Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál

Stór orð...

Það er svo hryggilegt að Íslendingar, sem staðið hafa í sjálfstæðisbaráttu á ný núna á sl. ári og krafist hafa nýs lýðræðis skuli vera svo viljugir að gefa frá sér ávinning þessar baráttu. Eftir nokkra daga kjósa Svíar til Evrópuþingsins. Þetta eru nokkrir fulltrúar sænsku þjóðarinnar sem kosnir eru af þjóðinni til setu á þinginu og sem síðan eiga að sjá um verndun lýðræðis innan bandalagsins.

Það er búist við að tæplega 40% af þjóðinni kjósi í þessum kosningum.  Þjóðinni er sama. Þjóðinni veit að það er ekki verið að kjósa um áhrif í ESB, þjóð veit að hvernig sem kosningarnar fari muni áhrif Svía (9,5 milljónir) ekki skipta neinu og hafa sáralítil áhrif.  Því er búist við að tæplega 40% atkvæðisbærra mæti á kjörstað. 

Það er skilyrði lýðræðis að það sé virkt og með þátttöku stórs hlut þjóðarinnar.  Staðan er því svo nú, að lýðræðiselskandi Svíar vita að atkvæði þeirra munu ekki hafa nein áhrif á stefnu og stjórnun ESB.   Geta má þess að búist er við 11% þátttöku í Póllandi í sambærilegum kosningum. 

Er þetta ólýðræðislega fyrirbæri, ESB virkilega það sem þjóðin vill ganga til liðs við?   Vilja þingmenn og ráðherrar VIRKILEGA selja íslenskt sjálfstæði og lýðræði í hendur erlends valds?   Þess valds þar sem aðildarþjóðir hafa barist á banaspjótum og startað heimstyrjöldum vegna ólíkra skoðana og lífssýnar?   Ég segi NEI TAKK!


mbl.is ESB-tillagan birt
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvað með Ísland?

Mér finnst að kominn sé tími til að lygavefur Gordons Brown verði afhjúpaður í allri sinni prakt! Blekkingar, svik, þjófnaður og óheilindi hafa löngum verið fylgifiskar breskra stjórnmála, þar sem hvert hneykslismálið rekur annað. 

Líklega er best að Gordon karlinn greini nú eitt skipti fyrir öll frá allri vitleysunni og gleymi þá ekki að biðjast fyrirgefningar fyrir hryðjuverk sín gegn Íslendingum.  Sá væri stærri af sóma ef slíkt gerði.


mbl.is Brown biðst afsökunar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ísland í útlandinu - 1. maí

Datt bara rétt svona í hug að setja inn þessa litlu mynd. Fyrir utan aðalbyggingu sænska utanríkisráðuneytisins í Arvfurstpalatset við Gústaf Adolfs-torg var fyrsta maí flaggað fánum fullvalda norrænna landa. Þetta vermdi litla kramda íslendingshjartað.

DSCF2239 Mynd: Baldur G Baldursson
Gústaf Adolfs-torg (áður Malmtorget) í Stokkhólmi. Riddarastyttan er af Gústafi II Adolfi [1611-1632] og var sett upp 1791 (afhjúpuð 1794).  Arvfurstpalatset var byggt 1783-1794 fyrir prinsessuna Sofíu Albertínu.

Um evrópumálin

Þá eru Evrópumálin komin í farveg í Noregi. Norðmenn hafa ákveðið að vera ekki með að sinni gera því viðskipta- og tollasamninga við bandalagið í staðinn. Hér er spurningin hvort Ísland geti ekki gert slíkt hið sama. Íslendingar hafa nefnilega spil á hendi sem fólk hefur ekki hugsað út í. Það eru auðlindir okkar, nýttar sem ónýttar.

Evrópubandalagið stendur illa núna um þessar mundir og efnahagsvandinn að höggva enn fastar að rótum efnahagslífs bandalagsins. Nýju austantjaldslöndin eru illilega farin að finna til einsemdar í vanmætti sínum gagnvart stærri ríkjum sem hafa þó sterkari markaði og efnahagslíf.  Þessi lönd starfa nú sjálfstætt, en ekki sem bandalag. Hver eys sinn bát sem hann getur, en ekki er hjálpast að. Þetta er nú Evrópusambandið í hnotskurn.

Svört jörð er það kallað þegar rík lönd vesturlanda og stórar verslanakeðjur kaupa upp landsvæði í Afríku, Suður-Ameríku og Asíu og nýta þessi svæði sem forðabúr fyrir komandi matvælaskort í heiminum eftir nokkra áratugi, - kannski ekki einu sinni það - því matvælaskortur mun herja á heiminn innan tíu ára.  Fiskimið Íslands hafa enn ekki verið rányrkt í þeim mæli sem hafið umhverfis Spán, Portúgal, Írland, Frakkland og Bretlandseyjar.  Þeir horfa því hýrum augum til okkar og stóra hafsvæðisins okkar.

Skortur á olíu og gasi verður síðan einhvern tíman svo stórt vandamál að hver dropi verður gulls ígildi.Þannig mun það svara kostnaði að sækja olíu og gas á botn hafsins kringum Ísland.  Hrein orkuframleiðsla á Íslandi er sömuleiðis áhugaverð í augum Evrópumanna.  Allt þetta eru spilin okkar, spilin sem við gefum ekki frá okkur, heldur spilum með. Við vinnum á trompin okkar ef við glepjumst ekki af aulaskap og gylliboðum ESB.

Að fara með hraði inn í ESB væri það heimskasta sem Ísland gæti gert í dag. Allt sem heitir að flýta sér er Íslandi ekki til góða. Flýtimeðferð kostar alltaf extra. Það vita þeir sem slíkt hafa nýtt sér. Hvort sem íslensk þjóð kýs að fara inn í Evrópubandalagið eður ei, verður að vinna allt slíkt ferli með yfirvegun og af skynsemi.  Ég sé ekki raunhæft að stefna á aðild næstu 8-10 árin.  Það væri ekki íslenskri þjóð til heilla að sækja um aðild þegar illa gengur hjá okkur, því samningsstaða okkar er þá afleit.

Ég kýs heldur að taka upp náið samstarf við Norðmenn og þannig halda góðum tengslum áfram við norðurlöndin sem eiga nánari samskipti við Noreg en við okkur.  Eitt lítið viskipta og menningarbandalag Noregs og Íslands, með tengindu við Grænland og Færeyjar væri mikill akkur fyrir okkur Íslendinga.  Ég tel farsælast að skoða þessa möguleika, því Norðmenn vilja hafa aukin samskipti við okkur. Sláum ekki á útrétta hendur þeirra. 


mbl.is Evrópusambandið bjargar ekki Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólki er ekki sjálfrátt!

Af niðurstöðu nefndar Sjálfstæðisflokks (= Sjálftökuflokksins) um peningamál má sjá að fólki er ekki sjálfrátt lengur. Nefndin um peningamál - sem hlýtur að vera ein sú stærsta og mikilvægasta innan Sjálfstæðisflokksins - enda sjálftakan úr ríkiskassanum búin að vera algjör undir síðustu nær 20 árin, er svo veruleikafirrt og svo langt komin frá öllum veruleika að best væri að benda þeim á að flytja inn á EURO-svæðið.  Helst að flytja til þeirra landa sem verst hafa það á efnahagssvæðinu, ÞRÁTT fyrir EURO.  Fullkomið hrun blasir við í þeim löndum gömlu austur-Evrópu, sem tengt hafa sína gjaldmiðla við EURO.  Að hafa fulla tengingu við EURO hjálpar ekki þessum löndum. Þvert á móti er tengingin að sliga efnahagslífið í þessum löndum, ásamt þeirri einföldu ástæðu að nú á tímum erfiðleika í efnahagslífi, starfar einstök lönd ESB af fullum krafti að bjarga því sem bjargað verður heima fyrir, meðan önnur minna stöndug lönd eru látin sogast niður með baðvatninu...   Samheldni bandalagsins er engin, stöðugleiki EURO er engin og EURO, þótt ein stærsta gjaldmiðilseining heims, er ein þeirra veikustu.  Af hverju?  Því of margir óvissuþættir stýra henni.

Þessa mynteiningu vill Sjálftökuflokkurinn innleiða á litla Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert um svona hluti að segja. Hann nýtur ekki trúnaðar þjóðarinnar lengur. Hann leyfði útrásarmönnum að setja Ísland á hvínandi kúpuna og fyrir það er ég EKKI þakklátur.


mbl.is Evran komi í stað krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tinni í Tíbet

Tinni og félagar komust aldrei til Tíbet vegna stjórnmálaástandsins í landinu. Í fréttum undanfarið hefur komið skýrar og skýrar fram hverjir eru að taka völdin í heiminum og hverjir eru að glata þeim. Stóru máttugu nýlenduþjóðirnar hurfu af sjónarsviðinu þegar við lok Fyrri heimstyrjaldarinnar, eða á öðrum tug 20. aldarinnar. Breska heimsveldið, ljónið ógurlega varð tannlaust og tapaði klónum. Nýlenduþjóðirnar sem plagað höfðu lönd Afríku s.s Belgía, Þýskaland, Frakkland og Ítalía glötuðu sínum áhrifum og urðu síðar, eða eftir lok Síðari heimstyrjaldarinnar að gefa eftir tilkall sitt til mikilla landflæma.  Lokahnykkurinn reið svo yfir hjá Bretum þegar nýlendum þeirra var gefið nómínelt sjálfstæði og Hollendingar töpuðu nýlendum sínum samtímis og Portúgalar. Spor finnast hér og hvar eftir þennan tíma, tungumál og ritmál, blóðugur svörður og staðbundin menningareyðing.

tinniBandaríki réðu svo fyrir málum frá lokum Kalda stríðsins eftir að Sovétríkin liðuðust í sundur og mölur komst í Járntjaldið.  Eftir stendur stórveldið Bandaríkin og Kína í dag. Kína er land sem með stærð og fjölda landsmanna hefur sannarlega stækkað hraðar en nokkurn óraði fyrir. Kína og útþenslustefna þess er farin að láta á sér bera svo um munar. Sjálftakan í formi valdaráns i Tíbet er augljós þeim sem bara horfir þangað.

Í ótta sínum að lönd heimsins muni um síðir opna augu sín fyrir mannréttindabrotum Kínverja í landi Tíbeta, reyna þeir að stöðva ánna við ós. Já, með því að setja nokkrum þjóðum fótinn fyrir dyrnar svo sem Suður-Afríku.  Viðskiptatengsl eru mikilvægari mannréttindi og þannig hefur það lengi verið í Suður-Afríku.  Miklar framfarir hafa verið í því landi, en betur má ef duga skal. Milljónir íbúa stórborga búa í pappakössum og hafa hvorki aðgang að hreinu vatni, frárennsliskerfi (klóak), heilsugæslu eða menntun. 

Þetta land, sem nú á að halda stórmót í íþróttum á komandi árum og vera í heimspressunni, styður nú mannréttindabrot og framfarir Kínverja í Tíbet með að hafna Dalaí Lama þátttöku á alþjóðaráðstefnu um frið.   Viðbrögðin hafa verið sterk.  Friðarverðlaunanefnd Nóbels hætti við þátttöku, og slíkt hafa fjöldi annarra þátttakenda gert í mótmælum við framgöngu gestgjafanna.  Þessi friðarráðstefna sem skipulögð var til að kalla eftir jákvæðri mynd af Suður-Afríku nú fyrir Heimsmeistarakeppnina í fótbolta fór því út um þúfur vegna hagsmunaárekstra og stórveldistilburða Kínverja.  Ég tel að þjóðir heimsins eigi að skíta hreint í Heimsmeistarakeppnina í fótbolta þar til Suður-Afríka hefur náð sönsum.


mbl.is Friðarráðstefnu aflýst vegna Dalaí Lama
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inquistior Joly

... quoniam punitio non refertur primo et per se in correctionem et bonum eius qui punitur, sed in bonum publicum ut alij terreantur, et a malis committendis avocentur.

(Lauslega snúið á íslensku:"... ekki bara til góða hinum [seka] og til að refsa honum heldur til góða hinum almenna borgara, að hann óttist og haldi sig frá vondum verkum.")

Svo hljóða orðin úr handbók rannsóknara Hins heilaga rómversk katólska rannsóknarréttar frá 16. öldinni. Orðin eiga við um Ísland í dag.  Þetta er hryllilega sorglegt, en vissulega satt. Veiðarnar eru hafnar. Engu skal þyrmt til að fletta ofan af skjólshúsum og skúmaskotum fjárglæframanna. Engu! 

Hreinsunin á að vera algjör, engum skal þyrmt. Spillingin verður að hreinsast burt og svo grimmilega skal gegnið fram að þetta verði öðrum til viðvörunar. Fréttir af rannsóknarnefndum og skilanefndum sem búa erlendis á 5 * hótelum vekur einungis viðbjóð!  Hingað og ekki lengra. Þetta má ekki ganga svona lengur.

Nú er bara fyrir Evu Joly að setja upp gúmmíhandskana því skíturinn er mikill og spillingin algjör.  Burt með hina íslensku nómenklátúru!

 


mbl.is Eva Joly hreinsar út á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Af hverju er þeim svona áfram um að selja Ísland?

Já spurningin hangir alltaf yfir allri ESB umræðunni og vekur í raun óhug hjá mér! Hvað er það sem Evrópubandalagssinnar sjá sem ég ekki sé?   Kannski eru það öll tækifærin.  Kannski eru það glampandi EURO smápeningarnir. Kannski eru það landamæralaus og tollalaus viðskipti við ESB löndin.  Íslendingar munu bara sjá cent og EURO mynt, því enginn Íslendingur mun hafa efni á að eiga EURO seðla. Tækifærin, jú fyrstu árin verða eflaust dýrðleg. Stjórnmálamenn verða boðnir í fjölda veislna og kampavínið mun fljóta - en bara fyrsta árið.  Eftir það fer róðurinn að þyngjast og íslenskir stjórnmálamenn munu sjá að þeir hafa lítið eða ekkert að segja um þróun mála í Evrópubandalaginu. Já, sennilega kemur að því einn daginn að stóru fjölmennu þjóðirnar krefjast lagabreytinga þess efnis að fjöldi íbúa í landi eigi að ráða atkvæðavægi einstakra landa. Þessi umræða fæddist fyrir nokkrum árum.  Henni vex fiskur um hrygg.  Hvar standa þá Íslendingar með sín sérmál, kröfur um að fá að stjórna fiskveiðimálum og landhelgi sinni?  Það er hlálegt að ætla að óreyndir íslenskir stjórnmálamenn ætli að eiga eitthvað í þá hákarla sem hafa verið aldir upp frá barnæsku til að gegna embættum í sínum löndum og stjórna nú í ESB.  Mér óar barnaskapurinn. 

Hið sorglega í öllu er afneitunin. Loforð um sjálfstæða stefnu Íslands i einstökum málaflokkum er eitthvað sem breytt yrði með reglugerð yfir nótt í Bruxelles. Þannig er það. Stærri þjóðir eins og Svíar t.d.  (næstum 9,5 milljónir) eru farnir að finna fyrir því hversu róðurinn mót bákninu er farinn að þyngjast.

Umræðan einkennist af fádæma hugmyndaleysi um aðrar mögulegar lausnir. Hvaða leikfélaga við eigum að velja okkur og hvort við viljum að leikfélagar okkar séu jafningjar okkar eða ei?

Síðan er líka vert að gleyma ekki að verði ekki dvölin okkur svo sælurík sem margir vilja spá, og við viljum úr bandalaginu; þá er það ekki hægt!  Dyrunum er lokað á eftir okkur og þær soðnar í falsinn.


mbl.is Ný ríkisstjórn um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óafturkræf óheillaþróun

Þessi skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar er gula spjaldið fyrir okkur hér í löndunum í norðri. Í köldu veðurfari norðurlandanna tekur það náttúruna mun lengri tíma að ná sér en í heitari löndum þar sem gróðurinn er fljótari að fylla í eyður sem skapast þegar við mennirnir tökum að breyta, eyða og "bæta". En minnkandi fljölbreytni í gróður- og dýraríki (flora og fauna) er hryggileg staðreynd sem við íbúar norðursins verðum að axla okkar ábyrgð á.

Finnur Jónsson

Beinin hennar Stjörnu [1934] eftir Finn Jónsson, olía á striga [90cm x 106cm]

Eyðilendur og lífríkisauður á undanhaldi er dæmi um hnignun. Stórar lendur hafa verið skaðaðar með lagningu háspennulína, vega, slóða, skála, virkjanna og uppistöðulóna.  Auðlendur Íslands liggja ekki bara í fisveiðum og virkjunar vatnsfalla og háhitasvæða, heldur í öræfum landsins, hinu ósnortna landi, þar sem fjölbreytni lággróðurs, skordýra, hins sanna villta landslags þar sem háspennulínur tjalda ekki sjóndeildarhringinn og landrof verður vegna yfirborðssveiflna uppistöðulóna. 

Við höfum fengið gula spjaldið. Þegar rauða spjaldið kemur er allt um seint!


mbl.is Líffræðilegur fjölbreytileiki minnkar á Norðurlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skollaleikur Gordons Brown

Það er ljóst að það er sama ruglið í gangi í Bretlandi og sömu gömlu klisjurnar notaðar hjá Gordon Brown og hjá fyrri ríkisstjórn Íslands. Þeir eru fyrir löngu búnir að gera á sig, þeir vita það og lýðurinn finnur fnykinn. Lýðurinn horfir dáleiddur á og hugsar með sér; "það er eitthvað lyktarskyninu hjá mér og sjóninni - Gordon og Geir hafa alltaf verið svo góðir gæjar."  En fólkið sá og sér rétt og ekkert er að lyktarskyninu.

Ljót lygin í gegnum árin hefur blindað þjóðina. Rausið og þunn en snúinn röksemdafærslan sýnir að hún stenst ekki. Fjármálamarkaðir Evrópu eru að krafsa í neyðarsjóði hagkerfa sinna landa. ESB ræður ekki við að skapa heildstæða aðgerðastefnu, stóru löndin Þýskaland, Bretland og Frakkland bjarga sínu eigin skinni og nýinngengnu löndin í austri eiga vart til hnífs eða skeiðar vona bara að einhver heildarstefna verði sett í framkvæmd til bjargar efnahagslífinu. Þeirra vonir verða að engu og hvern dag fækkar brauðbitunum sem falla af borði ríku ESB þjóðanna. Enginn verður saddur af því að sleikja mylsnu.  

Innviðir ESB eru graut fúnir. Efnahagsstefnan var aldrei til, heldur var hún aðeins blek á pappír. Orðin "sameiginleg efnahagsstefna" voru sem gildra sem austur Evrópulöndin stigu í og sitja nú föst.

Í þessum lygavef stendur Gordon Brown upp og krefst "aukins siðferðis". Hvílík hræsni. Hann talar um að lok "ábyrgðarleysis og óhófs" væru nauðsynleg.  Hann ætti að gera öllum hinum vitiborna heimi þann greiða að segja af sér og munstra sig á hjálpargagnaskip á leið til einhvers þess lands þar sem Alþjóðagjaldeyrisstjóðurinn hefur lagt allt í rúst.  Þar er þörf fyrir brauð og vatn. Fátækar þjóðir eru siðprúðar og lifa ekki í óhófi.  Óhóf og siðleysi sprettur upp þar sem allsnægtirnar eru sem mestar!


mbl.is Brown neitar að hann beri ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband