Færsluflokkur: Utanríkismál/alþjóðamál
21.7.2009 | 10:28
Fljótfærni og þekkingarleysi
Í bloggi mínu hefi ég bent á áður að best hefði verið fyrir íslenska ríkisstjórn að ráða nokkra fína lögmenn frá t.d. Bandaríkjunum (tóbaksframleiðendur gætu sennilega bent á einhverja dugandi einstaklinga). Ég vil meina að íslenskir ráðamenn og samningamenn ríkisstjórnarinnar hafa hreinlega ekki þá þekkingu sem þarf til að snúa á svona stórveldi sem Breta og svo auðvitað ESB sem rær undir niðri mót öllu sem íslenskt er. Ég tel að með sérhæfri samninganefnd mót risunum gætum við fengið betri kosti í samningunum og komist frá borði minna fátæk og stoltari.
Þjóðarstoltið er komið næstum í vaskinn og ljóst að íslensku þjóðinni líður ekki vel. Þökk sé ríkisstjórnum þessa lands. Hvers verkefni er einmitt að þjóðinni líði vel, jafnvægi ríki og stöðugleiki. Þessu hafa ríkisstjórnir síðustu ára ekki valdið.
Leitum okkar sérþekkingar í lagaflækjum og samningaaðferðum. Viðurkennum að við höfum ekki burði í að standa í svona sjálf og köllum, rétt eins og með Evu Joly, fagfólk og sérhæfða í málaflokkunum að sjá um okkar mál.
![]() |
Erfitt en verður að leysast" |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.7.2009 | 14:31
Fullveldi Íslands veikt
Með samþykkt ICESAVE-samningsins við Breta og aðra sem gert hafa kröfu um fullar endurgreiðslur Ísland til þeirra sem glötuðu fjármunum í efnahagshruninu leiðir beint til þess að fullveldi Íslands mun veikjast. Gjaldmiðillinn, íslenska krónan mun falla í verði, úr litlu í ekkert og Ísland mun teljast til þróunarlanda.
Það eru engar ýkjur eða skröksögur að hér er vegið að sjálfstæði Íslands. Erlendar stofnanir og ríkisstjórnir seilast ar með svo djúpt í vasa íslenskra skattborgara og lántökufólks að um valdaafsal er að ræða. Það er þar með ekki ríkisstjórn Íslands sem ákveður leikreglur, heldur ríkisstjórn Gordons Brown, IMF og Evrópubandalagið.
Að setja Lýðveldið Ísland í svona stöðu er beint brot á stjórnarskránni.
![]() |
Engin vissa um meirihluta fyrir Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
18.7.2009 | 14:02
Ekkert pláss fyrir fleiri þurfalinga
Það voru alltaf einhverjir sem héldu að ESB aðild Íslands yrði allra meina bót, og að peningarnir frá ESB myndu bara þegar byrja rúlla inn og allt yrði bara undusamlegt á sekúntubroti. Nei. ESB heldur að sér höndum og mun ekki veita Íslandi eða íslenskum neina fyrirgreiðslu - NEMA við afsölum okkur einhverjum þeirra sérréttinda sem við ætlum að við fáum s.s. landhelgisforráð, stjórn fiskveiða, náttúruauðlindir etc...
Stjórnmálamenn íslenskir héldu að þeir fengju allt fyrir ekkert. Kristdemókratar í Þýskalandi hafa ekki áhuga á að fá enn einn þurfamanninn í ESB. Nóg er komið og mörg hinna nýju aðildarríkja í sárri neyð. Ekkert pláss eða tími er fyrir Ísland núna. Þetta vissu flestir þeir sem sett hafa sig inn í Evrópuumræðuna og fylgst hafa með fjölmiðlum.
![]() |
Andsnúnir inngöngu Íslands |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2009 | 08:52
Upp, upp, þú Íslands þjóð
Nú tel ég svo komið fyrir stjórnmálamönnum að best sé að þeir fari í sumarfrí. Afglöp á afglöp ofan, streita og þreyta er farin að segja svo um munar til sín og fátt vitrænt sem kemur lengur frá þinginu. Ég óska þess að fólk fari hægar í sakirnar og reyni að stilla sig. Stjórnarflokkarnir eru þreyttir eftir vatnsaustur vorsins og þjóðarskútan er vel fyrir ofan vatnsborðið núna. Farið í frí elskurnar og náið áttum. Skreppið á Þingvöll, í Skálholt, í Kópavoginn þar sem Kópavogsfundurinn var haldinn. Skreppið út á Austurvöll og spáið í hvort þetta allt sjálfstæðistal var virði allra þeirra orða, þeirra lífa, þess blóðs sem úthellt hefur verið. Spáið í hvað orðið "sjálfstæði" merkir og hvers virði það er þjóðarmynd og stolti einnar þjóðar sem Íslands. Lítið til þeirra landa nú, sem barist hafa undan merkjum fjölþjóðaríkja og ríkjaheilda. Skoðið hvað er að gerast þegar þjóðir vilja vera sjálfstæðar.
Hugsið til Fjölnismanna, til Jóns Sigurðssonar, til Jóns Arasonar, til þeirra sem grátandi settu stafkrók sinn við hyllingu erlends valds Danakonungs á Kópavogsfundi 1662. Hugsið til Rasmusar Christians Rask sem ötulast barðist fyrir íslenskri tungu og menningu... Af hverju allt þetta ef þið viljið gefa þetta allt frá okkur?
Farið í frí! Hugsið upp nýjar leiðir!
![]() |
Mikil óvissa um ESB |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.7.2009 | 07:16
Ljót hrollvekja um gæfusnauðar stjórnarathafnir
Nú eru sérfræðingar á öllum sviðum farnir að koma fram með yfirveguð álit sín. Faglegt mat á stöðunni er að skapast jafnt og þétt og myndin farin að skýrast. Aðferðafræði stjórnarflokks Jóhönnu Sigurðadóttur hefur fengið á sig harða gagnrýni. Stefna ESB gagnvart Íslandi hefur sömuleiðis fengið sinn skerf og verður að segjast eins og er að myndin er ekki falleg. Þetta er ljót hrollvekja um gæfusnauðar stjórnarathafnir og vilja eftir að skipa sér á sess í sögunni án tillits til fórnarkostnaðar.
Elvira Mendez, sérfræðingur í Evrópurétti við Háskóla Íslands misbýður yfirgangurinn í ESB. Að einstökum löndum sé gefið sjálfdæmi í einstökum málaflokkum sem í raun skv. stefnu ESB ættu að fá umfjöllun í yfirþjóðlegum stofnunum ALLS bandalagsins.
Tek ég hér með undir orð Elviru Mendez og bið fólk að ganga hægt um ESB-gleðinnar dyr. Hér er miklar og margar hættur á ferðinni. Best að ganga ekki til þessarar veislu.
![]() |
Misbýður umgjörðin um Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
15.7.2009 | 06:18
Knéfall Íslands fyrir ESB
Þetta er nú það furðulegasta álit sem ég hef heyrt um. Ríkisstjórnin pantar álit (og sennilega niðurstöðu). Síðan er þessu slengt framan í þjóðina sem nú þegar er bæði skattpínd og þarf að borga ofurvexti og sagt að allt sé bara í góðu lagi.
Hvenær mun íslenska krónan eflast og ná sinni fyrri verðmætastöðu gagnvart öðrum gjaldmiðlum? Og þar með námsmönnum erlendis mjög erfitt fyrir? Hvenær munu vextir á lánum lækka á ný, eftir að IMF (Alþjóðagjaldeeyrissjóðurinn) jók greiðslubyrði Íslendinga af bankalánum? Framkvæmd sem sett hefur margar fjölskyldur í mikla greiðsluerfiðleika - ef ekki gjaldþrot og íbúðamissi.
Ég verð að segja að mér finnst þetta allt vera spil sem hefur bara eina pantaða niðurstöðu. Ég veit ekki af hverju ríkisstjórnin er óheiðaleg mót þjóðinni og segir okkur ekki bara hvað hún vill. Það væri einfaldast þannig. Ég tel að ástæðan sé að greiðum við ekki upp 100% ICESAVE skuldirnar og eru "vingjarnleg" við Breta, munu þeir standa gegn aðildarumsókn okkar í ESB. Hlutur sem ég myndi EKKI gráta.
Að fórna öllu, að ganga svo á eftir ESB og einstaka aðildarlöndum þess skrímslis sem ESB er, er að mínu mati fásinna. Þjóðarstoltið er horfið. Íslendingar eru að sligast undan kröfum IMF, og nú á að leggja á okkur bagga ICESAVE og Breta.
Ég vil ekki taka þátt í slíkum skollaleik.
![]() |
Ríkið ræður við Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.7.2009 | 06:33
Hversu oft þarf að segja þetta: við berum enga ábyrgð!
Orð skulu standa. Íslendingar hafa löngum verið þekktir fyrir orðheldni sína. Þegar við setjum stafi okkar við samkomulag og staðfestum það þannig, má út frá því ganga að við séum menn orða okkar. Þannig hefur það verið og þannig á það að vera.
Nú hefur komið fram að ekkert samkomulag er til fyrir ICESAVE og engin skrifleg staðfesting á því að Ísland hafi gengist formlega undir ábyrgðir af einu eða neinu tagi. Íslendingar eru því óbundnir skv. alþjóðalögum að greiða eyri af téðum "skuldum".
Ég skil að það geti verið erfitt fyrir ríkisstjórnir Evrópulanda að viðurkenna þetta enda slíkt sárt. Þetta kemur við pyngju þeirra Gordons Brown og kollega hans í ESB. En af hverju eigum við að greiða spilaskuldir breskra auðkýfinga, belgískra, hollenskra, lúxembúgískra og þýskra fjárglæframanna? Það er mér með öllu óskynsamlegt.
ESB sem oftar en einusinni hefur reynt að setja stein í veg Íslendinga og til og með sparkað í okkur liggjandi - hversvegna eigum við að hjálpa til þar þegar eigið fólk sveltur og er að missa allt sitt vegna ofurvaxta IMF (alþjóðagjaldeyrissjóðsins)? Mér er spurn?
![]() |
Óvíst um ábyrgð á Icesave |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt 8.7.2009 kl. 13:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
20.6.2009 | 08:42
Ekkert breytist, lítilmagninn borgar sem fyrr
Það breytist ekkert þótt nýjar ríkisstjórnir komi fram með nýjar stefnuáætlanir og máli heiminn í nýjum litum. Fyrr eða síðar flagnar ódýr málningin af fyrra yfirborði og ekkert virðist hafa unnist. Þegar við svo fáum fagfólk með háþrýstihreinsibúnað, er alltaf einhver sem grípur um vatnsslönguna svo verkið ónýtist.
Þannig er það á Íslandi nú og hefur alltaf verið. Vonleysið er að gera vart við sig út um allt í samfélaginu. Fólk sem trúði að nú skyldi allt verða betra. Að eftir nokkur erfið ár ættum við að geta staðið upp og byrjað að efla gott samfélag sem væri íslenskt og án erlendra áhrifa. Stjórnvöld hafa brotið niður markvisst baráttuþrek og þol þjóðarinnar. Fyrsta skrefið var þegar stjórnvöld ákváðu að sækja ekki bresk stjórnvöld til saka fyrir að beita hryðjuverkalöggjöf á Ísland, í fullkomnum órétti. Þarna var fyrsta af mörgum skrefum tekið - í þá átt að brjóta niður baráttuanda og STOLT Íslendingsins.
Nú sem fyrr eiga, samkvæmt samningum ríkisstjórnarinnar, íslensku heimilin að taka á sig allar greiðslur glaumgosa og spilavítisskuldir útrásarmanna. Við eigum að kyngja niðurlægingunni og borga uppsetta reikninga. Lítilmagninn á að borga sem fyrr! Gamla fólkið, námsmenn, þeir sem eru við hungurmörk þ þessir eiga að greiða mest! Íslensk stjórnvöld gáfu erlendum stjórnvöldum "sjálfdæmi" í öllum málum. Þetta hefur kostað okkur hrikalegar fjárhæðir, en fyrst og fremst stoltið.
![]() |
Fara framhjá gjaldeyrishöftum |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Breytt s.d. kl. 08:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.6.2009 | 13:46
Látum dómstóla skírgera stöðu laganna og hvort þau haldi
Ljóst er að ágreiningur er mikill á Alþingi, jafnvel meðal stjórnarflokksþingmanna. Óánægjan í samfélaginu er ótrúlega mikil og kann að aukast um allan mun. Ríkisstjórninni er hollast að láta reyna á hvort þessir samningar eru löglegir og í anda íslenskrar stjórnarskrár og laga - sem og þjóðarsiðferðis.
Ég tel rétt að samningarnir verði settir undir próf. Hér verði gengi úr skugga um hvort þeir haldi og báðum dómstigum fengið málið til umfjöllunar. Sjóða mun upp úr ef þessu verður þvingað í gegnum stjórnkerfið.
Persónulegt mat, eftir að hafa talað við einn lögrfræðing í evrópurétti og síðan stjórnmálafræðiprófessor er að samningarnir séu á mörkum hins löglega. Siðferðislega og móralskt eru þeir verðlausir og til að brjóta niður baráttuanda þjóðarinnar. Sérstaklega sá þáttur sem lýtur að sérákvæði því sem breski samningurinn hefur á sér. Ljótur leikur! Sérfræðingarnir töldu að Íslendingar ættu að geta gert "betri" samninga.
![]() |
Icesave: Útgönguákvæði ekki afdráttarlaust |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.6.2009 | 17:19
Orð skulu standa, skuldbindingar eru orð!
Orð skulu standa. Það er skrýtið að rísa upp á afturlappirnar og reyna að slá sig til riddara nú þegar samningaviðræður eru svo til um garð gengnar. Sumir, og þá meðtalinn Þór Saari, reyna að sækja styrk og vinsældir til óánægðra Íslendinga. Það er nóg af þeim og ljóst að fólk á erfitt með að sætta sig við orðinn hlut. Málið er bara ekki svo einfalt. Skoðum hvað gerðist:
Stjórnarsamstarf það sem Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn stóðu lengst að setti sér reglur í því bankakerfi og því fjármálaumhverfi sem ríkti á uppgangsárum íslenskra útrásarmanna. Öllum fannst ástæðulaust að mála skrattann á vegginn, allt gekk svo vel og grunnhyggni sem hönd í hönd með fullkomu ábyrgðarleysi leiddi íslensku stjórnvöldin til skrifa upp á óúfylltar ávísanir fyrir einkaaðila. Fullkomið ábyrgðarleysi fyrri ríkisstjórna er upphafið á vanda Íslands þjóðar í dag. Að íslensk stjórnvöld skyldu ganga í svo stórar ábyrgðir fyrir bankanna vara banabitinn.
Ef við viljum að Ísland og Íslendingar séu teknir alvarlega í alþjóðsamhengi, verðum við að vera gerendur orða okkar, standa við sögð orð og axa ábyrgð á þeim skuldbindingum sem við höfum gengist fyrir. Þetta er sárt! Mjög sárt! En það sem stjórnvöld eru að reyna að gera nú er að borga brúsann, borga reikninginn fyrir fyllerí fyrri ríkisstjórnar, "fjármagnseigenda" og spilavítisskuldir þeirra. Ef ekki verða handrukkarar ESB, IMF og alþjóðasamfélagsins gerðir út af örkinni. Viljum við það og verða lúta afarkostum og gerð "tilboð sem við getum ekki hafnað" svo ég vitni í The Godfather I. kvikmyndina - því í slíkum félagsskap myndum við finna okkur innan skamms.
Slappið af og refsið þeim sem refsinguna eiga skilið. Núverandi ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur er bara að reyna moka skítinn eftir ríkisstjórnir Geirs Haarde, Halldórs Ásgrímssonar og Davíðs Oddsonar.
![]() |
Samið af sér með skammarlegum hætti |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Utanríkismál/alþjóðamál | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)