Færsluflokkur: Dægurmál

Álftir á Lappkerinu - vangaveltur um líf

svanir

Lífið er eins og spírall, spírall sem vefst eins og vera ber um sig sjálfan, gormur sem verður eins og tákn fyrir hið síendurtekna í lífinu og samtímis framvindu lífsins um leið.  Aftur og aftur er maður minntur á það sem liðið er, gott og slæmt.  Líf mitt kemur að vera svona – rétt eins og annara og við því er lítið að gera. Maður getur lært af endurteknum svipmyndum frá hinu liðna og hugsað fram í ókunna myrkrið sem bíður okkar allra að stíga inn í. Myrkrið er ekki endilega neikvætt. Heldur tákn fyrir hið ókunna, óvissu og hið hulda. Um helgina annaðist ég sem fulltrúi dómkirkjusafnaðarins hér í Stokkhólmi hjónavígslu í kirkjunni minni. Þarna var fallegt par á ferð sem á sér bjarta framtíð. Með fyrirbæn, handyfirlagningu og blessun Drottins sendum við þau út í lífið. Mér varð óneitanlega hugsað til þeirra hjónavígslna sem ég hef annast og svo til þess tíma þá er ég stóð í sömu fótsporum. Allt virtist vera svo bjart og framtíðin falleg og heillandi, sem hún var.  En svo skiptast veður og áttir og það sem ekki á að gerast gerist. Það sem ekki var til í myndinni í upphafi skýtur upp kollinum.  Mismunandi áherslur, langanir, líf – tveir ólíkir vegir skilja sundur hinn þegar venjulega veg.  Á sunnudag átti ég frí úr vinnunni. Ég var mest heima og hugsaði um lífið og tilveruna. Ég setti upp forrit í tölvunni minni sem ég þarf til að geta verið í fjarnáminu í Falun í Dölunum og pantaði mikilvægustu skólabókina sem ég svo fékk með pósti í gær.  Vangaveltur mínar fjölluðu þann daginn um „stríð og frið“.  Hér á ég ekki við hið fræga rit Leó greifa Tolstoy, en mínir þankar fjölluðu engu minna um líf, æsku, kærleika, ást, hrörnun, öldrun lífið og dauðann.  Lifandi gekk ég um litla skóginn umhverfis Stóra Skuggan, sunnan Lappkersins. Ungviði álftanna, móbrúnir ungar þeirra, ófleygir svömluðu milli foreldra sinna þarna úti á litla Lappkerinu. Fannhvítir foreldrarnir höfðu auga með að enginn kæmi of nærri ungunum. Þetta spennuspil á litla Lappkerinu er sannarlega sjónarspil.  Ungar andanna sem syntu allt umkring létu lítið á sér bera og voru í skjóli af foreldrum sínum. Svanirnir svo stórir sem þeir eru gátu hæglega bitið í sundur eða slegið ungana niður dauða með þungum vængjaslögum sínum.  Allir vissu sinn stað og sinn sess í samfélagi litla Lappkersins. Barátta lifsins mót dauða og ögrun umhverfisins.  Ég á líka litla unga sem synt hafa nú í 4 ár á sínu óaðgengilega vatni. Þeir vaxa og dafna og þekkja umhverfi sitt. Þeir eru ungar viljasterkra foreldra. Foreldra sem myndu gefa líf sitt væri það þeim til lífs steðjaði ógn að. Álftirnar á Lappkerinu virðast stundum vera farnar að æfa flugtök á vatninu eftir að þær hafa verið í sárum. Farið er að bera á nýjum flugfjöðrum, þær snurfusa sig og plokka í dúninn. Þær eru farnar að hugsa sér til brottfarar. Ungarnir læra sig eitthvað nýtt á hverjum degi.  Pabba- og mömmu-álftin synda sjaldan saman lengur á vatninu. Það verður að koma vetur og vor til að þau leggi hugi saman. Þannig er lífsins gangur. Þau hverfa á braut í haust og skilja ungviðið eftir í lífsins ólgusjó. 

Ungarnir velja oft að synda með einu foreldranna. Hvort þetta er gangur lífsins veit ég ekki, en svona er þetta – eða er þetta val foreldranna að svona sé þetta?  Enn ein spurningin sem ég kann ekki svar við. Því lengra ég geng í skóginum og nálgast „heim“ – veit ég meira hvað ég veit lítið.  Þetta er skrýtið líf.

Mann langar oft að segja svo mikið, segja frá lífinu. Segja frá þeim dimmu stöðum þar sem ég hef getað kveikt ljós og séð nýja heima, skilið myrkrið og varpað leyndardómi þess í ljóssins skyn. Af hverju, spyr ég mig, eigum við svo erfitt með að lifa með lífinu, lifa með lífinu í allri þeirri ljóssins og litanna dýrð sme þar er að finna?   Af hverju steytum við alltaf um smásteina og látum þá fella okkur?   Ég vona að gráum álftarungarnir sjái lífið eins og það er, ekki bara með augum þess sem þeir elta, enda myndu þeir aðeins verða fleygir, en ekki vita hvert þeir ættu að fljúga.  Guð gefi að þeir læri að fljúga og vita hvert þeir eiga að fljúga.  Ungarnir mínir, lærið að fljúga – leitið ljóssins og fegurðar lífsins víða og skapið tilgang með lífinu og lærið af reynslu annara.

Klikkaðir atvinnubílstjórar

Ég tók strætó í morgun niður í bæ. Það er svo sem ekki í frásögur færandi nema hvað ég varð fyrir reynslu sem ég kýs ekki að verða fyrir aftur. Þannig var að ég hafði puðrast upp í strætóinn og bílstjórinn hafði ekki einusinni fyrir því að kíkja á strætókortið mitt. Hann var einfaldlega of upptekinn af því að babbla í farsímann sinn. Ég var ósáttur við að hann væri að snakka þetta í símann en sagði ekkert. Man bara næsta að kaupa ekki strætókort þar sem það virðist ekki vera skoðað af bístjórunum af neinni gaumgæfni.   Nóg um það. Þegar strætóinn þurfti að fara um gótuslóða sem er krókóttur og upp í mót. Gata þessi, Ekhagsvägen er búin gamalmennum og svo ungu fólki sem fer mest ferðasinna með krakkana sína í barnavögnum.  Bílstjórinn ók þessa leið í dag og þegar hann hafði sveigt upp til Ekhagstorget, samtímis gjammandi í símann, rétt missti hann af því að strauja móður með barn í vagni. Þetta vakti óhug farþega.

Þessi sami bístjóri hætti ekki að tala í símann, heldur hélt spjallinu áfram og ók framhjá biðskýli niður við Bergiusvägen. Þar stóð fólk og beið. Ég gekk þá fram og spurði hann hvort hann vildi ekki bara stöðva vagninn svo ég gæti stigið út, því annan eins aula hefði ég ekki ekið með í fleiri ár.  Ég kvaðst myndu hafa samband við strætófyrirtækið og tilkynna um aksturslag, símanotkun og gleymsku hans. Ég sagði að ég hefði borgað fyrir strætókort, en ekki rússibanamiða.

Auðvitað hringdi ég svo til strætófyrirtækisins Busslink og tilkynnti um hvað gerst hefði.  Og svarið var: "Já, leiðinlegt að heyra, en við vonum alltaf að bístjórar séu ekki að tala við fólk í akstri, en það er voðalega lítið sem við getum gert."  Auðvitað var þetta ekki svarið sem ég var eftir svo ég gerði bara sem ég geri alltaf þegar ég nenni ekki að hanga í einhverju lyftutónlistardæmi, svo ég tók burt núllin í lok númerisins og setti - 02 í staðinn fyrir síðustu 2 tölurnar. Þá náði ég sambandi við einhvern stationsansvarig í höfuðstöðvunum.  Ég spjallaði stutt við hann og hann tjáði mér að við þessu yrði brugðist. Hann bað um ökutíma strætisvagnsins og leiðarnúmer.  Ég var ánægður, virtist sem tekið hefði verið á þessu - eða það var a.m.k. tilfinning mín.  :)  Vonandi verður lát á þessu sms og símtalaóværu hjá strætisvagnabístjórum í Stokkhólmi. Að Svíar hafi ekki bannað gsm notkun í akstri er ótrúlegt, sjálf umferðaröryggisþjóðin.   Usss....  

Á morgun byrjar Stockholms kulturfestival. Ég ætla í göngu sem heitir "heliga rum" og er farið frá Synagógunni hér í borg, til St. Eugenía (katólska safnaðains) og til St. Jakobskirkjunnar þar sem ég á svo að fjalla um kirkjuna, starfsemi, list og arkitektúr.  Gaman!   :)   Best að fleygja sér í bælið og vera vakandi í staðinn á morgun.   Hej då!


Barcelona

 Barcelona!  Hola!

DSCF1377

(mynd: Ég í Barcelona, við þurran gosbrunn rétt við Av. Diagonal)   Smile

Það er í senn gott og fróðlegt að vera kominn heim frá þessari langþráðu ferð til Barcelona og síðan lítið tregabundið og umvafið vissum söknuði að þurfa sjá á bakið á þessari heillandi og margslungnu borg.  Ferðalög gefa mér svo mikið. Ég þrái að ferðast. Ég endurnærist og fyllist von og trú á það sem býr handa allra drauma, en síðast en ekki síst líka upplifi ég hversdaginn á annan og meira lifandi og gefandi máta. Hversdagurinn fær líf og verður sérstakur þegar hann er settur til samanburðar við vel heppnaða ferð.  Þannig að Barcelónaferðin var gefandi bæði á heimavelli sem ytra.  Ferðin var eins og fyrr segir langþráð. Jafnvel áður en ég fluttist til Svíþjóðar hafði ég dáðst af hinni sérspænsku Nýlistar, eða Jugendlistar. Antoní Gaudí, hinn frægi arkitekt og höfundur hins spánska modernisma i byggingarlist á stóran heiður af því að ég hef svo lengi dregist að !Barcelona. Hver þekkir ekki hin stóru verk hans, Parc Güell, La sagrada familía, Casa Batlló, Casa Milá og fleiri verka. Hugmyndirnar taka engan endi og leikurinn er síðan bundinn í föst og endingargóð form (og kostnaðarsöm).

DSCF1374 (mynd: Fánar á húsi Banco de Espana: fh. Catalunya, Spánn, Barcelona)

Ferðalag fyrir mig er pílagrímsferð í óeiginlegri merkingu. Þegar landað var á flugvellinum utan Barcelona var eins og maður gengi á vegg. Hitinn var 33°C og rakinn svakalegur. Það var ekki þurr þráður á manni þegar á hótelið var komið og prógrammið yfirfarið. Í stuttu máli var ferðalagið hafið með að kaupa kort í neðanjarðarlestar- og strætókerfið. Það var notað mikið í ferðinni og létt að læra á kerfið sem var afskaplega umsvifamikið, en þó byggt á greinilega mörgum misjöfnum útþennslustigum. Oft þurfti maður að ganga um löng göng, þröng og loftlaus til að skipta frá einni línu til annarar. Ég er 184cm langur. Við flesta uppganga og tröppur varð ég að beygja mig til að reka ekki höfuðið upp undir. Soldið skondið, greinilega er ég með þeim lengri þarna.

 DSCF1313 - Kopia

Annars er best að skoða borgir með því að ganga um götur og torg. Því miður voru allir gosbrunnar borgarinnar án vatns vegna hins þurra sumars og vatnsskortsins þar af leiðandi. Fannst mörgum þetta (mér líka) afskaplega fúlt þar sem margir gosbrunnarnir leika stórt hlutverk í listaverkum og því að skapa hið fjölbreytta umhverfi sem einkennir svo borg og list hennar.  Vegna hitans hefði alveg verið hugsandi að fara í fótabað í einhverjum þessara.

(mynd: Ég í La Sagrada Familía. Lofthæð upp undir hvelfingu er 60 metrar í hliðarskipinu)

Eftirminnilegar eru ferðir á slóðir fyrrnefnds Gaudís.  La Sagrada Familía var ógleymanleg. Hvlílík bygging, bákn og listaverk. Kirkjan sem annars stendur í fátæklegu hverfi borgarinnar hefur lengi reist sig yfir niðurnýdd húsin og þannig skapað framtíð fyrir hverfið í heild. Þegar hefur kirkjan verið takmark ferðamanna í yfir eitthundrað ár. Byrjað var að byggja hana fyrir 1882 en síðan hefur byggingin tekið sinn tíma vegna misjafns pólitísks áhuga, stöðu kirkjunnar, fráfalli Gaudís og svo peningaskorts. Búist er við að hún verði fullbyggð með sínum 170 metra háa miðjuturni  (Hallgrímskirkja 74 metrar) 2026-8.  Aðrar byggingar Gaudís voru margar skoðaðar og söfnin í Barcelona fóri ekki varhluta af athygli okkar ferðamanna.

Mikilfenglegar byggingar geta verið litlar. Ekki bara stórar hallir, leikvangar og dómkirkjur eru stórfenglegar. Stórfengleiki getur verið bundinn tilfinningu fyrir hinu heilaga. Í hinni litlu kirkju Santa Maria del Mar upplifði ég hana í smæð sinni sem einhverja hina stærstu andlegu musterum sem ég hef komið inn í. Stórleiki hennar var nærvera hins heilaga, hins eftirsótta og þess sem var svo nærri. Hins ósýnilega, heilaga og máttuga. Þessi látlausa kirkja stendur í Gotneska hverfinu (gamla bænum) í Barcelona ber allt með sér sem prýða skal helgidóm... Löngum hefur fólk leitast við að lýsa hinu heilaga - ég mun ekki reyna það. Orð mín verða alltaf fátæklegri en reynslan.  

DSCF1344 (mynd: Parc Güell í Barcelona)

Breytileiki og líf borgarinnar í Barca, borginni sem nefnd er eftir föður Hannibals frá Karþagó; Hamilkars Barca, kemur stanslaust á óvart. Opnunartími verslana, matvenjur, trúarlíf, næturlíf, hræðsla eða kunnáttuleysi heimamanna í tungumálum, opinbert og óopinbert viðhorf til ferðamanna - allt er hið sérstakasta að reyna og upplifa. Lyktin sem einkennir borgina, byggingar frá mismunandi tímum og skeiðum sem saman mynda lifandi, skemmtilega og heillandi borg þar sem fólki úir og grúir saman.  Þar sem katalónsku og kastíllísku er jafnt blandað saman ómeðvitað og málverndunarstefna stendur á gömlum grunni, bundin pólitískri ójafnvægissögu þjóðar og þjóðarbrots.  Yndisleg borg sem ég vil gjarnan heimsækja aftur.

Parc Güell: http://sv.wikipedia.org/wiki/Parc_G%C3%BCell 

La Sagrada Famílía: http://en.wikipedia.org/wiki/Sagrada_Fam%C3%ADlia

Barcelona (turistinfo): http://www.bcn.cat/english/ihome.htm


Góðir dagar í Stokkhólmi

Mikill ágætis yndisdagur!  Nú er sól, bara smá bómullarhnoðrar á lofti, meinlausir með öllu og andvari sem skutlar þeim til eftir himinhvelfingunni. Þetta er falleg sýn, skógurinn undir og vatnið neðst myndar eins og rómantískt landslagsmálverk. Ramminn er jú gluggapóstarnir mínir en annars er þessi skjámynd takmarkalaus.   Í gær var þvílíkt þrumuveður sem gekk inn yfir Stokkhólm - eldingu til og með sló niður í næsta hús hérna hliðiná mínu og fann ég hvernig allt titraði eftir sjálfan blossan. Þetta var ævintýri líkast og fjarska spennandi. Ekkert sá á hinu húsinu en ég held að húsvörðurinn hafi þó eitthvað haft að sýsla uppi á þaki eftir að veðrinu slotaði, því hann og einn húsvörður álpuðust upp á þak í rigningunni og fóru að bardúsa eitthvað þar.

Ég kann svo vel við mikil veður. Allt verður svo dramatískt og stórbrotið, og ég á enga sök að máli.  :)   Jamm, það eru margir sem upplifa jákvæðni í stórvirðrum.

Ég er um þessar mundir einn aðal styrktaraðili LdB snyrtivara. Ég sem er ekki mikill kremakall eða skipti mér mikið af slíkum kosmetískum dýrlegheitum varð núna í síðustu viku að kaupa aloha vera-krem. Nágranni minn benti mér á þetta því er er svo svakalega sár allt frá hælum og upp á kálfa af skordýrabiti. Ég veit ekki hvaða skrípildi þetta eru sem eru að bíta mig, en líklega þýkir þeim blóðið gott. Ég sem gangandi veitingstaður blóðsjúgandi sænskra skordýra hef ákveðið að loka veitingastaðnum. Þetta borgar sig ekki. Ég er sárfættur, í hættu að fá blóðeitrun og ekkert um þessa gesti. Svo mér var sagt að kaupa þessa kremtegund í gulri túpu og smyrja fæturna með þessu. Þetta ber með sér viðkunnalega lykt, en lykt sem skorrarnir vilja ekkert hafa með að gera. Svo virðist sem ég hafi, um stundar sakir, losnað við þessi skrípi. Sárin geta farið að gróa og ég orðið glaður aftur.

Eftir að maður er búinn að drekka kaffi eða borða hádegismat útí í bæ, verður stefnan sett á gymmið. Það er ætlunin að svitna og taka á því í um það bil einn tíma og síðan slappa af í gufubaðinu og trítla síðan heim.  Líklega verð ég svo latur og dasaður eftir gymmið að ég tek túnnelbanan (neðanjarðarlestina) frá Odenplan til T-Centralen og svo þaðan með rauðu til Universitetet þaðan sem ég verð vegna verkfalls strætóbílstjóra að labba 2 km km heim í íbúð.

Líklega bíður mín þá Daniel Easterman bókin mín á vísum stað og græna teið sömuleiðis. Annars þarf ég að sökkva mér í hinn ýmsasta fróðleik um Barcelona, því nú er farið að styttast í að stefnan verði sett á þann sögufræga staðinn. Bók Ildefonso Falcones um kirkjuna við hafið... var sannarlega skemmtilegt preludium fyrir þá ferðina. Núna verða það ferðamannabækur og slíkt sem gildir. Reyndar hef ég fengið ferðaráð frá vinum og kunningjum svo þetta ætti að vera tíma vel varið.  :)

Jæja, best að fara gera sig kláran, snyrta lítið eitt til í eldhúsinu og á baðinu. Vil ekki að þetta líti út eins og Beirut eftir 15 ára borgarastyrjöld.   Ajö...

 


Byggja bát, byggja bát...

Föstudagur og farið að hylla undir helgina. Það er spáð rigningu í dag hérna í Stokkhólmi en vænum 22°C.  Veðurfar hefur verið svona og svona núna í sumar. Síðustu dagarna hefur verið ýmist rigning eða kallt í veðri, eða hvort tveggja. Sólarglætan berst fyrir lífi sínu í dag. Það hrannast upp þung ský hér allt um kring og ég er farinn að spá í að byrja höggva niður eikurnar sem standa hérna í kringum Lappkärret nú skal byggð örk. Rigningin hefur orðið til þess að yfirborð litla vatnsins hérna úti hefur hækkað um 35cm. Ég byggi bara örk. "Örkin hans Baldurs" skal sú heita, og hefði Nói hreinlega skammast sín fyrir sína spónsmíð í samanburði við mína. Eða nei annars. Það eru svo fá dýr eftir á jörðinni að líklega ætti árabátur að nægja fyrir tilraunaglösin. Jamm, ég er sko ekki að fara neinstaðar til að moka skít undan einhverjum dýrum, heldur tekur maður bara dna próf og frystitösku og síðan er málið á hreinu. Ein frystitaska með dna frá öllum dýrum jarðar, míníbar, mjúkt og stórt rúm sem standa á á síðasta bjarndýrsfeldinum og gott bókasafn fyllt með reifurum eftir Daniel Easterman, nokkrum gömlum klassikerum, bókasafninu mínu og auðvitað einni biblíu (gamalli þýðingu). Maður verður að geta ryfjað upp hvernig þetta alltsaman fer. Reyndar verð ég að redda mér lifandi dúfum, ef ég á að geta leikið eftir stöntið hans Nóa en annars er ég bara góður.  

Nú fer ég að velta því fyrir mér hvort ég hendi ekki bara út þessum dna glösum öllum og troði ekki helling af moccaísnum hennar mömmu í frystiboxið í staðinn.  Svo get ég bara lifað á öldum hafsins óendanlega í hamingjusamri spillingu með þeim öllum sem eru mér kær.  :)   

Líklega ætti maður að hætta dreyma og bara vona að það fari að stytta upp. Regnboginn hefur sýnt sig núna í fjarska og líklega engin ástæða að fella neinar eikur nákvæmlega núna.  Þær eru svo fallegar og kræklóttar þarna úti í skóginum við litla vatnið.  :)

Jæja, best að fara gera eitthvað gagnlegt. Var að spá í að fara í gymmið núna eftir hádegi, svo er ég að vinna kl. 15:00 fram til kvölds og þá er ég að vonast til að eitthvað se í forheimskuappíratinu (sjóminu).   Hej då....

 


Ólafur Skúlason, biskup

Ólafur Skúlason

Biskup Íslands 1989-1997

Ólafur

Mig langaði bara með nokkrum orðum að minnast vígsluföður míns, herra Ólafs Skúlasonar biskups. Ég sat harla lengi við tölvuskjáinn minn þegar ég hafði meðtekið orðin á skjánum um fráfall herra Ólafs og ég leyfði hugsununum að streyma fram með framvindu hvíta tjaldsins. Síðan slökkti ég á tölvunni.

Í Stokkhólmi er blautt í dag, regnið lemur á rúðunum og það drynur í strætóunum sem aka framhjá. Það er farið að skyggja og það er eins og hljóð veðurs og umferðarinnar hérna fyrir utan kalli fram minningarbrot þess tíma þegar ég hafði svarað kalli herra Ólafs og sótt að fara sem sóknarprestur austur á land (1997). Fyrstu kvöldin þegar ég og kona mín höfðum eignast okkar fyrsta barn og ég var einn heima, nýkominn frá sjúkrahúsinu, með það verkefni að eiga standa í fyrstu jarðarför minni. Rigningarslyddan barði á gluggunum í Lagarfellinu, hljóð frá vélum stórra jeppa íbúanna buldu þegar stigið var á bensínið þegar upp var ekið hjallan framhjá mínu húsi og ég sat kvíðafullur og uppgefinn í stólnum mínum og var að myndast við að skrifa minningarorð og fara yfir atferli þess sem síðar varð fyrsta útfararathöfnin mín. Ég minntist þá orða herra Ólafs biskups, orða sem hann hóf samtal með mér rétt eftir að hann hafði vígt mig: "Séra Baldur! Mundu, að vera prestur er ekki starf; það er líf. Sumum reynist þetta þrautalítið, öðrum ekki. Köllunin helst í hendur við lífið; ef lífið er erfitt berst trúin fyrir lífið, þegar trúin á erfitt, berst lífið fyrir hana. Þetta helst einatt i hendur. Enginn á að gerast prestur bara til að messa á jólum". Bundin í bæn mína um styrk til komandi tíma höfðu þessi orð hans mikla þýðingu og knúðu mig áfram við erfiðar aðstæður.

Herra Ólafur var einatt hlýr við mig. Hann verkaði vera það sem ég skil sem "hirðir hirðanna". Þegar ég var að synda í Laugunum átti hann það til að koma til mín og spyrja hvernig gengi á akrinum. Hann hlustaði sem sá sem hafði reynsluna, sem þeim sem ekki var sama og sem þeim sem lét sér annt um prestana sína. Kirkja herra Ólafs var hin lifandi óstofnunarlega kirkja fólksins. Kannski var hún kirkja á tímamótum.  En herra Ólafur var alltaf hinn hlýi, ræktunarsami og vakandi biskup, hinn tryggi prestur prestanna og til hans var einatt hægt að leita eftir hvatningu eða leiðsögn.

Guð blessi minningu vígsluföðurs míns, herra Ólafs Skúlasonar, fyrrv. biskups Íslands. Votta frú Ebbu og fjölskyldu alla mína samúð.


Rólegt kvöld og kvöldsólin hefur gengið til viðar

Það er kvöld í Stokkhólmi og farið að skyggja svo um munar. Fyrir um klukkustund var lesbjart úti, en núna er næstum almyrkur á himni og jörðu.  Ég er búinn að vera stússast í veraldlegum hlutum í dag. Fannst það vera rétt að vega upp á móti þeim andlega fimmtudegi gærdagsins sem var. Messan í gær gekk vel, þónokkuð magir voru mættir og sálmasöngurinn a capella gekk vel. Organistinn er í sumarfríi og því sér maður bara sjálfur um sönginn. Ekkert að því í sjálfu sér ef maður er búinn að velja sálma og æfa þá lítið eitt.  Par frá Uppsölum hafði samband við mig sama dag og bað mig að skíra barnið þeirra áður en þau færu heim til Íslands í haust. Við þessu var að sjálfsögðu orðið og mun skírnin  verða í ágúst í Þrenningarkirkjunni hliðiná dómkirkjunni.  Þetta verður svo fínt. Alltaf gaman að geta orðið fólki að liði. Í dag hef ég gert drög að nýrri erfðaskrá, búinn að skipta um á blómunum mínum, búinn að þrífa og stinga út úr kotinu og gera smekklega hreint og fínt fyrir komandi viku sem er frívika. Jamm, ég á sumarfrí í eina viku. Reyndar hef ég messu í næstu viku en hana hef ég þegar undirbúið að mestu. Búinn að skrifa hugleiðinguna, gerði það reyndar í dag úti á svölum, í dýrðarinnar fulgasöng og yndislegum 27°C heitum blænum.

Í kvöld voru nokkrir gestir hérna hjá okkur í Lappis. Þetta var lítill hópur af vinum sem komnir voru til að borða "älgfärslimpa" með kartöflum, sósu og lingonsultu. Þetta var hrikalega gott á bragðið og allir hæstánægðir.  Slatti af rauðvíni og hvítvíni var skolað niður. Reglulega góð stemning. Auðvitað var skálað í Brennivín að íslenskum hætti, enda alltaf beðið um það þegar gestir koma. Fanna systir hafði borið til bróður síns góðan dreytilinn og var hann vel þeginn. BRennivín í kók er með því besta sem er til. Gestirnir voru hæstánægðir.

Nú fer að styttast að Hrönn, Georg, Ásdís og Eiríkur flytji til Íslands. Við komum að sakna þeirra. Gott fólk!  :(

Jæja, best að fara koma sér í bælið. Vonandi er óhætt að sofa með opinn glugga og að engar engisprettur kássist inn á mann í nótt.   Bestu kveðjur til Íslands


En artikel från Svenska Dagbladet, 20:e juni 2008

Talande om att ha otur med sitt ordval:

15-åring åtalas för mord på vårdare

Malmö: Den 15-årige pojke som i maj knivskar en vårdare till döds på behandlingshemmet i Tunagården i Malmö på torsdagen mistänks för mord. Av den rättspsykiatriska undersökning som pojken genomgått framgår att han är allvarligt psykiskt störd och i behov av vård. TT.

Jag säger nu bara: Jasså!


Enn um hláturdúfur á ferð og flugi

En mér er ekki hlátur í huga. Vil taka það fram þegar í byrjun að mér er ALLS EKKI HLÁTUR í huga. Ég hef staðið í því með systur minni og að hluta til bróður að flytja inn fjórar litlar hláturdúfur til Íslands. Ég hef verið í Svíþjóð og get mitt hér að þetta gangi eftir, Fanna systir hefur fengið hins vegar að bera hita og þunga verkefnisins á sínum öxlum bæði frá Íslandi og svo gegnum vettvangsvinnu hér í Svíþjóð.  Það sem hefur verið hvað erfiðast í þessu innfluttningsferli hafa verið dýra-, tolla- og ráðuneytisyfirvöld. Núna er hlegið að íslenskum reglum í Svíþjóð, þar sem erfiðara reynist að koma 4 dúfum inn í landið en öllum ráðuneytisdýrunum og smyglgæludýrunum sem streyma inn í landið.  Hvaðan koma allar slöngurnar, kóngulærnar, eðlurnar og nýjir "áður óþekktir" kettir og hundar inn í landið?   Ólöglega býst ég passlega við.  Þetta vekur að sjálfssögðu ugg hjá föðurlandsvini sem mér að vita til þess að fólk jamt og þétt eykur möguleika á útbreiðslu sjúkdóma og pesta sem svo léttilega geta eytt þeim dýrastofnum sem fundist hafa stórtséð óblandaðir við aðra stofna frá landnámstímanum. 

Það sem vekur furðu mína eftir að hafa verið blandað inn í þessa óharmóníska prósess sem innflutningur dýra er, er að svo virðist sem öll viðbrögð yfirvalda á Íslandi hafi mest verið vegna formsatriða. Er Ísland að verða að einhverju formsatriða bjúrókratísku bákni?   Kostnaðurinn er heldur ekki svo lítill við þetta. Kannski bara þessir örfáu Íslendingar sem voga sér út fyrir Bónus-radíusinn sem leyfa sér að demba sér í dúfnainnfluttning.   EKki vei ég, en hitt veit ég að þetta hefur kostað skyldinginn. Þarna birtist stéttaskiptingin eða kannski að þetta sé aðferðin sem notuð er til að þrengja möguleika og draga kraft og energi úr fólki sem hyggur á dýrainnfluttning.  Af hverju ekki banna innflutning með vissu árabili, þannig að þetta sé ekki gert, í stað þess að leika einhvern leik með opinbera pappíra, næstum enga möguleika að fá svör eða ná í fulltrúa ríkisins og svo innflutnings og tollagjöld.

Segi það bara núna og stend við það: Þetta virkaði á mig. Ég mun aldrei standa í innflutningi á dýrum aftur.   Þetta er bara klikkun...


Af staðfestri samvist og erfiðustu deilumálum "þjóð"kirkjunnar

Sit hérna heima og er lesa yfir fréttir gærdagsins. Þetta er harla fróðleg lesning og gaman að hafa í huga forsögu fréttanna. Flestar fréttir eiga sér langa forsögu, forsögu sem flestir hafa næsta litla hugmynd um eður þá nokkuð brotakennda. Nú sitja prestar hinnar svokölluðu íslensku þjóðkirkju við litlu tjörnina sína og henda sættandi brauðmolum til beygðs almennings. Til þeirra mörgu sem hafa fengið að stríða og berjast fyrir, ekki mannréttindum, enda slíkt kannski of djúpt í árinni tekið, heldur frekar hefur fólkið verið að berjast fyrir að kirkjan kæmi með hrein og klár svör við guðfræðilegum spurningum fólksins.

Hér hefur kirkjunni verið att óbiljugri og alldeilis óbúinni út í atburðarás sem Alþingi hefur fyrirbúið. Eftir höfðinu dansa limirnir og því verður kirkjan sem "þjóðkirkja" og ég segi það bara; sem ríkiskirkja, að gera eins og ríkið segir. Annars tapar hún fljótlega því síðasta sem hún hefur annars í veikri samningastöðu sinni gegn ríkinu. Kirkjan hefur glatar óheyrilegu magni jarðnæðis sem henni hefur áskotnast í gegnum aldirnar til ríkis og einkaaðila. Þetta hefur verið vegna trúgirni kirkju á að stjórnvöld á öllum tímum væru henni handgengin og bljúg. Nú er því öðruvísi farið. Kirkjan á svo gott sem enga vini lengur. Kirkju er nú stillt upp mót veggnum og sagt: Þú ferð að lögum, annars dæmist þú einfaldlega úr leik.

Það sem er sárgrætilegast er að kirkjan virðist ekki vera guðfræðilega tilbúin í svona umræðu. Margir hafa bent blindandi á Gamla testamentisritningarvers eða orð postulans Páls, en gleymt vissum þáttum í guðfræðitúlkuninni og þannig verið óviðbúin að leggja sig út í guðfræðiumræðuna.

Það að kirkjan líti svo á að hún hafi staðið í "deilum" og í þokkabót erfiðum deilum er held ég sýn kirkjunnar sjálfrar. Allir aðrir hafa bara staðir allt umhverfis og undrast yfir getuleysi hennar til afleiðandi skoðanaskipta og guðfræðilegrar ákvarðanatöku. 

Ég hef lausn á vandamálum kirkjunnar á Íslandi: Efnið til Kirkjuþings. Ekki kirkjuþings þar sem meirihluti viðstaddra eru leikmenn. Hér á ég við að allir vígðir prestar sem starfa eða hafa starfað, á eftirlaunum eða í starfi, í framhaldsnámi eða fríi verði kallaðir saman. Allar hempur landsins safnist saman á krikjuþing og þegar allir eru komnir á staðinn sé dyrum lokað "extra omnes".  Þarna verði svo án afskipta fjölmiðla öllum vígðum guðfræðingum landsins fengið það verkefni að taka á guðfræðivandamálum samtímans á Íslandi; líknarmorðum, stafestri samvist samkynhneigðra, fóstureyðingum, einangrumarvist fanga, mannréttindum, endurreisn synodalréttarins, samskiptum við aðrar kirkjur, samhæfing guðfræðitúlkana í íslensku kirkjunni og svo framvegis.

Vonandi verða ekki prestar neyddir til að gefa saman eða blessa samkynhneigð pör. Enda myndi þá ekki hræsnin ríða við einteyming. 

Gangi ykkur þó vel og hafið Guð með ykkur í verki!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband