23.9.2008 | 17:37
Sagan sem ekki mátti segja!
Það er skrýtið að oftar og oftar verður mér hugsað til ævintýris H.C. Anderssens Nýju fötin keisarans, þess danska snillings sem skrifaði svo mikið og merkilegt. Oft leynist boðskapurinn djúpt í orðum hans, en í örðum frásögnum hans opinberast þau okkur glettnislega á sjálfu yfirborðinu. Í dag sér maður ævintýrið vakna til lífs í öllum hornum samfélagsins. Nýjasta dæmið er að sjálfssögðu ummæli ágæts formanns Lögreglufélags Reykjavíkur Óskars Sigurpálssonar um að "að ríkislögreglustjóraembættið hefði að mörgu leyti verið tilraun sem hefði misheppnast." Ekki þurfti orð Óskars til að segja það augljósa. En nú hefur "strákurinn" í ævintýri H.C.Anderssens hrópað sannleiksorðin og ný hriktir i stoðum brauðstólpaveldisins niður í Rauðarárvík. Menn eru farnir að vakna ónotalega í purpurakápunum sínum, gullbrydduðum og eftirhátíðarlyktin í salarkynnum þeirra breytist í fnyk og ólykt þegar þeir finna ferska loftið skyndilega berast inn við gluggaopnun Óskars lögreglumanns.
Hversu oft hefur fólk ekki spurt sig: Var ríkislögreglustjóraembættið ekki óþarfi? Hversvegna öll þessi yfirbygging yfir það sem áður ekki einusinni var til? Hverjum þurfti að hygla að? Hverjir voru gæðingarnir sem þurftu mýkri stóla?
Þetta er kannski líka sagan um litla snjóboltann sem litla stúlkan missti úr höndunum efst upp í brekku og síðan nokkrum mínútum síðar stútaði húsi neðst í brekkufætinum! Hvað hefði kostað að ráða 3 vana (lögreglu)menn að vinna á skrifstofu Dómsmálaráðuneytis og Landhelgisgæslu til að annast heildarskipulag, útfærslu hugmyndafræði erlendra samskipta? Hversu miklu minna hefði það nú kostað og hversu afkastameiri hefði slík starfssemi ekki verið?
![]() |
Fimm hafa sagt sig úr Lögreglufélaginu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.9.2008 | 14:59
Kirkjan,fólkið og trúin
Ég fór í guðsþjónustu um daginn. Það er svo sem ekki í frásögur færandi, enda finnst mér gott að fara í kirkju. Við vorum sennilega um 40 kirkjugestirnir í þessari stóru virðulegu kirkju. Presturinn hafði vandað til prédikunarvinnu sinnar og guðsþjónustan var hin fallegasta í alla staði. Eftir guðsþjónustuna ákvað ég að labba smá aukakrók umhverfis kirkjuna og um nálægar götur.
Ég fór að hugsa hvers vegna svo fáir kæmu til guðsþjónustunnar sunnudag eftir sunnudag. Einu stundirnar þá er fólk kemur til kirkju er þegar fólk stendur í hinum svokölluðu "stóru stundum": Jólum, páskum, skírnir, jarðarfarir, aðventukvöldum, minningarguðsþjónustum og þessháttar. Þesskonar kristni heitir stórhátíðakristindómur og þeir/þær sem mæta einungis í kirkju á slíkum stundum: Stórhátíðarkristnir. Því miður skilur maður að fólkið komi ekki oftar til kirkju þar sem það er ekki í neinu lifandi samfélagi með kirkjunni og hefur ekki tengsl við hina framvindustýrðu boðun kirkjunnar (kirkjuárið og tengslín við stórhátíðirnar).
Samfélagið er slitrótt í gerð sinni. Þar er vandamálið hið eiginlega siðrof, fjarlægðin milli einstaklinga og sérhyggjan sme tröllríður öllu. Hver er sinnar gæfu smiður og virðist sem sú hugsun hafi orðið til að byggja múra milli fólks. Yfir þennan rammgerða múr kemst knappast fuglinn fljúgandi. Kærleikurinn reynir að brjóta niður þessar múra. Boðun kristinnar kirkju er boðun hins óeigingjarna kærleika. Kærleika sem krefst ekki endurgjalds, heldur eflist við hvert kærleiksverk. Kærleikurinn þarfnast þó stuðnings staðfestu og reglu samfélagsins sem á í helstu atriðum að spegla rétt og réttlæti. Kirkjan er til sem stofnun til að standa vörð um réttlæti, kærleika og boðun þessa tveggja. Kirkja á að vera vökull vörður réttinda fólks, allra og gæta þess að fólk fái að lifa í kærleika og friði, að allir fái að njóta umburðarlyndis sem sýni ábyrgð í gerðum sínum, lífi og samfélagsþátttöku, að enginn verði dæmdur að ósekju, að kröfur ríkisyfirvalda og samfélagsins verði aldrei svo miklar á þegnanna að þeir standi ekki undir þeim. Réttlæti og friður skal haldast í hendur.
I nokkur ár hefur kirkjan fjarlægst þetta flókna og metnaðarfulla hlutverk sitt. Sett sig á sess sem hennar ekki er. Hér á ég við að hún hefur færst frá því að vera kærleikans musteri, sjúkrahús syndara og bænahús til að vera færibandavinnustaður, tómleikans hús. Eftir höfðinu dansa limirnir og hin andlega leiðbeining hefur verið víðs fjarri því að endurspegla það hlutverk að fylgja sporum Krists. Kirkjan hefur tæmst af fólki. Hún hefur komið afvega og fest í því að vera stórhátíðakirkja fyrir stórhátíðasöfnuð sinn. Enginn dæmir bók bara eftir að lesa samantektina aftast í bókinni. Stóhátíðir gefa ekki fullnaðarmynd af kirkjunni sem samfélagi, heldur aðeins skjásýn - svo þröng sem hún getur verið. Kirkjan hefur komið langt afvega. En vegurinn sem genginn hefur verið afvega er ekki lengri en vegurinn heim, svo staðan er vinnanleg.
Smá pælingar á mánudegi. Vale pie lector!
22.9.2008 | 09:36
Pulchritudo contra dolorem
Ég rakst á stutta grein um tilraunir sem Marina de Tommaso prófessor i taugalækningum við háskólasjúkrahúsið í Bari á Ítalíu hefur verið að gera. Marina hefur verið að mæla taugaviðbrögð fólks sem hefur fengið sársaukaframkallandi straumboð í líkamann. Þegar fólkið hefur svo verið að ná sér eftir hina óþægilegu sársaukahrynu, hefur fólkinu verið sýndar myndir af listaverkum frá hinum ýmsu tímabilum listasögunnar.
Niðurstaða Mariun Tommaso prófessors í Bari á Ítalíu er sú að þeir þátttakendur í tilraun hennar sem fengu að sjá "fallega" list voru fljótari að ná sér en þeir sem fengu að líta það sem af rannsóknarteyminu álitið var "ljót" eða "ekki falleg list".
Þá vaknar spurningin: Hvað er falleg list. Mörg listaverkana sem töldust til hins síðarnefnda hóps listaverka "ljótleikans" eru meðal hinna frægari kúnstarinnar verka og flest öll skreyta sali hinna frægustu listasafna heimsins. Hvað er þá að! Er verið að hengja ljóta list upp í sýningarsali um allt? Nei, sannarlega ekki. En spurningin stendur þó ennþá: Hvað er "falleg list" og hvað ekki? Getur verið að í hinni einföldu fegurðarskynjun séum við bundin því sem stendur okkur nærri í umhveri okkar, það sem auðskiljanlegt er? Getur verið að þá er við reynum að endurskapa á striga, í stein, málm eða vefnað það sem okkur finnst fallegt að niðurstaðan verði auðmelt og aðgengileg list sem krefst minna af skynjunarfærum okkar og heila en list sem er meira abstrakt og bundin ókunnuglegri fomum? Ég held það reyndar. Ég held að hér séum við að nota aðrar skynjunaraðferðir við nálgun listarinnar en þegar við til dæmis göngum gegnum salarkynni sem full eru af verkum Nicolas Poussin, Michaelangelo, Louis Le Vau eða okkar Bertels Thorvaldsen en þegar við þurfum að beita öðrum aðferðum við að njóta og nálgast verk Ólafs Elíassonar, Neo Rauch, Paul Klee eða Frida Kahlo. Það er því ekkert óvenjulegt að viss tegund listar, veki notakennd meðan önnur list hrærir í okkur og vekur sterkar tilfinningar af annari tegund en sú fyrri.
Þessi umræða er eilíf, rétt eins og listin. Öll list er lofgjörð til sköpunarinnar, meðvitað eða ómeðvitað. Þetta er leikur, trúlkunarþrá, sköpunarþrá. Þetta er leikur með liti og form, dýpt och nálgun. Svo lengi listin talar til okkar, er hún lifandi, svo lengi hún er túlkandi, svo lengi hún hefur mál, er hún eftirsótt. Listin getur verið harmónísk í sér eða skapað þessa eftirsótta samhljóm sem við sækjum svo í. Sumir eru úti eftir ljúfleika, mildu umhverfi - vé í hversdeginum, meðan aðrir vilja þversagnir, sterkar andstæður og ákveðin form. Þetta vekur tilfinningar og vellíðan.
Flott hjá Marinu Tommaso að taka þetta upp og sýna enn fram á að umræðan fer í spíral, endurtekur sig en sækir þó fram.
21.9.2008 | 12:58
Sæll dúði, viltu ekki starf á Íslandi?
Auðvitað hlýtur þessum "heimsku bankastarfsmönnum" að vera boðin vinna á Íslandi. Þó það nú væri. Þeir hljóta að vera með þeim bestu og passa fullkomlega inn í það starfsmynstur sem tíðkast á Íslandi í banka- og fjármálastjórn og standast allar kröfum um þekkingu í fjármála"heimi" Íslands. Þetta eru aular sem stæðu þeim öðrum sem stunda fjárstreymisstýringarstjórnun á Íslandi ekki aftar; hvorki í þekkingu né dugnaði.
Síðan er spurning hvort þessir bankaaular skuli ekki fá að spreyta sig í stjórnmálunum á Íslandi. Ferilsskráin myndi ekki vera lakari en þeirra sem standa í ráðuneytunum og stýra okkar málum.
Velkomnir!
![]() |
Heimskustu bankamenn Þýskalands reknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 18:32
Öll egg í sömu körfu
![]() |
Heildarkrafa íslensku bankanna á Lehman 25 milljarðar króna |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
18.9.2008 | 08:59
Kauphallarsvik - eða bara að kunna spila út sínum spilum?
Nú hefur það gerst á ný innan "Kauphallar Íslands" að einhverjum hefur gleymst að lesa reglurnar. Æji, en leiðinlegt. En hvaða máli skiptir þar svo sem? Aurarnir sem þið eruð að velta fyrir ykkur eru hvort eð er bara ímyndaðir peningar. Það er ekkert raunverulegt með það sem þið eruð að gera. Ég hugsa oft til ævintýri Hans Christians Andersen um Nýju fötin keisarans. Þetta snýst bara um að enginn vill viðurkenna staðreyndir: Að pengingarnir sem þið spilið með eru ekki til. Fyrirtækin sem þið eruð að kaupa og selja eru knappast til, nema þá sem kennitölur eða skuggar þess sem þau eiga að vera, en annað ekki. Fyrirgefið mér ef ég segi óþægilega hluti, en hér æpir barnið: Hann er allsber, keisarinn er ekki í neinu!
Læt að gamni fylgja með ljóð Steins Steinarr:
Að sigra heiminn er eins og að spila á spilmeð spekingslegum svip og taka í nefið.
(Og allt með glöðu geði
er gjarna sett að veði.)
Og þótt þú tapir, það gerir ekkert til,
því það er nefnilega vitlaust gefið.
![]() |
Kauphöllin áminnir og beitir Nýsi févíti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.9.2008 | 07:58
Fréttamennska
Hvílík sannindi og spádómsgáfa..
Ég leyfi mér að vittna í grein Moggans: Olmert gefur ekki kost á sér og eru miklar líkur taldar á að sigurvegari kosninganna verði næsti forsætisráðherra landsins.
Hjálpi mér allir heilagir, ó hvað óvænt! Halló! Tími til að setja eitthvað vitrænt á fréttasíðuna eða bara sleppa því!
Kveðja! Lesandi
![]() |
Kosið um arftaka Olmerts |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
16.9.2008 | 17:24
Farið í bankann og takið út peningana ykkar meðan enn er tími
Ísland! farsældafrón og hagsælda hrímhvíta móðir!
Hvar er þín fornaldarfrægð, frelsið og manndáðin best?
Allt er í heiminum hverfult, og stund þíns fegursta frama
lýsir, sem leiftur um nótt, langt fram á horfinni öld.
Landið var fagurt og frítt, og fannhvítir jöklanna tindar,
himininn heiður og blár, hafið var skínandi bjart.
[...]
Svona er feðranna frægð fallin í gleymsku og dá!
Þegar mann setur orðlausan, er best að þegja ellegar notast við orð þeirra sem ekki höfðu ástæðu til að verða orðlausir. Jónas Hallgrímsson, eitt þjóðskáldanna gaf tilfinníngum mínum orð og þakka ég honum þau. Drápan Ísland ort sennilega eitthvað kringum árið 1835. Orðin fá nýtt líf og mér verður hugsað til síðustu ferðar minnar til Íslands núna á dögunum. Jónas hafði verið á Þingvöllum og séð sjálfur, með eigin augum fornaldararfinn. Samangrónar þóftir og mosavaxnar breiður á fornum götum þingmanna liðinna tíma. Hugur hans leiddi tilbaka til þess tíma sem söguskrif miðalda greina frá; glæsilegum mönnum og konum, nýsigldum frá löndum aðeins af nöfnunum þekkt, hlaðnir frásögum, fréttum og afrekslaunum hið ytra. Á völlunum gaf að líta þverskurð hinnar hreyfanlegu þjóðar á Íslandi, þeirra sem áttu heimangengt, þeirra sem áttu erindi, voru erindi eða vildu efna til erinda. Hér voru lokadómar kvaðnir upp, hér mættust heiðnir og kristnir. Hér mættust menningarheimar. Það er skrýtið að hugsa til þess að Þingvellir séu komnir á heimsmenningarverðmætalista UNESCO. Verndun og viðgangur staðarins er í brennidepli, nýtt klósett hefur verið reist síðan ég var á Þingvöllum síðast. Jú og einn stuttur útsýnispallur hefur skotið upp kollinum. Þingvellir, þessi margmerkilegi staður hefur verið settur undir vernd heimssamtaka. Einhvernveginn finnst mér það gott - en samtímist hryggilegt. Staðurinn er í öndunarvél að nauðsynjalausu. Þingvellir mega ekki ofverndast, heldur ekki troðast niður. Þangar sækir íslenskt lýðræði sinn styrk, ekki á Austurvöll. Þangað ætti fólk að streyma og dvelja, staldra við og spyrja sig: Bíddu - erum við á réttri leið?
Það laukst upp fyrir mér hversu mikið allt hefur í raun breyst á Íslandi. Ekki bara þau rétt fjögur ár sem ég hef búið í Svíþjóð, heldur líka þau ár innan ég fluttist sem ég kannski var blindur á breytingarnar. Ég hugsa oft til Íslands. Mér virðist sem Íslendingar séu allir á fjárhagslegum og andlegum sjálfsmorðshugleiðingum. Mig langaði mest að æpa: VAKNIÐ! Hvað er að Íslendingum í umferðinni, hvað er að því að standa í röð, hvað er að því að geta ekki keypt neitt fyrir 10kr pening? Ég man þegar ég var að læra sund í Breiðagerðisskólasundlauginni, að ég tók oft með mér kannski 2kr. Fyrir 10aura fékk ég litla súkkulaðikúlu/súkkulaðismáegg í litfjörugum álpappír í Grímsbæ. Ég keypti kannski 10 smáegg og hélt eftir hinni krónunni til seinni tíma.
Lehman Brothers er eitt dæmi þess sem er að gerast. Fólk skilur ekki fjármál lengur. Fólk líður af ónæmi fyrir tölum. Enginn er á varðbergi lengur fyrir því sem er í raun að gerast. Á laugardagskvöld sem var vorum við nokkur hérna heima og eftir að hafa borðað góðan mat sátum við og spiluðum Matador (eða það sem oft hefur líka verið nefnt: Monopol). Mér fannst eins og ég væri hreinlega að spila með alvöru peninga. Þangað til einhver sagði við mig; "Baldur vertu djarfur, kauptu götu, betra að kaupa hana en missa af henni næst". Mig vantaði ekkert umrædda götu, átti ekki neitt í þessum lit og ver á höttunum eftir einhverju annari. "Kaupi ég hana, á ég ekki næga peninga til að brugðist við áhættuspilum og leigugjöldum" sagði ég og ætlaði að gefa teningana til næsta spilafélaga. "Veðsettu bara eitthvað" var svarið. Ég hugsaði með mér: WOW, er þetta svona sem efnahagsspekúlantar hins "vestræna" heims hugsa? Er þetta jafn alvörugefið allt? Getur verið að það sé jafn mikið fjárhagslegt fastland að baki gjörða þeirra og þess sem ég átti að gera í spilinu?
Innistæður eiga bankarnir engar á Íslandi. Allir ættu að fara á morgun og taka lausafé sitt út og reyna að koma þeim í erlenda valútu. Íslenska krónan er að verða einskis virði og bankarnir tómir að innan eins dæmin munu sanna. Stórar tölur og orð háttsettra manna í efnahagslífi og "fjármálafyrirtækjum" eru orðin tóm. Þessi leikur með prósentur, vaxtatölur, hlutabréf, lánskostnað, efnahagsspár, ríkisfjármál, afkomutölur eru orðin tóm. Því miður!
Ekkert fyrirtæki er eins mikils virði og það er skrásett á hlutabréfaþingi. Þetta eru allt: Óraunverulegar tölur, peningar sem ekki eru til og leikur með fólk og eiginfé þess.
Mér verður enn og aftur hugsað til frásagnanna af efnahagshruninu í Bandaríkjum Norður Ameríku á þriðja áratugnum. Þetta er að verða staðreynd aftur.
Viðskipti og fjármál | Breytt s.d. kl. 20:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
9.9.2008 | 20:01
Þekkt andlit, gleymdir einstaklingar
Eftirmiðdaginn í dag fór ég á fyrirlestur í listfræði í Nationalmuseum hérna í Stokkhólmi. Það var prófessor Elizabeth Cropper sem fjallaði um Parmigianino´s Antea: A Perfect Beauty in context. Fyrirlestur hennar vakti spurningar hjá mér um hina þúsundir málverka, teikninga, höggmynda og síðast en ekki síst ljósmynda sem sýna fólk, andlit sem á sínum tíma voru þekkt, dáð og þurftu ekki kynningar við, en í dag eru gleymd. Þetta er kannski hlutskipti flestra, að falla í duftsins gleymsku. Mér varð hugsað til Parísar Hilton, Marilyns Monroe, Naomis Campell, Toms Cruise, Ingridar Bergman... Þegar allar forgengilegar kvikmyndir og tímarit verða horfin gleymskunni að bráð. Munu þessi andlit standa sem vitnisburður fegurðar, helgi lífs, vits og þekkingar? Standa þessi andlit sem vitnisburður hins góða, vitræna og sem horfnir holdgervingar liðinnar tíðar - eftirkomendum okkar til þekkingar? Eða munu þessi andlit standa eftir sem draugar fortíðar nokkuð sem verður þekkingarlausri túlkun framtíðar að bráð?
Vert umhugsunar
Menning og listir | Breytt 10.9.2008 kl. 09:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.9.2008 | 18:06
Eftir Ísland koma myndir!
Ísland 2. ágúst - 8. ágúst 2008
Jæja, þá er maður kominn úr annars vel lukkaðri ferð "heim" til Íslands. Ég sit hérna við tölvuna mína í Stokkhólmi og er að hugsa tilbaka til yndislegra daga með fjölskyldunni minni og börnum. Góðir dagar, með góðu veðri og sól í sinni. Ég á allar þakkir til foreldra minna fyrir að skapa það umhverfi sem mér er kærast og mér líður best í. Í þessu umhverfi gat ég hitt börnin mín Nikulás og Magdalenu og voru það dýrmætar stundir, þótt stuttur tími væri mér gefinn. Slíkar stundir eru mér og foreldrum mínum dýrmætari en orð fá lýst. Í morgun kvað ég Ísland í flugstöð Leifs Eiríkssonar. Mér var horft upp í loftið þar sem listaverk Leifs Breiðfjörð hangir í loftinu. Mér fannst það eins og segja allt hefur þá tilhneigingu að fara vel... Blástu nú í seglin mín og gefðu mér byr.
Ferðin var i nokkrum tengslum við skólaferðalag útskriftarbekkjar Adolf Fredrik Musikklasser sem er tónlistarskóli hérna í Stokkhólmi, einn í röð hinna bestu á Norðurlöndunum. Saman með foreldrum, kórstjóra og skipuleggjendum var þetta hópur upp á 40 manns. Tónleikar voru haldnir í Langholtskirkju í Reykjavík og í Skálholtsdómkirkju. Sömuleiðis söng kórinn við messu í Langholtskirkju á sunnudag var. Ég var leiðsögumaður hópsins í nokkrum ferðum og var gaman að geta orðið þeim að liðsinni, enda undirbúningur ferðarinnar búinn að standa alllengi. Allt hafði gengið vel í þeim undirbúningi fyrir utan tilraunir okkar að fá upplýsingar frá Norræna húsinu í Reykjavík. Þaðan bárust engin svör þótt reynt væri að skrifa til allnokkurra tölvupóstfanga í starfsemi hússins. Þetta var harla leiðinlegt afspurnar. Ferð unga syngjandi fólksins gekk vel og allir voru glaðir og ánægðir.
Ferðin austur i Haukadal og upp að Hvítá, Skálholti og Þingvöllum var hressandi. Langt síðan ég hef verið þar á ferð. Náttúrufegurðin var algjör eins og gjarnan er með íslenska náttúru. Ég tók helling af ljósmyndum á þessu flakki okkar og læt ég hérna fylgja með eina af undurfögrum bergmyndunum eða svokölluðu kaðlabergi eða hraunmyndun sem oft tengist storknun yfirborðs helluhrauns. Helluhraun er fallegt og víða í náttúrunni virðist manni sem það sé eins og storknuð súkkulaði eða karmellusósa á ís.
Ferðalög | Breytt 9.9.2008 kl. 08:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
1.9.2008 | 12:23
Elgveiðin hafin
Einmitt! Elgveiðin er hafin. Ekki þó á Íslandi, heldur í Svíþjóð. Nú er hafinn sá tími þegar maður er þakklátur fyrir að maður er ekki elgur. Japp, veiðsísonið er hafið og ekkert við því að gera. Veiði er samkvæmt heimildum mínum leyfð um alla Svíþjóð frá og með deginum í dag, fyrir utan á Gotlandi - en þar eru engir elgar. Þó hefur stjórnvöldum fundist það ráð að banna elgveiðina þar með sérstakri reglugerð, þannig að fólk sé ekki að vafra um með hólkinn, skimandi efitir einhverju sem líkist elg. Þetta er kannski bara góð hugmynd. SKILJIÐ SKOTVOPNIN EFTIR HEIMA!
Svíarnir segja að maður verði að veiða minnst 100 000 elgi á hverju ári svo að það verði hægt að sjá skógana fyrir elgum. Fjölgunin hafi verið mikil, eða mest í byrjun níunda áratugarins, en þá er áætlað að um 600 000 elgir hafi verið á stjákli - vappandi um skógana, brytjandi þá niður og étandi. Núna er þetta meira "under controle".
Já, það er ekkert gaman að vera elgur núna! Fy fan, nej!
1.9.2008 | 07:52
Hvílíkur prólóg til Íslandsferðar!
Ég lít nú yfir vinnuborðið mitt og bara styn! Allir þessir pappírar, rusl, óskilgreint pappírsflóð, skipulagt kaos: Stundarskrár, lykil og lausnarorð á háskólavefina, skráningarblöð, ljósmyndir, hjónavígslubókanir, skírnareyðublöð, nýjar skólabækur, síminn, hleðslutæki, kortageymslan, CD-ar, heftari, umslög úff.... of langt mál að telja upp! Í miðjunni er litla ljósið frá börnunum mínum Magdalenu og Nikulási sem ég fékk í jólagjöf fyrir rúmum þremur árum. Ljósið sem var í er fyrir löngu brunnið, en ég set alltaf nýtt og kveiki á því á hverjum degi og hverju kvöldi þegar ég er heima og gæti ljóssins. Lítið leiðarljós, bænaljós fyrir börnin mín.
Á morgun fer ég til Íslands í stutta heimsókn. Það er langt síðan ég var á Íslandi síðast. Það mun hafa verið í febrúar sem ég leit ættland mitt augum, elskulega fjölskyldu og börnin mín. Of langur tími. Ég er að reyna núna að koma skipulagi á næstu daga hér í Svíþjóð. Skólarnir eru byrjaðir og geri ég því ráðstafanir vegna þeirra tíma sem ég verð ekki viðstaddur við. Fékk frí í kirkjunni þessa daga. Tek í staðinn vinnu þegar ég kem heim aftur til Stokkhólms. Reyndar vann ég tvöfallt í gær til að vinna af mér tvo daga í næstu viku. Það verður gott að komast frá þessu öllu í nokkra daga og smjúga inn í hversdaginn á Íslandi, góða Íslandi. Hlakka óumræðanlega að geta bara sest niður á fallega æskuheimilinu mínu og notið góða kaffisins heima og verið meðal þeirra sem eru mér svo kærir.
Það er eins og náttúran sé að undirbúa mig undir Íslandsferð, því hérna var kallt í morgun og gjóla. Íslenskt veður... eller hur! Í CD spilarnum er Sarastro að syngja í Töfraflautunni. Trú, kærleiki, einlægleiki, sannleiki, fyrirgefning - að vera manneskja! Um gildi þess að vera manneskja. Hvílíkur yndislegur texti. Hið sammannlega, breyskleikan og umburðarlyndið. Kærleikan sem hver manneskja skal bera til annara. Agape! eins og það stóð í grískunni! Hvílikur prólóg til Íslandsferðar!
Fékk bréf frá gömlum vinum í Danmörku, Birthe og Kay í umliðinni viku. Þau spurðu mig hvort ég væri ekki til í að senda þeim myndir af fjölskyldunni og sérstaklega börnunum mínum. Þetta er svo ljúft og gott fólk. Alltaf senda þau gjafir á afmælumog jólum til krílanna minna. Ég sendi þeim svo myndir þegar ég kem heim aftur frá Íslandi. Svona fólk eru burðarstólpar samfélagsins. Talandi um vini og vinskap. Ég var að vinna í kirkjunni í gærkvöldi. Gestur þar kom til mín og spurði mig hvort ég værir ekki Baldur, Íslendingurinn? Ég jánkaði því. "Jú" sagði hann "þú ert prestur frá Íslandi - kannski þekkir þú gamlan og góðan vin minn frá Íslandi, Kristjan Boooooooason?" Jú, sannarlega kannast ég við gamla kennarann minn sr. Kristján Búason, grískudósent! Við spjölluðum alllengi saman og sagði hann mér margt skemmtilegt. Kannski fór svo vel á með okkur því báðir vorum við jú útlendir, hann Ameríkani og ég það sem ég er. Ósköp getur heimurinn verið lítill! Jæja, best að halda áfram með tiltektina hér. Sjáumst Ísland!
Ferðalög | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
30.8.2008 | 19:48
Masjävlar (2004)
Í kvöld hef ég horft á sænsku kvikmyndina Masjävlar. Kvikmyndin var sýna á SVT1 það er að segja RÚV þeirra Svía. Kvikmyndin var svo skemmtilega sammannleg og falleg með öllum tilbrigðum sínum við mannlega náttúru, litfengi og fegurð í ljótleika - þetta var eins og paletta hins sammannlega. Sögusviðið var í stuttu máli það að ung kona kemur heim frá stórborginni í sveitina til að samfagna föður sínum sjötugum. Hún, hún sem hið þögla vitni lífsins í sænsku Dölunum er skyndilega fangin í tilfinninganna ólgusjó - knappas sundfær sjálf vegna eigin tilfinningabyrðar. Ofurseld tilfinningum dregst hún inn í stórdramatískt fjölskyldulífið sem sannarlega hefur ekki sýnt sitt rétta andlit lengi. Ausið hefur verið eldsneyti í gegnum árin á andlega köstinn sem við hátíðahöldin í sambandi við afmæli föður hennar. Nú er kösturinn síðan fyrir margt löngu síðan gegnósa. Tundið frá tilfinningabombu hátíðarhalda tendrar bólið stóra og stuttlifaða. Niðurstaða myndarinnar er ein stór tilfinningasúpa hinna miklu fórna en síðan hinna stóru sátta.
Frábær kvikmynd með góðum leikurum sem hver á eftir öðrum gerir sitt besta og meira til. Þeir helstu: Sofia Helin, Barbro Enberg, Joakim Lindblad, Lars-Gunnar Aronsson.
28.8.2008 | 18:28
Fánaborg hvað þá!
Fánaborg!
Þetta er nú bara einn fáni. Fánaborg er síðast þegar ég vissi þegar mörgum fánum er safnað saman í þéttri uppsetningu fánastanga - öðrum kosti að gerð sé svona "fánaborg" með því að hvirfla saman ca. 5 fána.
![]() |
Íslensk fánaborg í Aþenu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
28.8.2008 | 17:33
Álftir á Lappkerinu - vangaveltur um líf
Lífið er eins og spírall, spírall sem vefst eins og vera ber um sig sjálfan, gormur sem verður eins og tákn fyrir hið síendurtekna í lífinu og samtímis framvindu lífsins um leið. Aftur og aftur er maður minntur á það sem liðið er, gott og slæmt. Líf mitt kemur að vera svona rétt eins og annara og við því er lítið að gera. Maður getur lært af endurteknum svipmyndum frá hinu liðna og hugsað fram í ókunna myrkrið sem bíður okkar allra að stíga inn í. Myrkrið er ekki endilega neikvætt. Heldur tákn fyrir hið ókunna, óvissu og hið hulda. Um helgina annaðist ég sem fulltrúi dómkirkjusafnaðarins hér í Stokkhólmi hjónavígslu í kirkjunni minni. Þarna var fallegt par á ferð sem á sér bjarta framtíð. Með fyrirbæn, handyfirlagningu og blessun Drottins sendum við þau út í lífið. Mér varð óneitanlega hugsað til þeirra hjónavígslna sem ég hef annast og svo til þess tíma þá er ég stóð í sömu fótsporum. Allt virtist vera svo bjart og framtíðin falleg og heillandi, sem hún var. En svo skiptast veður og áttir og það sem ekki á að gerast gerist. Það sem ekki var til í myndinni í upphafi skýtur upp kollinum. Mismunandi áherslur, langanir, líf tveir ólíkir vegir skilja sundur hinn þegar venjulega veg. Á sunnudag átti ég frí úr vinnunni. Ég var mest heima og hugsaði um lífið og tilveruna. Ég setti upp forrit í tölvunni minni sem ég þarf til að geta verið í fjarnáminu í Falun í Dölunum og pantaði mikilvægustu skólabókina sem ég svo fékk með pósti í gær. Vangaveltur mínar fjölluðu þann daginn um stríð og frið. Hér á ég ekki við hið fræga rit Leó greifa Tolstoy, en mínir þankar fjölluðu engu minna um líf, æsku, kærleika, ást, hrörnun, öldrun lífið og dauðann. Lifandi gekk ég um litla skóginn umhverfis Stóra Skuggan, sunnan Lappkersins. Ungviði álftanna, móbrúnir ungar þeirra, ófleygir svömluðu milli foreldra sinna þarna úti á litla Lappkerinu. Fannhvítir foreldrarnir höfðu auga með að enginn kæmi of nærri ungunum. Þetta spennuspil á litla Lappkerinu er sannarlega sjónarspil. Ungar andanna sem syntu allt umkring létu lítið á sér bera og voru í skjóli af foreldrum sínum. Svanirnir svo stórir sem þeir eru gátu hæglega bitið í sundur eða slegið ungana niður dauða með þungum vængjaslögum sínum. Allir vissu sinn stað og sinn sess í samfélagi litla Lappkersins. Barátta lifsins mót dauða og ögrun umhverfisins. Ég á líka litla unga sem synt hafa nú í 4 ár á sínu óaðgengilega vatni. Þeir vaxa og dafna og þekkja umhverfi sitt. Þeir eru ungar viljasterkra foreldra. Foreldra sem myndu gefa líf sitt væri það þeim til lífs steðjaði ógn að. Álftirnar á Lappkerinu virðast stundum vera farnar að æfa flugtök á vatninu eftir að þær hafa verið í sárum. Farið er að bera á nýjum flugfjöðrum, þær snurfusa sig og plokka í dúninn. Þær eru farnar að hugsa sér til brottfarar. Ungarnir læra sig eitthvað nýtt á hverjum degi. Pabba- og mömmu-álftin synda sjaldan saman lengur á vatninu. Það verður að koma vetur og vor til að þau leggi hugi saman. Þannig er lífsins gangur. Þau hverfa á braut í haust og skilja ungviðið eftir í lífsins ólgusjó.
Ungarnir velja oft að synda með einu foreldranna. Hvort þetta er gangur lífsins veit ég ekki, en svona er þetta eða er þetta val foreldranna að svona sé þetta? Enn ein spurningin sem ég kann ekki svar við. Því lengra ég geng í skóginum og nálgast heim veit ég meira hvað ég veit lítið. Þetta er skrýtið líf.
Mann langar oft að segja svo mikið, segja frá lífinu. Segja frá þeim dimmu stöðum þar sem ég hef getað kveikt ljós og séð nýja heima, skilið myrkrið og varpað leyndardómi þess í ljóssins skyn. Af hverju, spyr ég mig, eigum við svo erfitt með að lifa með lífinu, lifa með lífinu í allri þeirri ljóssins og litanna dýrð sme þar er að finna? Af hverju steytum við alltaf um smásteina og látum þá fella okkur? Ég vona að gráum álftarungarnir sjái lífið eins og það er, ekki bara með augum þess sem þeir elta, enda myndu þeir aðeins verða fleygir, en ekki vita hvert þeir ættu að fljúga. Guð gefi að þeir læri að fljúga og vita hvert þeir eiga að fljúga. Ungarnir mínir, lærið að fljúga leitið ljóssins og fegurðar lífsins víða og skapið tilgang með lífinu og lærið af reynslu annara.28.8.2008 | 15:59
Ég veit hvert peningarnir fóru sem nota átti í nætursjónauka
Lesið gjarnan bloggið hennar Ólínu Þorvarðardóttur:
http://olinathorv.blog.is/blog/olinathorv/entry/626408/ Það er skelfilegt að sjálfsupphafningin, siðleysi stjórnmálamanna þurfi að kosta okkur þjóðina svo mikið. Hversu betur hefði ekki þessum greiðslum til stjórnmálamanna - til auglýsingaferða þeirra sjálfra - verið betur komið við kaup á nætursjónauka fyrir Landhelgisgæsluna? Ég held að þótt við séum stolt af okkar silfupeningum frá Peking, þá held ég að þjóðin vilji frekar geta bjargað fólki heldur en að sjá Þorgerði Katrínu og hennar samstjórnarfólk á áhorfendapöllunum í Hreiðrinu í Peking. Ég get ekkert fyrir útskýringar um að það hafði verið "rétt" að senda helling af stjórnmálamönnum, ráðuneytisstjórum og mökum þeirra - mér stendur öryggi landsmanna og gesta okkar á Íslandi hjarta nær en að greiða undir rassinn á þessum stjórnmálamönnum sem hvort eð virðast vera okkur bara til óbærilegrar byrðar.
![]() |
Nætursjónaukar aðeins í einni þyrlu |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |