Af hverju er þeim svona áfram um að selja Ísland?

Já spurningin hangir alltaf yfir allri ESB umræðunni og vekur í raun óhug hjá mér! Hvað er það sem Evrópubandalagssinnar sjá sem ég ekki sé?   Kannski eru það öll tækifærin.  Kannski eru það glampandi EURO smápeningarnir. Kannski eru það landamæralaus og tollalaus viðskipti við ESB löndin.  Íslendingar munu bara sjá cent og EURO mynt, því enginn Íslendingur mun hafa efni á að eiga EURO seðla. Tækifærin, jú fyrstu árin verða eflaust dýrðleg. Stjórnmálamenn verða boðnir í fjölda veislna og kampavínið mun fljóta - en bara fyrsta árið.  Eftir það fer róðurinn að þyngjast og íslenskir stjórnmálamenn munu sjá að þeir hafa lítið eða ekkert að segja um þróun mála í Evrópubandalaginu. Já, sennilega kemur að því einn daginn að stóru fjölmennu þjóðirnar krefjast lagabreytinga þess efnis að fjöldi íbúa í landi eigi að ráða atkvæðavægi einstakra landa. Þessi umræða fæddist fyrir nokkrum árum.  Henni vex fiskur um hrygg.  Hvar standa þá Íslendingar með sín sérmál, kröfur um að fá að stjórna fiskveiðimálum og landhelgi sinni?  Það er hlálegt að ætla að óreyndir íslenskir stjórnmálamenn ætli að eiga eitthvað í þá hákarla sem hafa verið aldir upp frá barnæsku til að gegna embættum í sínum löndum og stjórna nú í ESB.  Mér óar barnaskapurinn. 

Hið sorglega í öllu er afneitunin. Loforð um sjálfstæða stefnu Íslands i einstökum málaflokkum er eitthvað sem breytt yrði með reglugerð yfir nótt í Bruxelles. Þannig er það. Stærri þjóðir eins og Svíar t.d.  (næstum 9,5 milljónir) eru farnir að finna fyrir því hversu róðurinn mót bákninu er farinn að þyngjast.

Umræðan einkennist af fádæma hugmyndaleysi um aðrar mögulegar lausnir. Hvaða leikfélaga við eigum að velja okkur og hvort við viljum að leikfélagar okkar séu jafningjar okkar eða ei?

Síðan er líka vert að gleyma ekki að verði ekki dvölin okkur svo sælurík sem margir vilja spá, og við viljum úr bandalaginu; þá er það ekki hægt!  Dyrunum er lokað á eftir okkur og þær soðnar í falsinn.


mbl.is Ný ríkisstjórn um ESB
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Óafturkræf óheillaþróun

Þessi skýrsla Norrænu ráðherranefndarinnar er gula spjaldið fyrir okkur hér í löndunum í norðri. Í köldu veðurfari norðurlandanna tekur það náttúruna mun lengri tíma að ná sér en í heitari löndum þar sem gróðurinn er fljótari að fylla í eyður sem skapast þegar við mennirnir tökum að breyta, eyða og "bæta". En minnkandi fljölbreytni í gróður- og dýraríki (flora og fauna) er hryggileg staðreynd sem við íbúar norðursins verðum að axla okkar ábyrgð á.

Finnur Jónsson

Beinin hennar Stjörnu [1934] eftir Finn Jónsson, olía á striga [90cm x 106cm]

Eyðilendur og lífríkisauður á undanhaldi er dæmi um hnignun. Stórar lendur hafa verið skaðaðar með lagningu háspennulína, vega, slóða, skála, virkjanna og uppistöðulóna.  Auðlendur Íslands liggja ekki bara í fisveiðum og virkjunar vatnsfalla og háhitasvæða, heldur í öræfum landsins, hinu ósnortna landi, þar sem fjölbreytni lággróðurs, skordýra, hins sanna villta landslags þar sem háspennulínur tjalda ekki sjóndeildarhringinn og landrof verður vegna yfirborðssveiflna uppistöðulóna. 

Við höfum fengið gula spjaldið. Þegar rauða spjaldið kemur er allt um seint!


mbl.is Líffræðilegur fjölbreytileiki minnkar á Norðurlöndum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Umhverfisvænir bílar. Hvað er nú það?

Þegar ég var að leggja inn athugasemd við áhugavert og að venju málefnalegt blogg Hjörleifs Guttormssonar, skaut upp kollinum samstæðu orðin "umhverfisvænir bílar".  "Jahá" hugsaði ég "eru til 'umhverfisvænir bílar'?"  

Nei, ég held nú aldeilis ekki. Þetta er þversögn í sjálfu sér og nokkuð sem við ættum að reyna umorða eða taka bara alveg út í tali okkar.  Bílar geta ekki verið umhverfisvænir. Þeir eru vegna sjálfra sín, gerðar sinnar og notkunar óumhverfisvænir.


Swedbank í erfiðleikum tekur á mót neyðaraðstoð Sænska seðlabankans

Helst í fréttum nú í Svíaríki er hrun eins stærsta banka Norðurlandanna; Swedbank (gamla Föreningssparbanken).  Ríkið hefur ekkert val. Annað hvort er að láta bankann fara á hausinn með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir milljónir manna eða koma bankanum til aðstoðar með fleiri milljarða sænskra króna hlutabréfakaupum. Um er að ræða 3,3% hlutabréfa í dag og svo síðar mun bætt við auknum eignarhluta. 

Fólk flýr bankann. Sparifjáreigendur standa í röð utan útibúa bankans og vilja tæma reikninga sína og flytja í aðra stöðugri banka.  Rætt er að að baki þessa hruns sé undirróðursstarfsemi kauphallarstarfsmanna sem vildu á sínum tíma hvetja fólk til hreyfinga á hlutabréfum.  Því hefði skipinu verið vaggað, en full mikill sjór hafi komið innbyrðis og því væri nú svo ástatt sem raun ber vitni um.

http://www.dn.se/ekonomi/staten-gar-in-som-agare-i-swedbank-1.816162

http://www.dn.se/ekonomi/swedbank-rusade-pa-svajig-bors-1.816755


mbl.is Svör við efnahagsvandanum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Það er blessuð blíðan, eða?

Óveður á Kjalarnesi, ófært á Fróðárheiði og Öxi lokuð. Hér í Stokkhólmi hefur snjórinn aldrei náð meir en 15cm þykkt og hér verður sjaldan verulegt rok.  Kuldinn hefur farið niður í -16°C, en þá hafa verið stillur og besta veður. Aðal vandamálið er að jafnvel þótt daginn sé farið að lengja er búið að vera þungskýjað hér yfir Svealandi mjög lengi.  Stokkhólmur hefur ekki séð sól í næstum því 9 daga.

Ekki sólarglennu!  Kannski að sólin hafi farið í "sólsemester". Það er nú farið að nálgast þann daginn að ég leggi mig í ljósabekk og safni svolítið lit á mig. Fólk er farið að labba á mig, líklega er ég gegnsær orðinn af ljósleysi, svona eins og kúpifiskur. Sá að kona í strætó var að reyna að lesa auglýsingu í gegnum mig í gær!  Skúmt!!!

 vegagerdin

Nú var ég að heyra í veðurfréttunum að það gæti farið að snjóa úr þessum grámuggulegu og þungu skýjum sem hanga hér yfir þessari fallegu borg. Vonandi fer svo vorið að koma. Finnst eins og maður sé að sofna þótt maður sé nývaknaður. Ég þarf bara á sól að halda, D-vítamín í kroppinn.


mbl.is Víða þæfingsfærð á heiðum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fóstureyðingar

Það er skrýtið hvað við einatt reynum að gera okkar skoðanir að annara.  Lífsýn og veraldarsýn okkar er að því leyti þröngt afmörkuð að við leyfum ekki skoðunum annarra og þeirra sýn á hluti að fá maklega umfjöllun, heldur rífum niður og skömmumst.

Í téðu tilfelli ungu stúlkunnar í Brazilíu, sem níu ára gömul varð fyrir því að vera nauðgað, verða barnshafandi eftir það og síðan að hafna upp á kant við rómversk katólsku kirkjuna. Nú hafa læknarnir sem framkvæmdu fóstureyðingu að ósk fjölskyldu stúlkunnar (og hennar sjálfrar sjálfsagt) fengið yfir sig heiftúðuga kirkjuna.

Af hverju, getur maður spurt sig, gat ekki katólska kirkjan bara gert eins og þjóðkirkjan; staðið hjá aðgerðalaus og hlúð að sárum?  Sannarlega hefði það vera farsælast fyrir alla, en einföld eru bara ekki málin. Lífsvirðing rómversk katólsku kirkjunnar er "yfirgripsmeiri" en okkar. Til að forðast misskilning, virðum við ekki lífið minna en katólsk systkin okkar. Fréttin fjallar um lífssýn, og hvernig trú og lífssýn saman með beitingu trúarlegs valds getur lent í árekstri með því sem við í okkar afhelgaða heimi teljum rétt og algilt.

Þeir sem fylgja rómversk katólsku kirkjunni og trúarsetningum hennar, gangast undir vissan kirkjuaga og taka inn vissa sýn á lífsgildi. Vernd lífs er ein þeirra ásteytingarsteina sem við "lúteranar" og trúlausir kjósum ekki að velta svo mikið fyrir okkur.  Fóstureyðingar á Íslandi samkvæmt tölum frá Landlæknisembættinu eru skuggalega margar. Margar konur hafa farið í margar fóstureyðingar á lífsleiðinni. Hefur möguleikinn til fóstureyðingar verið misnotaður og hefur dregið úr ábyrgu kynlífi?  Er fóstureyðing notuð af mörgum sem síðbúin getnaðarvörn? Af því að dæma hve margar konur fara og láta eyða fóstri í þriðja, fjórða og fimmta sinn má styðja þá hugsun með einhverjum rökum.

Við tölum hálf niðrandi um faststefnu rómversk katólsku kirkjunnar í fóstureyðingarmálum. Að fara bil beggja væri kannski ekki svo óvitlaust. Auka virðingu fyrir lífi, því lífi sem er lifað (móðirin) og því lífi sem getur mögulega fengist lifað (barnið).  Þetta eru erfiðar ákvarðanir í mörgum tilfellum og íblöndun trúarhreyfinga og hópa ekki til að gera málið minna flókið.  En lífsgildin, siðfræðin, leikreglur lífs og lífsvirðingar eru margar afsprengi trúarinnar.  Kristin trú er lífstrú. Því ber að fara varlega og með mikill íhugun þegar svo djúpstæðar spurningar vakna s.s. um líf, varðveislu og viðgang lífs.  Enginn einn hefur rétt, enginn hefur rangt. Lífið er hið jákvæða í veröldinni, gneisti vonar og kærleika. Öllu lífi fylgir ábyrgð og sú ábyrgð er vandmeðfarin.


mbl.is Vatíkanið tekur undir fordæmingu
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

New Deal og atvinnuatvinnuleysingjar

Hvernig má það vera að enn þann dag í dag er fiskur fluttur óunninn til útlanda?  Í fyrsta lagi liggur kostnaður í því að sigla með fiskinn sem samtímis rýrnar í gæðum um borð í skipunum.  Meðferð fisksins síðan í móttökulandi er með ýmsu og öllu móti. Allt er samt selt sem íslenskur fiskur og því orðstír okkar Íslendinga og vöru okkar í hættu. 

Af hverju er varan ekki fullunnin, seld sem íslensk hrávara sem unnin er til lokastigs og síðan flutt út sem hágæða vara sem enginn nema Íslendingar hafa haft með að gera? Hér er ekki bara um metnaðarmál að ræða, heldur skapast við þetta þúsundir starfa sem Íslendingar eiga að sinna með sóma og stolti. Þetta er nauðsynlegt fyrir hagkerfið og mót atvinnuleysi. Atvinnuleysistryggingasjóður er sagður tæmast við áramótin ef ekkert er að gert. Hér er lausnin. Öll íslensk framleiðsla, hvort sem það er innan fiskiðnaðar, svepparæktar, tækniframleiðslu, kjötframleiðslu, ferðaþjónustu eða hátæknihugbúnaðar, þá er hér um möguleika til starfa og það Á ÍSLANDI.

Að leggja peninga í slíkt er næring fyrir framtíðina. Það er ljóst að Íslendingar neyðast nú að vera forsjálir og hugsa til framtíðar. Skyndigróðinn fór með okkur í ræsið.  Nú er lag að hugsa til framtíðar og fá hjólin í samfélaginu að snúast eðlilega. Það er MIKILVÆGT að ekki vaxi úr grasi kynslóð sem sættir sig við atvinnuleysi og jafnvel þekkir ekki hvað er að vera úti á atvinnumarkaðinum.  Slíkt þekkist á meginlandi Evrópu og mörg dæmin til þar sem þrjár kynslóðir hafa ekki komið nærri atvinnumarkaði og teljast atvinnuatvinnuleysingjar.


mbl.is Vilja fiskinn heim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skollaleikur Gordons Brown

Það er ljóst að það er sama ruglið í gangi í Bretlandi og sömu gömlu klisjurnar notaðar hjá Gordon Brown og hjá fyrri ríkisstjórn Íslands. Þeir eru fyrir löngu búnir að gera á sig, þeir vita það og lýðurinn finnur fnykinn. Lýðurinn horfir dáleiddur á og hugsar með sér; "það er eitthvað lyktarskyninu hjá mér og sjóninni - Gordon og Geir hafa alltaf verið svo góðir gæjar."  En fólkið sá og sér rétt og ekkert er að lyktarskyninu.

Ljót lygin í gegnum árin hefur blindað þjóðina. Rausið og þunn en snúinn röksemdafærslan sýnir að hún stenst ekki. Fjármálamarkaðir Evrópu eru að krafsa í neyðarsjóði hagkerfa sinna landa. ESB ræður ekki við að skapa heildstæða aðgerðastefnu, stóru löndin Þýskaland, Bretland og Frakkland bjarga sínu eigin skinni og nýinngengnu löndin í austri eiga vart til hnífs eða skeiðar vona bara að einhver heildarstefna verði sett í framkvæmd til bjargar efnahagslífinu. Þeirra vonir verða að engu og hvern dag fækkar brauðbitunum sem falla af borði ríku ESB þjóðanna. Enginn verður saddur af því að sleikja mylsnu.  

Innviðir ESB eru graut fúnir. Efnahagsstefnan var aldrei til, heldur var hún aðeins blek á pappír. Orðin "sameiginleg efnahagsstefna" voru sem gildra sem austur Evrópulöndin stigu í og sitja nú föst.

Í þessum lygavef stendur Gordon Brown upp og krefst "aukins siðferðis". Hvílík hræsni. Hann talar um að lok "ábyrgðarleysis og óhófs" væru nauðsynleg.  Hann ætti að gera öllum hinum vitiborna heimi þann greiða að segja af sér og munstra sig á hjálpargagnaskip á leið til einhvers þess lands þar sem Alþjóðagjaldeyrisstjóðurinn hefur lagt allt í rúst.  Þar er þörf fyrir brauð og vatn. Fátækar þjóðir eru siðprúðar og lifa ekki í óhófi.  Óhóf og siðleysi sprettur upp þar sem allsnægtirnar eru sem mestar!


mbl.is Brown neitar að hann beri ábyrgð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Bíðið við: Kemur þetta ykkur á óvart?

Mér verður flökurt! 

Ég vona að þessar fréttir komi ekki fólki gersamlega á óvart, því slíkt væri grunnhyggni. Ég held að frá því að efnahagshrunið var staðreynd á Mikjálsmessu (29. sept) hafi ég í raun búist við því að einhverjir kæmust að því hversu spillingin var algjör.  Mér var sagt við upphaf málsins, þá er ég sagði að leita ætti fjármuna á erlendum reikningum á Jómfrúreyjum, Cayman Island, Liechtenstein og öðrum skattaparadísum, því eðli spillingar er jú alltaf það sama. Skiptir engu á hvaða tímum við lifum, spillingareðlið er hið sama: Reynt er að græða með óheilindum og siðleysi á tá og fingri þar til allt er að bresta. Þá er hlaupið í skjól og vanþekkingu kennt um.  Síðan hverfa þessir bófar undir jörðina og lifa í hamingjusamri spillingu í fjarlægum löndum. 

Nú vona ég að íslenska þjóðin sæki sitt réttlæti og svífist einskis. 


mbl.is Lánuðu sjálfum sér milljarða
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjórnlagaþing = djörfung og lýðræði

Varð glaður í mínu hjarta þegar ég las fréttina um tillögu að stjórnlagaþingi. Nýtt lýðræði, viðreisn góðra lýðræðislegra stjórnarhátta og hugsjónar.  Þannig sé ég hlutverk stjórnlagaþings. Stjórnarskráin verði endurmetin og látin leiða okkur inn i 21. öldina - aukið "beint" lýðræði, þjóðarkosningar um stærri málefni, aðskilnaður ríkis og kirkju, mannréttindamál, jafnréttismál, aukið vald til forseta í vissum aðstæðum, utanríkisstefna og fullveldi landsins, umhverfisstefna og hlutleysi í hernaðarbrölti nágrannalanda.   Jú að mörgu fleiru er að hyggja.  Vonandi kemst þetta á án of mikilla mótbára Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.  Þessir flokkar mega og fá ekki að standa gegn lýðræðisbótum. Það er ekkert "viðbjóðslegt" við stjórnlagaþing, Birgir Ármannsson - jafnvel þótt það sé ekki "hefð fyrir því" og jafnvel þótt Davíð hafi ekki talað um það áður.   :)
mbl.is Stjórnlagaþing kosið í haust
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Numismatik - fræðin um mynt

Um langt skeið hefur verið unnið að því í Sankti Jakobskirkjunni í Stokkhólmi að smíða sýningarskápa fyrir sautjándualdar kirkjusilfur. Leitast hefur verið við að velja fram það í eigu kirkjunnar sem er af gert er af mestu listfengi samtímis sem sögulega tengingin hefur fengið að vera meðráðandi þáttur.  Tímabilið sem valið hefur verið eru fyrstu 57 ár kirkjunnar, eða frá vígsluárinu 1643 til aldamótaársins 1700. Mikill sómi er af framkvæmdinni og hefur "Lilla kyrkomuseet" notið athygli í fjölmiðlum og meðal listelskra. Nokkrir sýningarmunanna eru taldir með besta silfurhandverki/listmuna sem til eru komnir á 17. öldinni.

Í dag bættist við lítil skál sem gleymst hafið í bankahvelfingu kirkjuna, en hún hafði verið tímasett rangt og hafnað í vitlausum kassa. Svo eftir stimplalestur við stækknunargler og brennandi heitt ljós komst undirritaður að því að skálin væri frá 17. öldinni, smíðuð af Mikael Böcke (frá ca 1640) í Stokkhólmi. Kringlótta lágmyndin er af suður þýskum uppruna, sennilega frá því um árið 1550. Þó virðist hún hafa lítinn leyndardóm að geyma, en í botni skálarinnar er minnispeningur sem setur skálina í annað breiðara sögulegt samhengi.

DSCF1978

Hér er líklega gullsmíðar/silfursmíðariðnin komin í samspil með því sem nefnt er numismatik, eða myntfræði. Upphleypta miðja skálarinnar hefur nefnilega minnismynt (sem aldrei var hugsuð sem eiginlegur gjaldmiðill) eða "kringlótta medallion" sem sýnileg er ofan og neðanfrá. Gaman væri ef einhver myntsérfræðingur myndi láta heyra frá sér og gefa nánari upplýsingar um hvaða uppruna þessi mynt eða minnispeningur eigi (samhengi og ár). 

DSCF1973DSCF1964

Að ofan gefur að líta (til vinstri) undir skálina og (til hægri) ofan í skálina. Fyrri myndin (sú sem maður sér ef skálinni er lyft upp og kíkt undir) sýnir þverskurðarmynd af kirkju með hvolfþaki, kúpli og gæti rétt eins verið úr Péturskirkjunni. Þarna gefur að líta hirðana sem komnir eru að veita Jesúbarninu lotningu. Á myndinni til hægri, eða þeirri sem maður sér þegar skálin stendur á borði, er mynd af Kristi með sigurfána umleikinn texta Biblíunnar "Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig" eða eins og textinn á innlagða peningnum segir "Ego sum via et veritas; nemo venit ad patrem nisi per me." Jóh. 14:6.

Mér dettur í hug að kannski sögufróðir myntáhugamenn kunni að vita einhver deili á þessum minnispeningi og gætu kannski skrifað athugasemd eða sent mér þá beint tölvupóst. Það áhugaverða er að hvergi er getið hlutverks skálarinnar góðu í samhengi guðsþjónustulífsins í kirkjunni. Skírnarskál hefur hún líklega aldrei verið, þar sem þrjár aðrar skírnarskálar voru til á tilkomutíma skálarinnar til kirkjunnar.

Skálin góða hefur fengið sinn verðuga stað í sýningarglugga kirkjunnar og sómir sér þar vel meðal annarra listgripa sem aðeins sýna þó brotabrot af þeirri ríku listasögu og menningarsögu sem Sankti Jakobskirkjan hefur yfir að búa.

DSCF1982

Jorma Isomettä, 1. vaktmeistari, i Sankti Jakobskirkjunni leggur skálina í sýningargluggann

 


Um list

Hvaða aðstæður þarf listin í dag til að þrífast?   Eru til einhverjir alþjóðastaðlar sem krefjast milljarðakróna húsa?  Ef við byggjum ekki tónlistarhús (sem jú alltaf er happadrætti hvað varðar hljómburð) erum við þá ekki menningarþjóð með menningarþjóðum. Ég tel, að í of mikið hafi verið ráðist af þjóð sem telur 300 000 fátækar hræður.

Stolt yfir menningu á ekkert skylt við milljarðakróna húsbyggingar. Við reisum ekki minnisvarða um fræga menn áður en þeir hafa verið fæddir, við klöppum ekki upp söngkonuna frægu sem er enn að leika sér í sandkassa. Við 300 000 manna þjóð byggjum ekki margnota tónlistarhús þegar næstum 10 milljón manna þjóð eins og Danir varð að þiggja óperuhús sitt úr höndum auðjöfurs, þar sem þjóðin ekki hafði ráð á slíku mannvirki sjálf.  Við byggjum ekki fjölnota tónleikahús samtímis og við drögum úr tónmennt, greiðum ekki kennurum sómasamleg laun, tryggjum faglærða kennara í öllum skólum og getum ekki boðið upp á háskólavist án rokdýrra "innritunargjalda".  Hver á síðan að "fylla þessa flík" sem saumuð er of stór?  Ætlum við að kaupa inn erlenda menningarstarfsemi?  Höfum við gleymt grasrótinni?  Ég held að Íslendinga og þó sérstaklega Reykvíkingar hafi hressilega farið fram úr sjálfum sér.  Milljarðakróna tónlistarhús á litla skerinu hans Jón Múla, glerhýsi barið eðju, sand- og saltblásti?  Ég held í alvöru að fólki sér ekki sjálfrátt!

 


mbl.is Tekist á um Tónlistarhús
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Norðurlandabandalag

Ég verð að játa að þessi óslitni og sígjammandi áróður fyrir upptöku EURO er óttalega fátæklegur. Fréttin sjálf er leiðandi í skoðanamyndun einstaklinga og því pólitísk.  Auðvitað myndi upptaka EURO hafa áhrif í Danmörku, það segir sig sjálft. Því fleiri lönd sem taka upp slíkan gjaldmiðil því erfiðara er að standa mót kröfum ESB sinna.  Það sem þó verður æ augljósara í allir umræðunni og sérstaklega umræðunni um EURO eru hin eiginlegu reynsludæmi sem við sjáum og heyrum af nær hvern dag.

Austantjaldslönd eiga erfitt nú á tímum efnahagskreppunnar. Þau hafa flest gengið til liðs við ESB og þannig vonað á stöðugleika og að fá að njóta ávaxta hinna vestrænni Evrópuríkja hvað samstöðu, fyrrnefndan stöðugleika og opnari markaðshlutdeild snertir. En hvað gerist þegar skóinn tekur að kreppa?  Gömlu ESB löndin storma út með viðbragðsáætlanir sínar og reyna að bjarga eigin skinni í krafti auðs síns og stórfyrirtækja og banka. Á meðan biðja nýju Austur-Evrópu ESB löndin um stöðugleika, ekki annað. Þau eru ekki með í áfallapakka Frakka eða Þjóðverja, þau eru ekki með!  Sum þessara landa hafa tekið upp eða tengst EURO. Þessi lönd eru illa stödd í dag.

EURO er ekki bara stödd á hálu svelli, heldur og í ljótum dansi eigingirninnar og þar með tákngervingur ójöfnuðs og pólitískrar fyrirgreiðslustefnu stofnlandanna. 

Það væri illur hlutur fyrir Dani að taka upp EURO. Það væri ENN VERRI hlutur fyrir Ísland að taka upp eða tengjast EURO.

Ég mæli fyrir sterku Norðurlandabandalagi sem myndi þýða náið samstarf í viðskiptum, stjórnkerfi, landhelgis og löggæslu, sama mynteining myndi vera nýtt og Norðurlandabandalagið mynd koma fram sem ein heil og sterk heild.  Þetta er mögulegt.  Hugsið ykkur stærð Norðurlandabandalagsins frá Svíþjóð/Finnlandi að Grænlandi, frá Norðurpól til miðs Atlantshafsins.  Flugumsjón, fiskveiðiumsjón og landhelgisgæsla sameiginleg, sameiginleg tollastefna og viðskiptasamningar yrðu gerði fyrir 30 000 000 í stað 300 000. Það yrði hlustað á okkur.


mbl.is Evruupptaka hefði áhrif í Danmörku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vitsgarn

Jæja, þá er maður búinn að redda sér vinnu næsta sumar. Þessi litla eyja í sænska Skerjagarðinum er litla eyríkið mitt næsta sumar. í sex vikur fæ ég að vera hæstráðandi á litla Vitsgarn og nærliggjandi eyjum. Andlegur leiðtogi eyjabúa Cool og landstjóri.  Jamm - þetta verður tvisvar þriggja vikna dvöl sem ég hef ráðið mig til þarna í sumarafleysingu sem prestur og hlakka ég mikið til.

Vitsgarn1

Vonandi verður sumarið gott og hægt að sigla, synda og sóla.  Joyful


Kristur í kreppusamfélaginu

Viðbrögð við grein ritaðri af átta guðfræðingum Önnu Sigríði Pálsdóttir, Arnfríði Guðmundsdóttir, Baldri Kristjánssyni, Hjalta Hugasyni, Pétri Péturssyni, Sólveigu Önnu Bóasdóttur, Sigrúnu Óskarsdóttir og Sigurði Árna Þórðarsyni sem birtist í Mbl. síðasliðinn sunnudag. 

_______________

Takk fyrir greinina góðu. Athyglivert að sjá hvernig kirkjan setur fram sýn og þátttöku sína núna á tímum lítillar vonar, lítillar gleði og almennt bágs ástands. Þetta var fallegur texti og hlýr eins og búast mátti við frá góðu fólki.

I.

Ég á tvö sjónarhorn til. Um leið og ég þakka aftur fyrir góða grein, vil ég benda á fyrirbærið "líf með Kristi".  Fyrra sjónarmið mitt er: Hvað tapaðist með efnahagshruninu? Lífskjör?  Fjárhagslegt öryggi? Við erum jú öll lifandi. Í hverju fólst þetta fjárhagslega öryggi?  Að lífssparnaður margra lá í hlutabréfum - var það "öryggi"?  Versnuðu lífskjör okkar?  Fá börnin okkar ekki eftir sem áður að læra að lesa, við fáum aðhlynningu þegar við verðum sjúk eða slösumst. Við fáum þjónustu í öllum greinum atvinnulífs og þjónustu sem völ er á í heiminum. Hvað er það sem tekið var frá okkur sem skipti okkur mestu máli?

Var fjölskyldan tekin frá okkur? Var matur og heilsugæsla tekin frá okkur? Hefur skólum verið lokað og við svipt möguleikum til framhaldsmenntunar á hæsta stigi?   Nei. 

Ó jú, hlutabréfamarkaðurinn hrundi.  Fyrra sjónarmið mitt er semsagt: Hurfu okkar helstu gildi og það sem okkur er dýrmætast.  Höfum við ekki bara komið nær því sem Kristur vill að við skulum nálgast, hinum æðri gildum. Boðskapur Krists hvetur okkur að flokka það sem er mikilvægt og sinna því umfram allt: Það er kærleikurinn til Guðs og til náungans. Þetta má svo útfæra þannig að (a) við elskum Guð. Við elskum hvort annað (b) og þar hafa kannanir sýnt að flestir setja fjölskyldu og vini efst á listann. Lýðræði og réttur til málfrelsis, réttur til menntunar og aðgangur að læknisþjónustu, ferðafrelsi og jafnrétti. Jú fleira má telja til og listinn verður langur, en svona hefur það sýnt sig að manneskjan "forgangsraðar" og oftast raðast efnisatriðin sem nefnd hafa verið ofarlega en alltaf meðal 10 efstu og mikilvægustu "mannréttinda" okkar.  Í síðari flokknum verkar Kristur sem viðmiðun okkar.  Hann hefur gefið okkur kærleikann sem helsta áhrifsþáttinn, mannvirðing og réttur af sama meiði og spurningin stendur enn: Hvers höfum við glatað sem skiptir okkur MIKLU máli?

Í starfi mínu í kirkjunni hef ég starfað með fólki sem á enga von. Þetta fólk er borið inn sem lama maðurinn í guðspjallinu til kirkjunnar af vinum. Lama maðurinn er "apatískur" það er að segja ófær um að hreyfa sig eða tala. Hann er "sálrænt máttvana".  Oft eru þetta manneskjur sem glatað hafa von, öryggi, réttindum og eru í raun "persona non grata" (náðarlaust fólk). Ekki er það Kristur sem hefur svipt þessa einstaklinga náð, heldur samfélagið. Samfélagið, stjórnvöld hafa afskráð þetta fólk eða gert það "náðarlaust". Oft eru þetta innflytjendur (löglegir/ólöglegir) eða fólk sem komist hefur á kant við lögin og á erfitt með að samlagast samfélagsgerðinni aftur á ný. Bæði vegna eigin skoðana og samfélagsins. Náðarlausir einstaklingar eiga bara eina von, að vera "bornir til Krists". Enginn beygir kné við þeirra hlið, Samverjar samfélagsins eru fáir og ekki sjaldan kirkjunnar fólk verst i hræsni sinni og reyna að kalla til alla sem mögulegt er til að "sjá um einstaklinginn".  Sagan um miskunnsama Samverjan fær í hvert sinn nýtt líf þegar einn svona er borinn inn í kirkjuna.

II. 

Síðara atriðið: Kirkjan á ekki að vera safnhús fyrir dýrðlinga. Hún á að vera sjúkrahús fyrir syndara. Kristur er úti á Lækjartorgi, Kristur er í Smáralind, Kristur er í þér og í mér!  Okkar er bara hleypa honum að, gefa honum rödd og hendur, hlýjan faðm og vera náunga okkar, náungi.  Þar er ég kominn að síðara atriðinu; "lífi með Kristi". Lífið með Kristi vaknar í grasrótinni hið innra. Að leyfa sér að "helgast" að byrja nýtt líf, að taka ábyrgð fyrir sjálfum sér (þótt síðar á langri ævi) er að hleypa lífsgildum Krists inn í samfélagið og inn í okkur. 

Kristur er miðlægur frá fyrsta andadrætti. Maðurinn samanstendur af líkama, sál og anda. Líkaminn tilheyrir hinu jarðneska, andinn er Guðs gjöf og sálin er bland beggja. Hún er rödd okkar, hvernig við breytum og vilji okkar. Í henni eru draumar okkar, langanir og ótti. Sálin er eins og jurt. Jurt sem þarf ljós, yl og næringu. Sinnum við sálinni vel verðum við hamingjusöm. Umhverfisþættirnir eru þá minna mikilvægir, en það sem verður mikilvægt í stað þeirra eru fyrrnefnd lífsgildi - þættirnir sem við veljum í 10 efstu sætin í forgangsröðun okkar. 

Spurningar mínar eru: Getur bágt efnahagsástand orðið til góðs?  Forgangsröðum við á ný og heilbrigðari máta?  Komumst við nær "lífinu" í kreppu?


"Græðgin er söm við sig, jafnvel þótt þeir séu gamlir og illa tenntir"

Það er ljótt að heyra og hryggilegt að íslensk stjórnvöld hafi ekki sýnt þann dug að hefja málsókn gegn Bretum fyrir Mannréttindadómstól Evrópu. Dugleysið brýtur niður móralinn og tekur frá íslensku þjóðinni það sem hún virkilega þarfnast mest á að halda nú: Samstöðu og von.  Íslenska þjóðin er vonlítil nú. Stjórnmálamenn reyna að halda í gamla tímann með málþófi á þingi, nýju sóparnir eru ekki notaðir og flest bendir til að leitast sé við að halda "status quo" í stjórnkerfinu. Nokkrir þingmenn hafa dug og áræðni að gefa sig að endurskipulagningu og hlusta á raddir fólksins, meðan aðrir reyna hvað þeir geta að nota málþóf og flokkaklæki til að halda aftur af umbótafólki. Íslenska þjóðin þurfti virkilega á þessari málsókn að halda. 

Það að Gordon Brown og bresk stjórnvöld spörkuðu í okkur liggjandi, er ófyrirgefanlegt, um leið og við vorum sem þjóð svartmáluð sem glæpamenn og óráðsíufólk. Þetta á við um nokkra einstaklinga en EKKI alla þjóðina.  Við erum hið besta friðelskandi fólk, þótt auðvitað finnist svartir sauðir inn á milli. 

Uppreisn æru og orðstýs var það sem íslenska þjóðin þurfti helst. Kostnaðurinn var metinn á 200 milljónir króna við slíka málsókn. Með það í huga að íbúð Jóns Ásgeirs Jóhannessonar í New York kostaði yfir milljarð króna eru þetta smápeningar.  Í Hávamálum er orðstýr og æra metin hæst alls. Þetta hefur ekki breyst. Hvers vegna fékk ekki Ísland, íslensk þjóð að njóta þess að hefja þessa málsókn á hendur Bretum.  Var það IMF sem sagði íslensku stjórnvöldum að þau MÆTTU ekki gera það án þess að taka heftarlegum endurgjöldum og refsingum frá þeim illa sjóði.

Allt er þetta of gegnsætt. Bretar og ESB notuðu IMF (Alþjóðagjaldeyrissjóðinn) til skrúfa enn harðar á Íslendingum þumalskrúfuna, svo hart að Íslendingar áttu enga samningastöðu. Af hverju fengu Íslendingar ekki lánafyrirgreiðslu fyrr en svo seint sem raun ber vitni um?  Voru það ekki Bretar og ESB sem vildu knésetja litla Ísland?  Það er mat margra fræðimanna, því miður. Bretar völdu sér blóraböggul sem þeir réðu við. Bretar eru hjómið eitt í alþjóða samskiptum, lifa á fornri frægð. "Hátt lætur í tómri tunnu" eins og máltækið segir. Það sannast með Breta. Því hefði það verið hollt Íslendingum og Bretum að farið hefði verið út í málsókn.  Margir segja að málið hefði verið auðunnið.  Þetta er sárt!   Að Bretar með Gordon Brown spörkuðu í liggjandi Ísland, niðurlægðu og kvöldu er lýsandi fyrir þann sem ræðst á minni máttar til að hefja sig á stall.

Ég minnist í þessu sambandi á orð "járnkanslarans" þýska Bismarcks en hann sagði um Ítali sem réðust á frumstæðar þjóðir Afríku í upphafi 20. aldar:  "Græðgin er söm við sig, jafnvel þótt þeir séu gamlir og illa tenntir."


mbl.is Hætt við málssókn gegn Bretum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband