Færsluflokkur: Fjármál

Löglegt og siðlaust

Ekkert mun koma fólki á óvart, ekki mun steinn yfir steini standa og allt mun líða undir lok sem var!  Þessi orð hljóma svolítið heimsendislega og kannski of sterk í samhenginu, en mér finnast þau vera viðeigandi. Á engu sem var er byggjandi. Gömlu sterku bankarnir, sem fólk hafði trú á, voru gerðir að nýjum hlutafélögum. Sameiningar voru gerðar, lógói eða merkjum bankanna var breytt, allt átti að vera nýtt, módernt og í "framrásarstíl". Allir áttu að fá á tilfinninguna að þeir/þær væru að taka þátt í stórfjármálamarkaðsbraski. Við áttum að finna svitalyktina frá helstu og stærstu fjármálamörkuðum heims. Við áttum að vera með.  Sú þjónusta sem áður hafði verið aðalþjónustuberandi starfsemi bankanna, gjaldkeraþjónustan - var orðin fyrir í hinu nýja samhengi.  Gjaldkerastúkum var fækkað, fólki beint að nota internetið þar sem næstum illmögulegt var að framkvæma vissar færslur án þess að rekast í verðbréfamarkaðsábendingar, tilboð og þjónustu tengda téðum verðbréfamörkuðum. 

Ástandið varð snemma slæmt í öðrum löndum. Til dæmis er það svo í dag hér í Svíþjóð, að ekki er hægt að taka poka með mynt í bankann sinn og biðja um að talið sé í talningarvél. Slíkar vélar eru ekki lengur til. Maður fær pappírsrör sem maður verður að fylla heima, og síðan að taka með sér í bankann, þar sem fólki er bent á að það verði að "leggja inn peningana á einhvern ráðstöfunarreikning" til að peningarnir komist inn í kerfið. Seðla getur maður ekki lengur tekið út nema að upphæð 100 000 kr pr dag.  Bankarnir hafa ekki svo mikla peninga lengur. Aðeins einn gjaldkeri starfar að jafnaði, en þessi hverfur ekki í kaffipásu.

Nú kvartar fólk á Íslandi yfir því að bankarnir, sér í lagi Kaupþing geti ekki gefið lántakendum haldbærar upplýsingar um lánafyrirgreiðslu eða hvernig fólkið almennt eigi að geta borðið enn aukna greiðslubyrði. Þjónustufulltrúar vísa málum til "nefnda" og öll vitum við hvað það merkir.

Í Landsbanka hafa þeir sem önnuðust eignastýringu fyrir lífeyrissjóði gert sig seka um að nota fé skjólstæðinga sinna til að hygla að eigin stofnun, Landsbankanum og að hafa gefið Fjármálaeftirlitinu (FME) rangar upplýsingar um það. Í sjálfu sér skiptir þetta með FME minna máli, þar sem það er vita getulaus stofnun, svo sem dæmin hafa sýnt okkur.  En hitt er siðleysið sem nú bitnar stórlega á eftirlaunasjóðum landsmanna. Stórar fjárhæðir hafa glatast í hyldýpi spilaskulda framrásarmanna.  Þetta var bæði ólöglegt og siðlaust.

 


mbl.is Of miklar fjárfestingar í tengdum bréfum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hversu oft þarf að segja þetta: við berum enga ábyrgð!

Orð skulu standa. Íslendingar hafa löngum verið þekktir fyrir orðheldni sína. Þegar við setjum stafi okkar við samkomulag og staðfestum það þannig, má út frá því ganga að við séum menn orða okkar. Þannig hefur það verið og þannig á það að vera. 

Nú hefur komið fram að ekkert samkomulag er til fyrir ICESAVE og engin skrifleg staðfesting á því að Ísland hafi gengist formlega undir ábyrgðir af einu eða neinu tagi. Íslendingar eru því óbundnir skv. alþjóðalögum að greiða eyri af téðum "skuldum". 

Ég skil að það geti verið erfitt fyrir ríkisstjórnir Evrópulanda að viðurkenna þetta enda slíkt sárt. Þetta kemur við pyngju þeirra Gordons Brown og kollega hans í ESB.  En af hverju eigum við að greiða spilaskuldir breskra auðkýfinga, belgískra, hollenskra, lúxembúgískra og þýskra fjárglæframanna?  Það er mér með öllu óskynsamlegt.

ESB sem oftar en einusinni hefur reynt að setja stein í veg Íslendinga og til og með sparkað í okkur liggjandi - hversvegna eigum við að hjálpa til þar þegar eigið fólk sveltur og er að missa allt sitt vegna ofurvaxta IMF (alþjóðagjaldeyrissjóðsins)?    Mér er spurn?


mbl.is Óvíst um ábyrgð á Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Þjóðaratkvæðagreiðsla: Auðvitað

Þar sem um verulegt valdaafsal, eða réttara sagt afhending sjálfræðis í ríkisfjármálum, er rétt að þjóðin fái að skera úr um hvort hún samþykki þennan samning ríkisvaldsins við Breta og aðrar þjóðir heims sem ásælast hafa íslenska eftirlaunasjóði, krafist hækkunar á lánabyrði fjölskyldufólks....    já sennilega væri endalaust hægt að telja upp.  Um er að ræða svo stórt mál, að mér þykir rétt að þjóðinni verði veittur rétturinn að segja af eða á um þetta valda og sjálfstæðisafsal stjórnvalda í hendur Breta, fleiri landa og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (IMF). 
mbl.is Þjóðaratkvæðagreiðslu um Icesave
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Eva Joly hrakin úr landi?

Hverjir bera mest úr býtum ef Eva Joly er hrakin úr landi? Maður veltir því fyrir sér hvort stjórnvöld séu virkilega að vinna úr vanda þjóðarinnar? Hvort stjórnvöld vilji losna við spillinguna? Hvort spillingin nái ekki svo víða um kerfið með rætur sínar að ENGINN þori að velta við steinum lengur? Það er umhugsunarvert að henni hafi ekki verið sköpuð vinnuaðstaða né heldur hafi verið farið að tillögum hennar. Eru stjórnmálamenn svo forhertir að þeir leyfi ekki þjóðinni að þvo hendur sínar og draga rétta aðila til ábyrgðar. 

Þjóðarbúið er svo skuldsatt og möguleikar þjóðarinnar svo litlir til að geta rétt úr kútnum næstu áratugina að réttlætanlegt er að fara í enn harðari innheimtu og saksóknaraarf gegn þeim sem sannast sekir og ábyrgir fyrir efnahagsástandi þjóðarinnar.

Stórfelldar eignaupptökur hjá fyrrum útrásarmönnum og konum er ein leið sem ég vil að farin sé.  Hraðferð í dómskerfi og síðan verði eignir þessara aðila og tengdra fyrirtækja hreinlega gerðar upptækar. Stórsparnaður í ríkiskerfinu sem á næstu 5 árum verði svo algerlega sparað í ríkisgeiranum að t.d. engar opinberar heimsóknir verði gerðar til útlanda eða tekið á móti gestum hingað, engir Íslendingar verði styrktir til utanlandsferða á íþróttamót, tónlistarferðir, ekki verði keypt listaverk eða greitt úr starfslaunasjóði til listamanna, einungis einfaldasta dagskrá verði leyfð í ríkisstyrktum leikhúsum, kvikmyndasjóður verði settur á ís í 5 ár sem og nýstofnun framhaldsskóla. Hagrætt verði í æðri menntastofnunum svo að einungis 2 háskólar verði í landinu. Ríkið leggi niður allar banka og fjármálastofnanir í landinu þannig að einungis ein verði eftir sem taki á sig alla slíka þjónustu í landinu. Gengið verði til samninga við hin norðurlöndin um sameiginlega sendiráðsþjónustu erlendis. Kvótakerfið verið aflagt og fiskveiðar þjóðnýttar í þágu þjóðarinnar, ekki einstaklinga eða fyrirtækja.  Þingmönnum verið fækkað í 40. Sýsluumdæmum verið fækkað í 8.  OG SKULDIR VERÐI GREIDDAR NIÐUR!

 


mbl.is Eva Joly íhugar að hætta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hlaupastrákur framrásarmanna viðurkennir

Það er skrýtið að sjá þessa frétt, þar sem Vilhjálmur Egilsson biður þjóðina að hjálpa til að greiða spilaskuldir hans flokksbræðra.  Ljótt en satt!   Staða ríkisfjármála er hugtak. Ekkert meir. Ríkisfjármál krefjast þess að peningar séu til til að hægt sé að tala um "ríkisfjármál" - en peningarnir eru ekki til. Þeim var spilað út af m.a. flokkbræðrum Vilhjálms. 

Nú skjótast greyin fram með skottið milli fótanna og biðja um hjálp vegna þess að þeir eru ráðalausir, peningalausir og ærulausir! 

Skömm að!


mbl.is „Allir þurfa að standa saman“
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Söfnuðir kirkjunnar og skuldasöfnun þeirra

Hvar er kirkjustjórnin?  Hver er ábyrgur fyrir að svona skuldasöfnun eigi sér ekki stað?   Er það kirkjustjórnin?  Eru það sóknarnefndir einstakra sókna?  Er það ríkisvaldið?  

Farið hefur verið út í nýbyggingar monúmentala kirkjubygginga sem hafa gersamlega kaffært söfnuði og sett þá í fjárhagslega fjötra. Þetta hefur bitnað á öðrum söfnuðum Þjóðkirkjunnar, sérstaklega þeim sem staðið hafa sig í fjármálapólitík sinni og gætt sín í fjárútlátum vegna framkvæmda, viðhalds og nýbygginga. Þessir söfnuðir greiða í svokallaðan jöfnunarsjóð kirkna og úr þessum sjóði er ausið til nýbygginga þeirra sem farið hafa fram úr allri skynsemi hvað varðar nýbyggingar. Grafarvogskirkja er gott dæmi um svona. Lengi vel mátti ekki skipta þessu gríðarlega fjölmennu sókn í fleiri þjónustuumdæmi (sóknir) vegna þess að sóknargjöld alls fjöldans varð að ná í til að mögulega mætti láta enda ná saman.  Grafarvogssókn er ekki neitt einsdæmi. Fjármál kirkjunnar ættu sannarlega að vera skoðuð af gagnrýnum aðilum. Fjárausturinn er gengdarlegur í steinsteypu, skuldir og vexti af skuldunum.  Allt frá yfirstjórn kirkjunnar og út til dreifðustu sókna sem standa í stórbyggingum, er ljóst að margt má betur fara. 

Kirkjan myndi aldrei fara svo með fjármuni ef hún væri sjálfstæð, en ekki undir verndarvæng ríkisins. Beiðnir safnaða um styrki til lausnar skuldasöfnunar kirkjunnar (vegna nýbygginga) ætti að skoðast með sparnað í huga og endurumhugsun á framtíð kirkjunnar, þ.e.a.s. forgangsröðun.


mbl.is Gagnrýna styrki vegna skulda kirkna
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Ekkert kemur á óvart

Ég held að mig minni rétt þegar ég segi að þingflokkar stjórnmálaflokkanna hafi fengið hækkun á fastaframlagi sínu af fjárlögum á síðasta ári. Leiðréttið mig ef ég fer rangt með.

Hvernig í ósköpunum leyfa flokkarnir sér að skulda svona háar fjárhæðir, sem raun ber vitni um?  Þetta ekki bara tekur burt það sem eftir var af trausti almennings til þeirra, heldur veikir þetta stöðu flokkanna og sjálfstæði þeirra. Þegar þeir sem flokkarnir skulda koma fram og krefjast fyrirgreiðslu eða einhvers sem kann að vera í valdi einhverra stjórnmálaflokka að veita þeim - hvernig getum við verið viss að þjóðarhagsmunir gangi fyrir en ekki að skuldastaða flokkanna ráði gjörðum?

_____________

Svo vil ég skjóta létt á Morgunblaðið. Rétt er að lesa yfir allar fréttir sem settar eru á netið, rétt eins og svo faglega er gert með sjálft Morgunblaðið sem birtist á prenti.  Téð frétt var alsett málvillum.


mbl.is Skulduðu hálfan milljarð í lok 2007
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Leitið, og þér munuð finna!

Einhvern veginn leggst sá grunur að mér að Sigurður Einarsson muni aldrei greiða skuldir sínar til VÍS. Sú var tíðin að heiðarleiki var metinn öðru fremur í viðskiptum. Nú er annað uppi á teningnum.  Sveitasetrið við Veiðilæk er kannski gott dæmi um hversu veruleikafirrtir þeir aðilar eru, sem stýrðu fjármála"heimi" Íslands (og grófu undan fjármálaveldum annarra landa) á útrásarárunum. Líklega trúði Sigurður Einarsson að hann gæti lifað í hamingjusamri spillingu lífið út, án þess að þurfa greiða krónu fyrir. Líklega hugsaði hann sér að vel mætti yfirláta okkur þúsund hlutabréf fyrir byggingarframkvæmdirnar við Veiðilæk, þótt peningar kæmu þar aldrei nærri. Enda hlutabréfin ekki verðmeiri en pappírinn sem þau voru prentuð á. 

Ég bíð spenntur eftir að skattrannsóknarkvestorar og tilkallað fólk annað með sérþekkingu í leit ástæðna efnahagshrunsins og þeirra sem ábyrgir eru - finni það sem þeir eru að leita að [til frekari glöggvunar: Matt. 7:7a].


mbl.is 200 milljóna veð í sveitasetri
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fólki er ekki sjálfrátt!

Af niðurstöðu nefndar Sjálfstæðisflokks (= Sjálftökuflokksins) um peningamál má sjá að fólki er ekki sjálfrátt lengur. Nefndin um peningamál - sem hlýtur að vera ein sú stærsta og mikilvægasta innan Sjálfstæðisflokksins - enda sjálftakan úr ríkiskassanum búin að vera algjör undir síðustu nær 20 árin, er svo veruleikafirrt og svo langt komin frá öllum veruleika að best væri að benda þeim á að flytja inn á EURO-svæðið.  Helst að flytja til þeirra landa sem verst hafa það á efnahagssvæðinu, ÞRÁTT fyrir EURO.  Fullkomið hrun blasir við í þeim löndum gömlu austur-Evrópu, sem tengt hafa sína gjaldmiðla við EURO.  Að hafa fulla tengingu við EURO hjálpar ekki þessum löndum. Þvert á móti er tengingin að sliga efnahagslífið í þessum löndum, ásamt þeirri einföldu ástæðu að nú á tímum erfiðleika í efnahagslífi, starfar einstök lönd ESB af fullum krafti að bjarga því sem bjargað verður heima fyrir, meðan önnur minna stöndug lönd eru látin sogast niður með baðvatninu...   Samheldni bandalagsins er engin, stöðugleiki EURO er engin og EURO, þótt ein stærsta gjaldmiðilseining heims, er ein þeirra veikustu.  Af hverju?  Því of margir óvissuþættir stýra henni.

Þessa mynteiningu vill Sjálftökuflokkurinn innleiða á litla Íslandi. Sjálfstæðisflokkurinn hefur ekkert um svona hluti að segja. Hann nýtur ekki trúnaðar þjóðarinnar lengur. Hann leyfði útrásarmönnum að setja Ísland á hvínandi kúpuna og fyrir það er ég EKKI þakklátur.


mbl.is Evran komi í stað krónunnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Inquistior Joly

... quoniam punitio non refertur primo et per se in correctionem et bonum eius qui punitur, sed in bonum publicum ut alij terreantur, et a malis committendis avocentur.

(Lauslega snúið á íslensku:"... ekki bara til góða hinum [seka] og til að refsa honum heldur til góða hinum almenna borgara, að hann óttist og haldi sig frá vondum verkum.")

Svo hljóða orðin úr handbók rannsóknara Hins heilaga rómversk katólska rannsóknarréttar frá 16. öldinni. Orðin eiga við um Ísland í dag.  Þetta er hryllilega sorglegt, en vissulega satt. Veiðarnar eru hafnar. Engu skal þyrmt til að fletta ofan af skjólshúsum og skúmaskotum fjárglæframanna. Engu! 

Hreinsunin á að vera algjör, engum skal þyrmt. Spillingin verður að hreinsast burt og svo grimmilega skal gegnið fram að þetta verði öðrum til viðvörunar. Fréttir af rannsóknarnefndum og skilanefndum sem búa erlendis á 5 * hótelum vekur einungis viðbjóð!  Hingað og ekki lengra. Þetta má ekki ganga svona lengur.

Nú er bara fyrir Evu Joly að setja upp gúmmíhandskana því skíturinn er mikill og spillingin algjör.  Burt með hina íslensku nómenklátúru!

 


mbl.is Eva Joly hreinsar út á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband