njóta óskilorðsbundins kærleika. Lifa heilbrigðu lífi í samhljóðan við getu okkar (og annara) og náttúrunnar.
Það er ekkert að því að vera rík(ur). En áður en þú verður rík(ur) þarftu að gæta að því að allir sem starfa fyrir þig hafi mannsæmandi líf. Þetta á við um alla sem starfa hjá þér, bæði grunnframleiðsluna í Ghana og Úganda sem og sölumennina á Siglufirði og í Kaupmannahöfn. Að vera ríkur er bundið meiri ábyrgð en fólk grunar.
Sama gildir um ríkidóm andans. Hann setur okkur skyldur en gefur svo óumræðanlega gleði. Hin stærri gildi lífsins snúast um að leita þess sem rétt er. Það er að setja sig númer eitt. Ef við elskum ekki okkur sjálf, getum við ekki elskað aðra. Við slítum okkur út og þá er ekkert að gefa. Byggjum því hvort annað upp, gerum samfélagið að hvatningarmiðstöð. Setjum brosið, liðveisluna, gleðina, einlægnina og trúmennskuna framar öðru í einn mánuð og sjáum hvort okkur líði ekki betur? Er þetta svo fjarstæðukennt? Vinna minna, tala við fólk, fara í heimsóknir, skíta í sjónvarpið, hringja í gamla vini, leita að fólki sem vantar hjástoð af einhverju tagi. Og sjá: Þér líður vel og þú ert komin(n) í forsal hinna æðri gilda.
Dægurmál | Breytt 8.8.2009 kl. 09:25 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.10.2008 | 15:14
Davíð! Geir! Þið gerðuð okkur að ölmusufólki!
Davíð! Geir! Bankastjórar og fjármagns"eigendur". Þið hafið gert okkur að ölmusufólki! Þessi verða eftirmæli ykkar í sögubókum barna okkar og barnabarna (ef þau lifa af hungrið, kuldann og eymdina)
Þetta eru hin nýju móðuharðindi. Ofannefndir eru okkar Lakagígar!
http://ekstrabladet.tv/nyheder/indland/article1067129.ece
Dægurmál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)