Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2009

Ólíkt með Íslandi og Svíþjóð

Stundum getur maður svekt sig ótrúlega mikið á smáatriðum. Líklega eru þetta þeir dagar þá er maður á bara að halda sig heima og skekkjast yfir sjálfum sér og láta aðra í friði.

Ég fór að hugsa um atriði sem svekkja mig:  

Í Svíþjóð notast maður enn við svæðisnúmer þegar hringt er milli landshluta. Þessum svæðisnúmerum er svo sleppt þegar maður hringir innan síns svæðis. Þá eru ekki öll númer jafn löng heldur. Án svæðisnúmers getur innansveitarnúmer verið 5 eða 6 tölur.

Að skrifa farsímanúmer er gert með ýmsum hætti:  Öll farsímanúmer byrja á 07 og síðan koma átta tölur eftir það. Farsímanúmer í eru sjaldan eða aldrei skrifuð í einni bendu: 0707872899 heldur vilja flestir að þau séu skrifuð:  070-9873211  eða 0721-238976. Sum númer eru svo skrifuð 07 0118 8644.

Skráning á kennitölu er gerð með ýmsu móti. Í Svíþjóð er byrjað á fæðingarári, síðan mánuði og síðan fæðingardegi. Síðan koma fjórar tölur eins og á Íslandi. Ekki er hægt að sjá á öftustu tölu hvers kyns einstaklingurinn er eða á hvaða öld hann/hún er fædd. Þannig að einstaklingur fæddur 23.02.1955 fær kennitölu sem byrjar 550223-0000. Þegar svo opinberir aðilar eru að biðja um kennitölu er oft beðið um "19" eða "20" fyrir ártalið þannig að kennitalan verður: 19550223-0000. Nb. í svona ífyllingum er sjaldan sagt hvort kennitalan á að vera 10 tölur eða 12 og hvort það á að nota bindistrik milli kt og fæðingardags.

Að ofansögðu má geta þess að dagsetningar eru skrifaðar afturábak þegar dagsetning er skrifuð þar sem það þarf.  Til dæmis er dagsetningin í dag: 09-04-14.

Insláttarborð í hraðbönkum eru öfug við það sem við þekkjum á Íslandi. Þau eru spegilvent. Þetta getur valdið kortatapi þegar maður man ekki PIN númerið sitt og sjálft númerið er slegið inn hugsunarlaust bara útifrá "hreyfingunni" við innsláttinn.

Á föstudaginn langa er ekki flaggað í hálfa stöng í Svíþjóð. Það er talið vera svo "niðurdrepandi".

Nafnsdagur er haldinn næstum jafn hátíðlegur í Svíþjóð og afmælisdagurinn. Leitt fyrir þá sem hafa nafn sem ekki er til á nafnadagatalinu (eins og mig).

Í Svíþjóð eru notaðar þrjár (3) mismunandi gerðir af bæninni "Faðir vor"!

Svíar tala um vegalengdir í mílum, ekki kílómetrum. Þó eru öll vegskilti með vegalengdum í kílómetrum (km).  Ein sænsk míla jafngildir tíu kílómetrum.

Í Svíþjóð getur maður valið að greiða ekki fullan tekjuskatt yfir lengri tímabil. Þetta veldur þó því að síðar muni maður þurfa að greiða "restskatt" eða skuldaðan skatt.

Já það er gaman að bera saman lönd og venjur...


Yfirlýsingar Guðlaugs Þórs hvítþvo hvorki hann né flokkinn

Eitt það versta sem stjórnmálamaður verður fyrir, er að fólk hættir að láta sig hann varða. Í tilfelli Guðlaugs Þórs Þórðarsonar virðist þetta ekki vera komið svo langt, enn.  Guðlaugur er í erfiðri stöðu og siðferðisspurningarnar hrannast upp allt í kringum hann og Sjálfstæðisflokkinn. Flokkurinn og nokkrir meðlimir hans hafa gerst sekir um siðlaust og mögulega löglausa innsöfnun á stórum fjárhæðum til flokksins.

Til að hvítþvo sig, vill Gunnlaugur nú misnota Ríkisendurskoðun til að annast þvottinn, en sjálfur vill hann ókunnugur um eitt eða neitt standa hjá og brosa sakleysisbrosi mót almenningi. En Guðlaugur Þór virðist vera að stíga í eigin gildru. Hann áttar sig greinilega ekki á að almenningur er að fá nóg af spillingu stjórnmálamanna.

Það versta er að gerast:  Fólki er sama. Það er orðið áhugalaust og Guðlaugur Þór er ekki lengur áhugaverður. Hann er með allt niður um sig og stjórnmálaframtíð hans er á lokasprettinum. Nú situr ekki Sjálfstæðisflokkurinn við völd, svo ekki er hægt að gera hann að yfirmanni einhverrar stofnunarinnar eða sendiherra. Þetta eru erfið mál fyrir Sjálfstæðisflokk.

Spillingarmálin hrannast upp og unga kynslóðin hefur ekki látið sitt eftir liggja. Græðgin hefur verið söm við sig, engin kynslóðamunur þar! 


mbl.is Óskar úttektar á störfum sínum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Páskavikan

Lengi hef ég orðið þess misskilnings var að fólk kallar vikuna fyrir páska eða dymbilviku/kyrruviku fyrir páskaviku. Þetta er náttúrulega alrangt. Hið rétta er að vikan eftir páska er sjálf páskavikan.

Síðustu dagar hafa verið allsnúnir. Mikil vinna og ég nær aldrei heima nema fyrir það eitt að ná einhverjum svefni og næringu í mig.  Svona vill þetta vera kringum jól og páska fyrir þá sem starfa í eða fyrir kirkjuna.  Nóg um það!  Ég er annars á leið heim!  Heim til Íslands. Ég hefi ekki verið á Íslandi síðan í október sl.  Þetta er skelfilegt, ég sakna fjölskyldunnar minnar svo mikið. Þetta verður stutt stopp og því harla lítið hægt að hliðra til, enda hverri mínútu ráðstafað og þar af leiðandi lítið svigrúm til breytinga eða afslappelsis. Ég hefði svo sem alveg viljað koma heim til Íslands og bara hvíla mig. Álagið er búið að vera gríðarlegt núna síðustu mánuði og skrokkurinn farinn að segja til sín. Ég er kominn með það sem Svíarnir kalla hälsporre (plantarfasciit á latínu), en það eru særindi í og kringum hælinn og oft ákaflega sársaukafullt að stíga í hælinn. Þetta gerir að allur kroppurinn merkir af því þegar ég reyni að hlífa fætinum og við þetta skekkist allt og álagið verður óvenjulegt á allan búkinn.   Eina sem hægt er að gera er að nota góða mjúka skó og hvíla fótinn. 

Annars eru eins og ég sagði búnar að vera miklar annir og var því kærkomið að skreppa í stutta ferð til Ångermanlands í Norður Svíþjóð núna fyrir páska.  Auðvitað var þetta ekki 100% frí, því ég hafði verið fenginn að skíra barn á laugardeginum fyrir pálmasunnudag. Skírnin fór fram í 14. aldar Anundsjökirkjunni í litla bænum Bredbyn. Þetta var rosalega gaman og fannst mér gaman að ég hefði verið beðinn að annast skírnina.

DSCF2081

Ég utan við Anundsjö kyrka í Bredbyn 04.04.2009, kl. 15:05. Slatti af snjó ennþá kringum kirkjuna, en samt vor í lofti og fuglarnir farnir að skrækja þarna allt um kring í birkitrjánum.

Á skírdag fór ég svo til Stokkhólms aftur og hafði messu um kvöldið. Óskaplega þykir mér lítið koma til þess ósiðar að plokka allt af ölturum kirkna við þessar svokölluðu Getsemane stundir.  Ég sé ekki tilganginn. Búa til leikrit um eitthvað sem mér finnst ógrundað guðfræðilega. Eitt er að fækka hlutum á yfirfylltum ölturum kirkna, en að berstrípa þau, gef ég ekkert fyrir.

Nóg um það. Á föstudaginn langa vann ég svo aftur um eftirmiðdaginn. Þetta var stysti föstudagurinn langi sem ég hef upplifað. Mikið var af fólki og dagurinn varð alls ekki eins langur og hann á vana til að verða. Á laugardag vann ég svo frá níu að morgni til tvö að nóttu. Miðnæturmessa var í kirkjunni.  Að hafa miðnæturmessu er ekki síður en Getsemanestundin hálfþunnur þrettándi.  Ég tel guðfræðilegra sterkara að hinkra til morguns, eða þar til sólin rís í austri, en að taka út gleðina í svarta myrkri.  Á páskadaginn var ég svo enn á ný mættur í kirkjuna klukkan níu og vann til klukkan sex. Í dag, á annan dag páska var ég svo þreyttur að ég hálfsofnaði í kirkjunni. Það er gott að vera kominn heim núna, geta slappað af og hugsað til Íslandsferðarinnar, pabba og mömmu, systkina minna, barnanna minna og fjölskyldna sem ég kem til með að hitta. Þetta er næstum því sælutilfinning.  :)    Sannarlega í takt við enduróm páskanna!  :)

Þetta verða góðir dagar og notalegir.  Gaman að geta glaðst og hlakkað til einhvers svo fíns sem endurfunda við fjölskyldu og vini.   Best að slengja sér í bælið - maður er hálf dasaður!  Góða nótt heimur, nattí nattí!

 


Páskar aD MMIX

 

 

GLEÐILEGA PÁSKAHÁTÍÐ

_____________________

 

KRISTUR ER UPPRISINN!

KRISTUR ER SANNARLEGA UPPRISINN!


Dagur reiði, dagur hryggðar, dagur eftirþanka

Í miðaldakveðskap má finna orðin frægu Dies irae, dies illa.Föstudagurinn langi í gær og laugardagur tónleikans í dag. Eftir að hafa hlýtt á guðspjallstexta píslarsögunnar í kirkjunni í gær fór ég að hugsa hvað það hefði verið sem leiddi Gyðingana út í að biðja um aftöku Krists. Ég leyfi mér að segja að það hafi ekki verið guðsótti og trúarleg frómheit sem stjórnuðu orðum þeirra þegar þeir æptu: "Krossfestu hann, krossfestu".  Nei, það var veraldarvonskan, það var illskan, það var reiðin sem gerir hvern mann að fífli, gerir hvern mann andstæðan Guðs vilja. Fíflaskapur þá?  Líklega er vonskan mis svört, mis þungbær og mis áhrifamikil.

Á föstudaginn langa, vill Guð vísa okkur að tökum við í hans útréttu hönd, fylgjum honum, eru við á veginum frá veraldavonskunni, þeirri vonsku sem byggir sér skot í hjörtum fólks, í hugsunum, í næringarberandi blóði fólks og jafnvel í lungunum öndum við þessu að og frá okkur. Krossfestingin var ekki bara einstök vegna þess að þar var Guð og maður krossfestur, heldur synd okkar mannanna. Þannig getum við notið alls þess besta, BARA ef við horfum á spegilmynd okkar og spyrjum okkur sjálf: Er þetta hann/hún sem ég vil vera?

Ljótleiki heimsins birtist best þar sem andstæðurnar mætast; svart mót hvítu, góðsemi mót illsku, gleði mót hryggð. Síðan Páfastóll hóf að fylgja Benedikti páfa XVI á www.youtube.comhef ég tekið mér fyrir hendur að fylgja eftir því sem hann hefur sagt og af hverju hann er að tjá sig um hin ýmsu málefni.  Karlinn greyið skrifar líklega ekki helming þeirra ræðna sem hann heldur, en við það að hann lesi skrif annarra fá þau apostólíkskt gildi. Hann er hirðir hirðanna í kirkjudeild sinni, hinni rómversk katólsku kirkju. Í nýlegu ávarpi hans til biskupa kirkju sinnar, hvetur hann þá að sinna prestunum betur, ekki bara biðja fyrir þeim, heldur tala við þá, setja sig í samband við þá þegar þörf ber til og jafnvel þegar ekkert heyrist frá þeim.  Hann talaði um mikilvægi hinnar biðjandi kirkju, mikilvægi andlegrar þjónustu á öllum stigum, allt frá sunnudagaskólum til erkidjákna og biskupa.

Nú er ég ekki alltaf sammála Benedikt páfa, en hann hefur á svo réttu að standa. Hann er að gera það sem allir biskupar áttu og eiga að gera:  Hann er að láta sig varða hag prestanna sinna. Hann er að sýna að verðandi prestar, þeir sem þegar eru vígðir og svo þeir sem hafa dregið sig í hlé - að allir eru kirkjunni mikilvægir. 

Þarna sýnir rómversk katólska kirkjan að prestar hennar eru henni dýrmætir - og ekki bara þeir sem eru starfandi eða þeir sem eru nafnfrægir; nei heldur allir.   Þegar þjóðkirkjuprestur lætur af embætti (fellur út af launalista), snýr sér tímabundið til annarra starfa eða fer í þjónustu utanþjóðkirkju stofnunar eða safnaðar - virðist sem þessi sé dauður og gleymdur kirkjunni sem í upphafi vígði hann/hana til þjónustunnar.   Að þessu er skömm sem er smánarblettur á kirkjustjórninni á Íslandi.

Lifandi trú er trú sem er lifuð, trú sem fær á sig brotsjó í lífsins ólgu sjó, trú sem fær að vaxa með einstaklingnum, trú sem leyfir þér að efast, trú sem spyr spurninga og trú sem leyfir afturhvarf.  Ég er harður í orðum og hugsunum gagnvart kirkjunni minni, kannski vegna þess að hún er mér kær, fólkið er mér kært og dýrmætt. Börnin sem ég hef skírt dýrmæt og þau eiga skilið kirkju sem lætur sig varða þau og hvernig þau vaxa úr grasi og hvaða vegarnesti þau fá. 

Dagur reiði, dagur hryggðar!  Föstudagurinn langi er dagur uppgjörs við illskuna. Uppgjörs við það sem verst er kristnum einstaklingum: Sinnuleysið.  Að láta sig ekki verða neitt, bara fljóta með, fljóta með öllu að feigðarósi. Gefa skít í allt og skipta sér ekki að neinu. Að rjátla bara með í rokinu og um síðir hreint puðrast út í veður og vind. Síðan má kenna um að þessi eða hinn hafi ekki vitað að hverju stefndi. Ég blæs á slíkt. 

Ég hugsa aftur til kirkjunnar, orða Benedikts páfa og til kirkjunnar minnar á Íslandi, þjóðkirkjunnar sem mér finnst hafa dansað sama ókunnuglega dansinn án athugasemda. Orð páfa um að kirkjan verði að láta sig varða prestana sína, djáknana sína, starfsfólkið í kirkjunum. Að fólki finnist það ekki standa eitt og oft illa statt í ómögulegum aðstæðum. Finnist það ekki geta hreyft sig aftur á bak eða áfram og geta ekki leitað til neins sem hafi myndugleika að takast á við málefnin sem eru svo knýjandi.

Í komandi biskupskjöri hér í Stokkhólmi, hefur margt verið rætt um hvaða eiginleika næsti biskup skuli hafa. Hvernig biskup í stórborginni Stokkhólmi með fjölþjóðlegu ívafi sínu og fjölmenningarlegu yfirbragði.  Það sem fólk óskar sér einna helst að einn biskup skuli prýða, er 21. aldar manneskja, menningarlega sinnuð, biskup sem hikar ekki við að hrófla við sóknarskipan ef það má verða kristninni til framdráttar, hlustandi biskup (sem hlustar á raddir fólksins og prestanna sinna), biskup sem styður réttindabaráttu samkynhneigðra, biskup sem þorir að standa gegn stjórnvöldum ef kristin trú og gjörðir stjórnvalda fara ekki saman, biskup sem er góð fjölmiðlamanneskja en umfram allt: biskup sem er hirðir hirðanna, hirðir ALLRA presta.  Það er erfitt að finna þetta allt í einni manneskju, en mörgum góðum kandídötum er uppstillt og framstillt núna um þessar mundir.  

Þetta voru smá þankar á aðfarardegi páskadags.

Gleðilega páskahátíð og heilaga páskaviku!

Það verður gott og gaman að koma til Íslands núna í páskavikunni. 


Sjálfstæðisflokkurinn að klofna?

Ég virði fyrir mér ástandið eins og það birtist mér núna hér í útlandinu góða.  Það virðist sem þingmaðurinn forðum daga hafi haft rétt fyrir sér; "það logar allt stafnanna á milli" í Sjálfstæðisflokknum.  Einhverjar systur og bræður hafa kosið að horfa til hins góða sem er að finna í hverjum einstaklingi. Aðrir hafa ekki látið af spillingarævintýradraumum sínum og sjá gullöld Sjálfstæðisflokksins í hyllingum. 

Já það logar allt stafnanna á milli og ósættið að fara með flokkinn í gröfina. Flokkurinn virðist þjást af ósætti og virðist mér út fjarlægð útlandsins vera sér svo sundurþykkur að hann fær vart staðist...   Ætli það sé ekki kominn tími á að segja bara "amen, eftir efninu"?


mbl.is „Það logar allt stafnanna á milli“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Syndin er lævís og lipur!

Það virðast engin takmörk fyrir því hvað spillingin á sér djúpa rætur og hvað hún er Sjálfstæðismönnum eiginleg. Það er ljótt að heyra að einn forystusauður Sjálfstæðisflokksins, þingmaður og ráðherra hafi staðið í slíku sem styrkjamóttöku frá ríkiseygðum fyrirtækjum. Ljótt að heyra.  Guðlaugur Þór Þórðarson hefur greinilega unnið ötullega fyrir ráðherrastóli sínum og frama í Sjálfstæðisflokknum.

Ég er að velta því fyrir mér hvort þetta kallist ekki í útlöndum fyrir að taka mót mútum?


mbl.is Guðlaugur Þór hafði forgöngu um styrkina
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Breytingar nauðsynlegar

Það er greinilegt að fólk vill breytingar frá 18 ára óráðsíutíma Sjálftökuflokksins og viðhalds hans í gegnum lungan af þessum árum.  Fólk vill breytingar, hreinsanir og spillingarlaus stjórnmál. 
mbl.is VG tvöfaldar fylgið í Kraganum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðareign

Það er áhugavert að fylgjast með umræðunni um listaverkaeign gömlu bankanna. Málið er að mínu mati sáraeinfalt.  Leita ber til sérfræðinga í íslenskri listasögu og fá hreint og kalt mat hvaða listaverk séu mikilvæg fyrir listasögu Íslands og eiga sinn rétta stað fyrir augum þjóðarinnar í safni listaverkasafni Listasafns Íslands.  Þetta sjálfsagt kallar á fjárveitingar til Listasafnsins, vegna forvörslu, geymslu og skráningar listaverkanna (ljósmyndun, rannsóknir og skrásetning). 

Fullljóst þykir mér að eingin greiðsla eigi að koma fyrir þau listaverk sem sett verði í eign ríkislistasafnsins. Ríkið (þjóðin) hefur þegar lagt svo mikið til bankanna að líta má á yfirfærslu listaverkanna sem þakkargjöf til þjóðarinnar á reynslutímum.  

Þau listaverk sem ekki eru talin til þjóðargersema verði seld á uppboðum á Íslandi. Rétt er að benda á að listaverka og verðmætasöfn bankanna eru af ýmsum toga. Rétt ef til vill að sumt færist til Þjóðminjasafns, Landsbókasafns vegna þess menningarsögulega gildis sem munir, málverk, styttur, bóka- og skjalasöfn, myntsöfn o.frv.  kunna að hafa.  Þetta tel ég vera afskaplega mikilvægt að tekið verði með í reikninginn.   

Um leið er sérlega mikilvægt að ALLT gerist fyrir opnum tjöldum, að ekki hverfi neitt í flutningum né heldur lendi í opinberri sölu/uppboðum sem síðan verði metið til þjóðargersema.


mbl.is Listaverk bankanna verði metin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þegar vitið þrýtur, taka kraftarnir við

Já, enn á ný sýna örvæntingarfullir Sjálftökumenn, að óttinn við að lenda í stjórnarandstöðu er hræðilegri en svo að þeir ætli að taka því þegjandi. Ljótleiki stjórnmálanna á sér því miður margar hliðar. Málþóf Sjálftökuflokksins á Alþingi er ein birtingarmynd biturleikans, öfundarinnar og hræðslunnar; að nú verði í ríkisstjórnarfjarveru flokksins farið að velta við steinum og fjármálaævintýrið verði skoðað í kjölinn. Óttinn er að þetta verði allt gert í fjarveru Sjálftökuflokksins, að og hann geti ekki komið vörnum við eða logið sig út úr ljótleika fjármálaævintýris síðustu ára.

Sjálftökuflokkurinn sem haldið hefur uppi málþófi í þingsal Alþingis krefst síðan í þokkabót að stjórnarflokkarnir sitji síðan undir froðusnakkinu og stóru orðunum. Ég held ekki að nokkrum lifandi manni detti í hug sjálfviljugum að hlusta Davíðsdrengina. Sá tími er liðinn. Enginn hlustar á þann flokkinn eftir allt sem hann gerði þjóðinni og orðstý hennar út á við.  Nema auðvitað þeir sjálfir...


mbl.is 26 sjálfstæðismenn á mælendaskrá
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband